Uppfinningar starfsmanna

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 12:54:41 (8555)

2004-05-18 12:54:41# 130. lþ. 119.20 fundur 313. mál: #A uppfinningar starfsmanna# frv. 72/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[12:54]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir prýðilega framsögu í þessu máli. Nefndin átti ánægjulegt og ágætt samstarf á síðustu vikum og mánuðum. Fróðlegt var að fara í gegnum málið með nefndinni og öllum þeim fjölda manna sem á fund hennar kom til að skýra málið og vinna að því með nefndarmönnum að lenda málinu í sátt bæði við hátæknifyrirtækin og réttindafélög starfsmanna. Skiptar skoðanir voru til að byrja með um það frv. sem fyrst lá fyrir milli fulltrúa BHM annars vegar og Íslenskrar erfðagreiningar hins vegar og mættust þar stálin stinn. Óralangt virtist í land til að byrja með og voru miklar rökræður á fundum nefndarinnar þar sem þessir fulltrúar mættu til að gera okkur grein fyrir viðhorfum sínum og sjónarmiðum.

Nefndin lagði allt kapp á, virðulegi forseti, að ná sátt í málinu, lenda þessu nauðsynlega máli þannig að ekki léki neinn einasti grunur á að það yrði til að þess að reisa einhverjar skorður við rekstri hátæknifyrirtækja á borð við Íslenska erfðagreiningu eða með nokkrum hætti að skerða réttindi starfsmanna, enda fjarri því að vera markmið og tilgangur frv. að annað af þessu tvennu hljótist af. Markmið og tilgangur málsins eru prýðileg og göfug og allir nefndarmenn og áheyrnarfulltrúar unnu hörðum höndum að því lenda þessu máli þannig að friður og full sátt næðust og ekki væri verið að ásaka menn um að með þessu móti væri vegið að sjálfum rekstrargrundvelli fyrirtækis á borð við Íslenska erfðagreiningu. Ekki átti heldur að skapast óvissa um endurgjald til starfsmanns vegna uppfinningar eða ganga gegn rétti starfsmanna sem vinna að uppfinningum og minnka réttindi þeirra á einhvern hátt eða bera þau fyrir borð. Þetta voru meginmarkmið nefndarinnar og að því unnum við mjög markvisst og vandvirknislega undir forustu formanns nefndarinnar að leiða málið þannig til lykta.

Svo rann upp sá dagur að við endaborð í nefndarherberginu sátu fulltrúar frá BHM og Íslenskri erfðagreiningu sættir heilum sáttum. Báðir alsælir með að niðurstaða skyldi nást í málið enda vildu þeir ekki síður en við lenda málinu í friði og fá að einhverju leyti fram þær breytingar sem þeir gætu fallist á svo þeir gætu talist sáttir við málið og stutt það svo fram komið, eins og kemur fram í áliti nefndarinnar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson rakti áðan. Þannig að við erum lent með þessu máli í sátt og eru fulltrúar í iðnn. mjög sáttir við það. Enda er með frv., eins og hér kemur fram og kom fram í máli nefndarformanns, fyrst og fremst stefnt að því að setja almennar reglur um uppfinningar starfsmanna sem taka bæði tillit til atvinnurekenda, eins og ég gat um áðan, í þessu tilfelli í líki Íslenskrar erfðagreiningar svo og starfsmanna. Fulltrúar þeirra á fundum nefndarinnar voru forustumenn BHM, m.a. Gísli Tryggvason, sá mæti maður. Reglurnar eiga að taka bæði tillit til hagsmuna atvinnurekenda og starfsmanna þannig að þeir þurfa ekki að semja sín á milli um öll atriði. Þessi atriði liggi sem sagt fyrir.

Á fundi nefndarinnar kom fram að eitt af markmiðum með frv. væri að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að marka sér stefnu í þessum málum og eyða allri tæknilegri óvissu um réttarstöðu þegar uppfinning er gerð í starfi. Í athugasemdum um frv. til laga um einkaleyfi er tekið fram að þau mundu ekki taka til uppfinninga starfsmanna. Þess vegna ræddi nefndin málið á mörgum fundum og voru ófrávíkjanleg ákvæði frv. sérstaklega rædd þar og niðurstaðan sú, eins og fram kom áðan, að reglurnar ættu að vera almennar og ekki væri rétt að fastsetja sérstaka reglu, enda gætu verið ólík sjónarmið uppi um það hvað teljist sanngjarnt. Mjög eftirminnilegar samræður spunnust um það á milli lögfræðinganna sem komu á fund nefndarinnar hvað orðið ,,sanngjarn`` þýddi og hafði sá sem hér stendur ekki haft hugmyndaflug til að ímynda sér að svo ólíka og undarlega merkingu mætti leggja í orðið sanngjarn í lagatúlkunum um það. Það var eitt af því sem var mjög upplýsandi og athyglisvert í þessu nefndarstarfi, þ.e. að fá innsýn í þennan mjög svo sérkennilega hugarheim sem ýmsir lögfræðingar og ýmsir aðrir hrærast í.

[13:00]

Talinu vék svo, eins og fram kom, sérstaklega að hátæknigeiranum, þar eru tímanna tákn uppi sem sýna mikilvægi þess að þetta frv. verði að lögum. Atvinnuumhverfi hefur gerbreyst á síðustu árum og hátæknifyrirtæki rutt sér svo hressilega til rúms að þau eru farin að marka verulega atvinnustarfsemi víðast á Vesturlöndum. Þar höfum við séð Finnland langfremst í broddi fylkingar, enda hafa Finnar sérstaklega lagt sig fram um að setja fé til þeirra mennta sem eru undirstaða hátæknifyrirtækjanna. Segja má að allt okkar atvinnuumhverfi hafi gerbreyst á undanförnum árum. Nefna má mörg hátæknifyrirtæki sem eiga sér mjög glæsilega sögu á síðustu árum og hafa byggt upp sína starfsemi með afburðagóðum árangri. Að sjálfsögðu er aldrei hægt að ræða um hátæknigeirann eða þau fyrirtæki án þess að taka sérstaklega til Íslenskrar erfðagreiningar og því kom það fyrirtæki sérstaklega að þessu máli.

Í frv. segir, án þess að ég hafi það orðrétt eftir, að algengara sé orðið og sérstaklega í hátæknigeiranum að fyrirtæki ráði til sín starfsmenn beinlínis til rannsókna og þróunarstarfa, til að vinna að uppfinningum, koma þeim á framfæri eða fullgera þær. Aðkoma starfsmanna að uppfinningastarfsemi er sem sagt margvísleg. Það getur verið um það ræða að vísir að hinni endanlegu uppfinningu sé að einhverju leyti fæddur og starfsmaður eða hópur starfsmanna hafi unnið að henni í langan tíma og svo sé ráðinn sérstaklega nýr starfsmaður eða teymi starfsmanna eða tríó til að halda áfram að þróa uppfinninguna. Þess vegna má enginn vafi leika á um réttindi hvers manns, réttindi fyrirtækisins, réttindi þess starfsmanns sem vann að henni upphaflega o.s.frv. Og því er svo mikilvægt að fyrirtæki geti á grundvelli laga um uppfinningar starfsmanna ráðið starfsmenn beinlínis til rannsókna- og þróunarstarfa til að vinna að uppfinningum.

(Forseti (SP): Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni þar sem til stendur að gera hlé á þingfundi.)

Ég gæti verið hér í langan tíma en ég gæti líka dregið mál mitt saman þannig að það gefist kostur á hádegishléi en er forseti annars að bjóða mér upp á að halda áfram eftir hádegishléið?

(Forseti (SP): Að sjálfsögðu. Hv. þm. getur valið hvort hann vill ljúka ræðu sinni hér á stuttum tíma eða halda áfram eftir hlé.)

Ég held áfram eftir hlé. Ég treysti mér ekki til að draga ræðuna svo hratt saman.