Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 17:36:48 (8601)

2004-05-18 17:36:48# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[17:36]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Frú forseti. Það er spurning hvar maður á að byrja. Þetta var býsna víðtækt andsvar hjá hv. þm. en ég skal reyna að gera mitt besta.

Það kemur mér reyndar mjög á óvart ef það eru ný tíðindi fyrir hv. þm. sem ég sagði því að það hafa ýmsir haldið því fram. Ástæðan fyrir því er eins og ég sagði áðan að ég hafði atvinnu af þeim málum þegar þau voru að færast yfir. Ég starfaði við þessi mál frá 1996--1999 og það voru gerðar úttektir á þeim tíma. Ég man eftir að hafa séð ýmsa útreikninga varðandi málið og skýrslur sem sýndu þetta svart á hvítu. Hins vegar getur það verið rétt ef þessi borgarafundur hefur verið haldinn nýlega í Skagafirði að ekki sé búið að gera úttekt alveg frá upphafi til enda varðandi alla þætti málsins en það er auðvitað miklu flóknara en svo að það sé hægt að gera það öðruvísi en að fara yfir það líka hver tók ákvörðun um hvað og hvaða þróun hefur orðið á ýmsum sviðum. Það sem ég er að tala um er fyrst og fremst það sem kom í ljós þegar menn höfðu samanburðartölurnar á milli og skýrslan var, ef ég man rétt, gerð af virtu endurskoðunarfyrirtæki, KPMG, sem fór yfir málið og sýndi fram á þetta.

Það eru auðvitað ýmsir aðrir þættir sem koma inn í þetta mál. En varðandi það sem hv. þm. spurði um, hvort sameining leysti allan vanda, þá held ég að ég hafi tekið það fram í ræðu minni að það væri víðs fjarri að hún leysti allan vanda. Það er allt annar handleggur. Sameining er hins vegar nauðsynlegur hluti af því að leysa vandann og mun tryggja það að við stöndum betur að vígi til að leysa margvíslegan vanda sem við þurfum að takast á við. Með henni mundum við auðvitað efla stjórnsýsluna og bæta þjónustuna sem er bara hluti af nútímanum. Við verðum að geta tryggt það að um allt land sé sú lágmarksþjónusta sem fólk krefst í nútímasamfélagi.