Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:30:35 (8642)

2004-05-19 10:30:35# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:30]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Írakska þjóðin leið undir harðstjórn Husseins forseta en kvöl hennar er ekki minni eftir innrás bandaríska hernámsliðsins. Þjóðin riðar nú á barmi borgarastyrjaldar. Á hverjum degi berast fréttir af mannfalli óbreyttra borgara. Hve margir þeir eru veit enginn. Tölu þeirra er ekki haldið saman af hernámsliðinu. Genfarsáttmálinn er ekki virtur að þessu leyti frekar en í fangelsum landsins þar sem skipulegum pyndingum er beitt. Pyndingarnar virðast stundaðar með skipulögðum hætti og svipar mjög til ódæðisverka fyrrverandi harðstjóra.

Með því að setja Ísland á lista hinna staðföstu stuðningsþjóða Bandaríkjanna við innrás í Írak erum við samábyrg í innrás og hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna, innrás sem byggðist á blekkingum, lygum og vinnubrögðum þeirra sem vildu tryggja réttum aðilum yfirráð yfir auðlindum Íraks.

Á því rúma ári sem liðið hefur frá innrásinni í Írak hefur lygavefurinn smám saman verið að koma í ljós og nú, þegar ekki er lengur hægt að skýla sér á bak við ógn af gereyðingarvopnum Íraka, verða íslenskir ráðamenn að viðurkenna að hafa verið blekktir til stuðnings við tilgangslaust stríð, biðjast afsökunar og fordæma hernaðaraðgerðirnar með formlegum hætti. Við áttum, og eigum enn, að stuðla að aðkomu SÞ við endurreisn samfélagsins í Írak. Það þurfti ekki mikið til að hefja stríðið í Írak en það verður erfiðara að koma hernámsliðinu út úr landinu aftur. Ógnarstjórn og ofríki ala af sér meiri ógn og hryðjuverk. Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi. Út úr þessum vítahring verður ekki komist nema með friðsamlegum aðgerðum og auknum skilningi á milli hinna ólíku menningarheima og jöfnun lífsskilyrða jarðarbúa.