Lokafjárlög 2000

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 12:04:15 (8545)

2004-05-18 12:04:15# 130. lþ. 119.12 fundur 326. mál: #A lokafjárlög 2000# frv. 100/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[12:04]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um lokafjárlög fyrir árið 2000. Eins og ég hef kynnst störfum fjárln. þá er það búinn að vera ánægjulegur skóli fyrir mig og að mörgu leyti fróðlegt. Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram hjá stjórnarandstöðunni að það þarf að lagfæra að við séum að fjalla um lokafjárlög löngu eftir að allir hlutir eru þar gerðir og mörgum árum eftir á. Því fagna ég yfirlýsingu formanns fjárln. um að hér sé verið að gera bragarbót á. Það stefnir í að á komandi hausti náum við að fjalla um fjáraukalög og lokafjárlög fyrir árið 2003. Því ber auðvitað að fagna og þá eru menn komnir á þann stað í ferlinu sem kveðið er á um í lögum. Ég tek heils hugar undir þau orð ræðumanna að þeim áfanga þurfum við að ná þ.e. að við séum að fjalla um þetta nokkuð í samtímanum en ekki í löngu liðinni fortíð eins og nú hefur átt sér stað.