Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:24:12 (8639)

2004-05-19 10:24:12# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við ættum e.t.v. ekki síður að vera að ræða málefni Palestínu miðað við þær hörmulegu fréttir sem þaðan berast. Þar berum við líka mikla ábyrgð. Þessi umræða fer fram í andrúmslofti vinnubragða sem þekkjast ekki í öðrum þjóðþingum. Það á vel við af því að ákvarðanirnar sem voru teknar um stuðning við innrás í Írak eru stórlega gagnrýnisverðar og ekki séð enn þá hvernig staðið var að þeim. Allt sem var sagt þá um ástæður innrásar hefur fallið um sjálft sig. Það átti að fara inn og sækja vopn. Það átti að hjálpa fólki sem vildi verða frjálst. Það mátti ekki leyfa Blix og eftirlitsnefnd hans að ljúka vopnaleit. Engin vopn hafa fundist. Það hafa verið miklir bardagar, saklausir borgarar hafa fallið og ömurlegar fréttir hafa borist um pyndingar af hálfu þess liðs sem við styðjum.

Þessi innrás hefur verið erfið þeim sem upphaflega tóku þessar vafasömu ákvarðanir. Bush forseti sætir mikilli gagnrýni heima fyrir og pólitísk framtíð Blairs í Bretlandi er greinilega í mikilli hættu. Rannsóknarnefndir hafa verið settar á laggir í þessum löndum til að kanna forsendur og sannleiksgildi upplýsinga í öndverðu. Í Danmörku var settur á laggir stór fundur utanríkismálanefndar um Írak þar sem sérfræðingar, háskólaprófessorar auk stjórnmálamanna voru leiddir til og birt skýrsla sem má finna á netinu og kynna sér. Utanríkisráðherra Danmerkur, hv. formaður utanrmn. á Íslandi, kynnti utanrmn. sinni það sem fram undan var á sínum tíma. Okkur hefur ekkert verið kynnt og hver eru tækin sem við höfum? Hvenær kemur að okkar rannsókn? Hvaða tæki höfum við til að birta þjóðinni (Forseti hringir.) forsendur ákvarðana sem þessi ríkisstjórn tók? (Forseti hringir.) Hvenær kemur það?