Einkaleyfi

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 13:56:18 (8559)

2004-05-18 13:56:18# 130. lþ. 119.22 fundur 751. mál: #A einkaleyfi# (evrópski einkaleyfasamningurinn o.fl.) frv. 53/2004, Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Frsm. iðnn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Iðnn. fékk til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum og er að finna á þskj. 1122. Í því frv. er gerð rækilega grein fyrir tilgangi frv. og aðdraganda þess en í stuttu máli er efni þess það að lagðar eru til breytingar annars vegar vegna væntanlegrar aðildar Íslands að Evrópska einkaleyfasamningnum og hins vegar vegna ákvæða samstarfssamningsins um einkaleyfi og samræmingar við þróun framkvæmdar á alþjóðavettvangi.

Í frv. er bætt við nýjum kafla í gildandi lögum um einkaleyfi sem fjallar þá um hin evrópsku einkaleyfi og skapaður lagagrundvöllur fyrir því að unnt sé að framfylgja ákvæðum einkaleyfasamningsins hér á landi. Breytingin felur í sér að umsóknir um evrópsk einkaleyfi eru veittar á Evrópsku einkaleyfastofunni EPO og skulu lagðar inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni sem viðtökuaðila umsóknar hér á landi. Einkaleyfastofan íslenska framsendir umsóknir til EPO. Árgjöld vegna umsókna eru greidd til EPO en eftir veitingu fær einkaleyfastofan 50% árgjalda og útgáfugjalda.

Iðnn. hefur lokið athugun á þessu máli og skilað af sér nefndaráliti sem er að finna á þskj. 1641 og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn. fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti og Ástu Valdimarsdóttur og Lilju Aðalsteinsdóttur frá Einkaleyfastofunni. Þá hafa borist umsagnir um málið frá Einkaleyfastofunni, Samtökum iðnaðarins, Pharmaco hf., A & P Árnasyni ehf., Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Verslunarráði Íslands, Byggðastofnun, Háskóla Íslands, Orkustofnun, Sigurjónssyni og Thor ehf. og Faktor einkaleyfaskrifstofu ehf.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um einkaleyfi, annars vegar vegna væntanlegrar aðildar Íslands að evrópska einkaleyfasamningnum og hins vegar vegna ákvæða samstarfssamningsins um einkaleyfi og samræmingar við þróun framkvæmdar á alþjóðavettvangi. Umsóknir um evrópskt einkaleyfi verða því mótteknar af Evrópsku einkaleyfastofunni og skulu lagðar inn þar eða hjá Einkaleyfastofunni sem tekur við umsóknum hér á landi.

Á fundum nefndarinnar voru áhrif þessara breytinga á íslenskt atvinnulíf rædd en telja verður að þau séu mjög jákvæð og bæti almennt viðskiptaumhverfi og samkeppnisstöðu fyrirtækja hér. Markmiðið með evrópska einkaleyfasamningnum er að styrkja samvinnu um vernd uppfinninga og er unnið að því með því að veita einkaleyfi á grundvelli sameiginlegrar málsmeðferðar. Ljóst er að það er ótvíræður kostur að geta með einni umsókn í evrópska einkaleyfakerfinu sótt um einkaleyfi í hverju þeirra 28 ríkja sem eru aðilar að samningnum. Þá er upplýst að kostnaðurinn við það að fá einkaleyfi er talinn samsvara því að fá einkaleyfi í þremur ríkjum.

Nokkuð var rætt um áhrif aðildar samningsins á iðnaðinn og þá sérstaklega samheitalyfjaiðnaðinn en samkvæmt íslenskum einkaleyfalögum hafa íslensk lyfjafyrirtæki hingað til notið rúmra heimilda til framleiðslu samheitalyfja. Aðildin getur haft einhver neikvæð áhrif þar sem að fjölgun getur orðið á einkaleyfum lítilla erlendra lyfjaframleiðenda hér á landi. Á móti kemur að Evrópusambandið er um þessar mundir að reka formlega smiðshöggið á frjálslegri reglur um þróun og skráningu samheitalyfja, svonefnd Bolar-ákvæði, sem munu hafa jákvæð áhrif. Í þeim felst sambærilegt svigrúm og íslenskur samheitalyfjaiðnaður hefur hingað til haft. Gert er ráð fyrir að þær reglur verði teknar upp á Evrópska efnahagssvæðinu fljótlega og er stefnt að því að jákvæðra áhrifa þeirra muni gæta hér á landi um svipað leyti og ef af aðild að evrópska einkaleyfasamningnum verður. Upplýst var fyrir nefndinni að ekki hefði verið tekin formleg ákvörðun um málið hjá Evrópusambandinu og telur nefndin því eðlilegt að bíða með að breyta reglum.

Þá var rætt um það nýmæli frumvarpsins að afnema þá takmörkun gildandi laga varðandi einkaleyfishæfi þekktra efna og efnasambanda sem nota á við lækningaaðferðir að um fyrstu læknisfræðilega notkun þurfi að vera að ræða. Kom fram að uppfylla þyrfti öll sömu skilyrði og ef um fyrstu notkun væri að ræða, þ.e. að uppfinningin væri ný og hefði nýja virkni og því unnt að fá einkaleyfi fyrir henni. Samkvæmt því væri hægt að fá einkaleyfi á þekktu efni sem hægt væri að nota í læknisfræðilegum tilgangi ef fundin yrði einhver ný notkun á því. Má nefna sem dæmi lyf sem var notað sem flogaveikilyf en seinna uppgötvað að það var mjög gott verkjalyf og var því veitt einkaleyfi sérstaklega fyrir þeirri notkun.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali og varða þær málsfarsleg atriði og lagfæringar á þýðingu evrópska einkaleyfasamningsins. Þá er lagt til að gildistökuákvæði laganna sem varða samninginn og þær breytingar sem gerðar voru á honum árið 2000 miðist við birtingu auglýsingar ráðherra um að samningurinn og breytingarnar hafi öðlast gildi að því er Ísland varðar. Loks telur nefndin rétt að taka fylgiskjölin upp í lögin með sérstakri grein þar sem þau eiga að vera hluti laganna.

Einar Oddur Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Steingrímur J. Sigfússon sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu. Undir nál. skrifa Kristinn H. Gunnarsson, Kjartan Ólafsson, Kristján L. Möller, Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigurjón Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson og Björgvin G. Sigurðsson.

[14:00]

Breytingarnar er að finna á þskj. 1642 og eru í sjö tölusettum liðum.

1. brtt. lýtur í raun og veru einvörðungu að málfarslegum atriðum. Í frv. er notað orðalagið ,,Einkaleyfastofan skal gefa umsókn umsóknardag`` og því er breytt í: Einkaleyfastofan ákvarðar umsóknardag o.s.frv. og aðrar hliðstæðar breytingar á 2. gr. frv.

Í öðru lagi er sú breyting á 2. gr. frv. að í stað þess að talað er um ,,veitingu umsóknardags`` kemur: ákvörðun umsóknardags.

2. brtt. gerir breytingar á 5. gr. frv. og eru þær einvörðungu málfarslegar.

3. brtt. lýtur að 8. gr. frv. og breytir ákvæðinu í d-lið 8. gr. og er í raun málfarslegt atriði. Í frv. stendur ,,alþjóðlegum nýnæmisrannsóknaryfirvöldum`` og það þótti dálítið óþjált í lagatexta að tala um nýnæmisrannsóknaryfirvöld í einu orði og því er breytt í: yfirvöldum sem framkvæma alþjóðlega nýnæmisrannsókn.

Síðar í sömu málsgrein 8. gr. stendur ,,alþjóðaskrifstofunni`` og því er breytt í: Alþjóðahugverkastofnuninni, sem er skammstafað á ensku WIPO þannig að það fari ekki á milli mála við hvaða stofnun er átt.

4. brtt. gerir breytingar á 9. gr. frv. en sú grein er í raun heill nýr kafli í lögin um einkaleyfi og sá kafli heitir Evrópsk einkaleyfi og er eiginlega þungamiðjan í frv. Gerðar eru nokkrar breytingar á greinum í þessum nýja kafla í 4. brtt. á þskj. 1642. Það má segja að þær séu flestar málfarslegs eðlis sem óþarft er að rekja nánar og nægir að vísa til þingskjalanna til útskýringar því það eru ekki efnislegar breytingar í þeim nema að í 77. gr. sem verður í nýju lögunum eftir samþykkt frv. er sett inn ákvæði til að skýra hvenær tilkynning um einkaleyfi telst hafa verið birt og sett er inn ákvæði sem felur ráðherra að setja reglugerð um frekari ákvörðun að þessu leyti þannig að það fari ekki á milli mála því það þótti ekki alveg ljóst í frumvarpstextanum hvernig því yrði háttað. En eftir breytinguna mun ráðherra gefa út reglugerð þar sem þetta verður skýrt.

Þá er breyting á h-lið 9. gr. frv. sem verður 82. gr. laganna og í stað þess að orða lagatextann þannig: ,,Frá því að umsókn fær umsóknardag hjá Evrópsku einkaleyfastofunni`` orðast hann svo: Frá því að Evrópska einkaleyfastofan ákvarðar umsóknardag. Í þessu felst ekki efnisleg breyting.

Þá vík ég að p-lið 9. gr. sem verður 89. gr. laganna eftir samþykkt frv. Þar er gerð breyting á ákvæðum þessarar greinar og gert skýrar að vísað er í ákvæði evrópska einkaleyfasamningsins og bókunar með samningnum.

5. brtt. nefndarinnar lýtur að því að bæta nýrri grein inn í frv. sem verður þá 10. gr. frv. Þar eru tekin upp fylgiskjöl sem fylgja með frv., fskj. I og fskj. II. Fylgiskjal I hefur að geyma þrjár greinar úr evrópska einkaleyfasamningnum sem þurfa að hafa lagagildi hér á landi óbreyttar en fskj. II hefur að geyma bókun um lögsögu og viðurkenningu dómsúrskurðar varðandi rétt til að fá veitt evrópsk einkaleyfi. Þessi tvö fylgiskjöl sem samkvæmt frv. fylgir eftir lagatextanum en á að hafa lagagildi þykir nefndinni rétt að setja inn í lagatextann með sérstakri grein sem verður þá 10. gr. frv. en er að öðru leyti óbreytt.

Herra forseti. Að lokum eru breytingar á 10. gr. frv. Þar er fjallað um gildistöku frv. og þótti rétt að gera breytingar þar á til þess að skýrar væri hvenær lögin öðluðust gildi eða einstakar greinar frv. öðlast gildi. Í frv. segir að ákvæði tilgreindra laga öðlist gildi þegar birt er auglýsing um að Ísland hafi gerst aðili að Evrópska einkaleyfasamningnum. Það er ekki alveg ljóst hvenær það verður og það vill oft dragast að birta þessar auglýsingar í C-deild Stjórnartíðinda þannig að til þess að ekki verði vafi á því eða að gildistakan dragist ekki fram yfir það sem eðlilegt er leggur nefndin til að breyta þessu ákvæði gildistökugreinarinnar á þann veg að ráðherra, þ.e. iðnrh., birti auglýsingu um að samningurinn hafi öðlast gildi. Það mun leiða af sér að birtingin verður fyrr og væntanlega mun iðnrn. fylgjast vel með framgangi málsins og birta um hæl auglýsingu um gildistöku samningsins þegar hún hefur átt sér stað og það mun þá ekki dragast að ákvæði laganna öðlist gildi.

Þá hef ég lokið við að fara yfir breytingartillögur nefndarinnar, herra forseti, og ítreka það að nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum. Ég vil að lokum þakka nefndarmönnum fyrir ágætt samstarf um þetta mál og fleiri sem á undan hafa verið rædd á þessum þingfundi. Það er ánægjulegt þegar tekst að ljúka afgreiðslu mála með samstöðu í nefndum og ég legg mikið upp úr því að jafnaði að það takist og er ánægður með að svo góður árangur hafi orðið með það að þessu sinni.