Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:28:42 (8422)

2004-05-17 17:28:42# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér talaði sá hv. þm. sem var í liðinu sem leiddi okkur inn í GATT-samninga og inn í Brussel, opnaði landamærin í samstarfi við Alþýðuflokkinn og talar nú eins og hann hafi hvergi komið að áður. (Gripið fram í: Svei honum.) Ég verð að segja fyrir mig að hvort sem okkur líkar betur eða verr þá hygg ég að enginn hefði hafnað þeirri leið reyndar. Ég held að óhjákvæmilega verðum við að mæta nýjum WTO-samningum. Þeir verða gerðir og það verða breytingar. Við höfum frelsi til að gera okkar samninga. Við settum nefnd til að fara yfir stöðu síðasta samnings, kosti og galla, og þetta er svona framhaldið af því.

Ég vil biðja hv. þm. að tala ekki af neinni minnimáttarkennd og átta sig á því að Ísland er landbúnaðarland. Ísland er nefnilega miklu betra landbúnaðarland en menn hafa gert sér grein fyrir. Menn sjá það á þeim afurðum sem við framleiðum, hinu frábæra grasi sem vex á okkar jörð. Hér er nóttlaus voraldar veröld þar sem víðsýnin skín. Hér er bjartur dagur allan sólarhringinn fram undan, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, og þá sprettur dag og nótt þannig að við erum ekki langt á eftir Evrópu. Ég geri ykkur grein fyrir því að hér er kornuppskera að verða eins og hún er í Evrópu á mörgum stöðum, meira að segja í Skagafirði og fyrir sunnan. Ég verð að segja líka að tré vaxa hér eins og í Evrópu. Við erum því hér með mjög gott landbúnaðarland og eigum ekki að þurfa að tala af mikilli minnimáttarkennd eins og mér fannst koma fram í máli hv. þm. áðan. Ég hygg að þær breytingar sem gerðar eru frá síðasta samningi (Gripið fram í.) séu allar til heilla, að taka aðeins upp græna kassa og bláa og breyta stuðningnum til farsældar bæði fyrir bændur og neytendur. Og byggðin verður sterkari á eftir en áður.