Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:32:47 (8643)

2004-05-19 10:32:47# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og svör þar sem fyrst og fremst var eitt til að gleðjast yfir, að menn hafi þó kallað í bandaríska sendiherrann og tautað eitthvað við hann.

Að öðru leyti vil ég segja að það er kostulegt þegar maður verður vitni að tilraunum til að endurrita samtímasöguna fyrir augunum á manni. Nú er sagt að ástæður innrásarinnar hafi verið margar og reynt að gera lítið úr gereyðingarvopnaþættinum í þeim. Nú segir formaður utanrmn. að það hafi verið haft samráð við utanrmn. (RG: ... réttum ...) Hvort tveggja er alrangt, hvort tveggja eru aumkunarverðir tilburðir til að laga vondan málstað eftir á.

Hæstv. utanrrh. sagði áðan að íslensk stjórnvöld styddu aðgerðir til að koma Saddam Hussein frá völdum. Það var bara alls ekki hinn yfirlýsti tilgangur aðgerðanna, enda óheimilt samkvæmt stofnsáttmála SÞ að ráðast á land bara til að skipta þar um stjórn. Sá samningur geymir engin ákvæði sem heimila slíkt.

Hæstv. utanrrh. vitnaði í skoðanakönnun sem sýndi að menn í Írak vildu ekki snúa aftur til tíma Saddams. Varla von. Skoðanakannanir sýna bara líka að yfirgnæfandi meiri hluti íröksku þjóðarinnar vill að hernámsliðið hverfi úr landi. Írakar vilja reyna að leysa sín mál sjálfir. Um það eru allar fylkingar, þjóðarbrot og trúarhópar sammála enda hernámið ólöglegt og virðist ekki vera að gera neitt annað en ástandið verra, og þeim mun verra sem það stendur lengur.

Ég harma það, herra forseti, að fá ekki svör við spurningum mínum um afsökunarbeiðni frá forsrh. og utanrrh. Sú krafa mín stendur. Þessir hæstv. ráðherrar skulda íslensku og íröksku þjóðinni afsökunarbeiðni. Sú er lágmarkskrafan. Ef eitthvað er væri ástæða til að fara fram á meira en minna af þeirra hálfu.