Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 11:44:09 (8651)

2004-05-19 11:44:09# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[11:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sú umræða sem hefur átt sér stað um þetta mál hefur verið löng og ítarleg og margt hefur komið fram í henni. Eitt er þó ljóst að henni lokinni, það er almenn samstaða um það hér á hv. Alþingi og ég hygg í þjóðfélaginu að nauðsynlegt sé að setja löggjöf sem hamlar gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og tryggir fjölbreytni í fjölmiðlun. Út af fyrir sig er mikilvægt að fram skuli hafa komið að slíkt er nauðsynlegt.

Þá vildi ég víkja að þeim spurningum sem einkum hafa komið upp í sambandi við þetta mál og þau gagnrýnisatriði sem þar hafa komið fram. Fyrsta atriðið lýtur að afturvirkni, þ.e. hvort hér sé verið að setja afturvirka löggjöf sem taki með einhverjum hætti þau réttindi af aðilum sem þeir búa við í dag. Svarið er nei. Það er ekkert í frv. eins og það liggur nú fyrir sem tekur slíkan rétt af aðilum, tekur leyfi af þeim, og það er ljóst að aðlögunartími til þess að aðlagast þessu breytta umhverfi er tvö ár.

Í umræðunni hefur líka verið rætt mikið um takmörkun á eignarhaldi. Í mínum huga hefur það ekki verið neinum vafa undirorpið að það er talið eðlilegt og nauðsynlegt að takmarka eignarhald í fjölmiðlum þannig að enginn einn aðili ráði yfir þeim og það sé betra og nauðsynlegt að eignaraðild að slíkum fjölmiðlum dreifist sem mest.

Eins og frv. er nú úr garði gert er gert ráð fyrir því að enginn einn aðili megi eiga meira en 35%. Þó er gerð sú undantekning að markaðsráðandi aðili að áliti Samkeppnisstofnunar megi aðeins eiga 5%. Þá kemur að sjálfsögðu upp spurning sem hv. þm. þurfa að spyrja sjálfa sig og svara: Er eðlilegt og nauðsynlegt að markaðsráðandi aðilar hafi minni möguleika á eignarhaldi og ráðstöfun fjölmiðla en aðrir? Ég svara þeirri spurningu játandi. Ég tel fulla ástæðu til þess að markaðsráðandi aðilar hafi minni möguleika á því að vera ráðandi afl í fjölmiðlum en önnur fyrirtæki.

Sú spurning hefur líka komið upp í þessari umræðu hvort eðlilegt sé að dagblað og ljósvakamiðill séu rekin í einu og sama fyrirtækinu. Mér finnst eðlilegt að slíkir miðlar séu reknir hvor í sínu fyrirtækinu, það hljóti að tryggja meiri fjölbreytni og meiri umfjöllun á fjölmiðlamarkaði eins og það hefur verið svo lengi sem ég man þar til nú.

Í þessu sambandi er líka spurning hver sé markaðsráðandi. Það liggur fyrir að Samkeppnisstofnun skal úrskurða um það. Það er ekkert hægt að fullyrða um það nákvæmlega hverjir eru markaðsráðandi nema að fyrir liggi úrskurðir um einstaka fyrirtæki á Íslandi. Enginn getur sagt til um það hvaða fyrirtæki verða markaðsráðandi á Íslandi að tveimur árum liðnum þannig að að því leytinu til er mjög erfitt að fullyrða um það hvaða fyrirtæki koma til með að eiga í hlut þegar þar að kemur.

Þá kemur upp í þessari umræðu, og hefur verið mjög ríkt í henni, spurningin um stjórnarskrána. Hún er mjög eðlileg vegna þess að öll höfum við alþingismenn unnið heit að því að virða stjórnarskrána. Ég er alveg viss um að hver og einn einasti alþingismaður vill gera það. Nokkur álitamál hafa verið í umræðunni, í fyrsta lagi hvort um afturvirkni sé að ræða sem er viðkvæmt gagnvart stjórnarskrá. Svarið er nei. Samrýmist það stjórnarskrá að takmarka eignarhald í fjölmiðlum? Ég heyri ekki betur en að flestir svari þeirri spurningu játandi. Samrýmist það stjórnarskrá að takmarka sérstaklega eignarhald markaðsráðandi fyrirtækja? Því hefur verið haldið fram að það geti ekki samrýmst stjórnarskránni að banna það algjörlega. Það er ekki verið að gera það en það er verið að takmarka það. Og uppi er umræða um það af eðlilegum ástæðum hvað sú takmörkun geti verið mikil. Getur hún miðast við 5%? Getur hún miðast við 7%? Getur hún miðast við 10%? Getur hún kannski miðast við eitthvað annað?

Það liggur alveg ljóst fyrir að enginn er tilbúinn til að svara nákvæmlega þeirri spurningu hvert það hlutfall getur verið. Það er álit okkar sem stöndum að þessu frv. ríkisstjórnarinnar að það geti verið 5%. Og þó að við höfum unnið það heit á Alþingi að virða stjórnarskrá okkar höfum við aldrei unnið það heit að það geti aldrei reynt á túlkun hennar. (ÖS: ... gerir í málinu.) (Gripið fram í: Taka til ...)

Ég vil minna hv. þingmenn á að hér var einu sinni mikil umræða um svokallað öryrkjamál. Hæstaréttardómur féll um það að tekjutengingar í sambandi við útreikning maka á örorkulífeyri hefðu gengið of langt. Það má rekja til þess tíma að Alþýðuflokkurinn sálugi var í ríkisstjórn (ÖS: ... varaðir við.) en ég ætla ekki að halda því fram að Alþýðuflokkurinn sálugi hafi gert það vegna þess að hann hafi viljað taka sénsinn heldur væntanlega vegna þess að hann hefur verið þessarar skoðunar. Þetta byggir á því að við höfum einhverja skoðun á Alþingi.

Hvað gerðist svo? Fengum við svar frá Hæstarétti um það hver þessi takmörkun ætti að vera, og mætti vera nákvæmlega? (RG: Við hefðum ...) Nei, að sjálfsögðu ekki. (Gripið fram í.) Ég bið hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að veita mér málfrelsi þó að það væri ekki nema einu sinni í viku.

(Forseti (JóhS): Forseti tekur undir það.)

Það virðist vera í hvert skipti sem ég stíg í ræðustól, frú forseti, sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar vilji ekki virða mér þann lýðræðislega rétt að tala á Alþingi. (ÖS: Þú fékkst hann í morgun.) Ég get beðið, frú forseti.

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þingmenn að sýna hæstv. utanrrh. þá kurteisi að leyfa honum að ljúka hér máli sínu án mikilla frammíkalla.)

Ég þakka virðulegum forseta fyrir það.

Það sem gerðist var það að stjórnarandstaðan á Alþingi hélt því fram að stjórnarskráin bannaði okkur að tekjutengja örorkulífeyri við lífeyri maka. Ekkert annað en það. Það væri algerlega bannað samkvæmt stjórnarskránni. Ég man eftir að ég viðhafði þau orð þá að ef það væri bannað samkvæmt stjórnarskránni að nota tekjutengingar hefði ég ekkert lengur í stjórnmálum að gera. Ef ekki má eiga sér stað tekjujöfnun í þessu samfélagi, ef stjórnarskráin okkar bannar það, hvað ætla alþingismenn þá almennt að gera í stjórnmálum?

Hvað gerðist svo? Menn komu sér saman um nýja skilgreiningu sem var hærri. Löggjafinn setti ný lög sem fóru líka til Hæstaréttar og voru dæmd þannig að þau stæðust ákvæði stjórnarskrárinnar. Þarna var um samspil löggjafarvalds og dómsvalds að ræða sem endaði í ákveðinni niðurstöðu, því erfiða samspili sem varðar túlkun stjórnarskrárinnar. Ég ítreka að ég tel mig að sjálfsögðu hafa fulla heimild til þess sem alþingismaður að hafa skoðun á því sem ég vil gera en ég geri mér grein fyrir því að einhver álitamál kunna að koma upp í túlkun þess sem Alþingi kann að ákveða. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf verða. Ef það væri ekki þannig gætum við ansi lítið af lögum sett oft og tíðum vegna þess að þá væri alltaf sagt: Þú hefur þessa skoðun en þú getur ekki haft hana, góði minn, því það er svo augljóst að það brýtur stjórnarskrána. Ég mótmæli því að við höfum þær skyldur að það geti aldrei komið til túlkunar á stjórnarskránni. Hún er ekki nákvæmt plagg sem segir nákvæmlega til um það hvernig hlutirnir eiga að vera og mega vera. Hún er eins og annað í lífinu, hefur mikilvægar leiðbeiningar en hún er ekki nákvæmt skjal sem segir okkur nákvæmlega til um það hvað við megum og hvað ekki.

Síðan er því haldið fram að það standist e.t.v. ekki ákvæði stjórnarskrárinnar að dagblað og ljósvakamiðill þurfi að vera hvort í sinni eigu. Mér finnst ekkert benda til þess að svo sé. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að það sé hvort í eigu síns fyrirtækisins. (Gripið fram í.) Mér finnst það fullkomlega eðlilegt. Ég vildi ekki sjá að allir fjölmiðlarnir væru meira og minna í eigu eins og sama fyrirtækisins. Morgunblaðið væri þá þar með væntanlega. Ég held að allir geti verið sammála um það.

Ég vildi svo aðeins koma að því að hér hefur verið rætt um að þetta beinist að einu fyrirtæki. Svo er alls ekki. Ég var afskaplega glaður þegar ég heyrði í morgun stjórnarformann tiltekins fyrirtækis segja blákalt að það fyrirtæki mundi standast þessi lög og starfa áfram. Látið hefur verið í veðri vaka að til stæði að segja þar öllu fólki upp og umræðan gengið út á að hræða þetta fólk. Það er að mínu mati ósæmilegt. Ég virði stjórnarformann þessa tiltekna fyrirtækis vegna þess að hann hefur komið fram í þessari umræðu af mikilli hógværð og með málefnalegum hætti. Mér finnst það mjög virðingarvert af þessum ágæta stjórnarformanni.

Síðan hefur viðkomandi fyrirtæki sagt að það ætli sér að leita réttar síns. Auðvitað á það rétt á því. Það hefur góðan tíma til þess. Það liggur fyrir að þessi lög taka ekki gildi fyrr en eftir tvö ár. Fyrirtækið hefur sagt t.d. að það mundi leita til Eftirlitsstofnunar Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, og hugsanlega til EFTA-dómstólsins í framhaldi af því. Mér finnst eðlilegt að um slíkt mál sé fjallað eins hratt og mögulegt er, eins og öll önnur mál. Ég mun fyrir mitt leyti óska eftir því við þá eftirlitsstofnun að hún sinni því máli hratt og vel þó að henni beri engin sérstök skylda til að taka tillit til þess. Mér finnst nauðsynlegt að það sé gert. Síðan hafa aðilar möguleika á því að leita til innlendra dómstóla þó að mér sé ekki alveg ljóst hvernig þeir hyggjast gera það. Það er réttur sérhvers manns og sérhvers fyrirtækis og ef viðkomandi aðilar finna flöt á því að flytja slíkt mál er ég alveg viss um að íslenskir dómstólar taka það fyrir hratt og örugglega.

Ég vil svo að lokum, hæstv. forseti, benda á að auðvitað er þessu máli samkvæmt þessu frv. ekki endanlega lokið. Það kom fram í samþykkt ríkisstjórnarinnar að fjölmiðlanefndin ynni áfram og þar var m.a. tekið fram að hugað verði að stöðu Ríkisútvarpsins sem almenningsútvarps með það að markmiði að tryggja því trausta stöðu til frambúðar á markaði fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Stundum hefur verið kallað eftir því á hv. Alþingi að ríkisstjórnin segði eitthvað um það hvað hún vildi með Ríkisútvarpið og hvort ríkisstjórnin vildi almennt að sú ágæta stofnun starfaði. Því hefur stundum verið haldið fram að það væri markmið ríkisstjórnarinnar að eyðileggja þá stofnun. Nú ætti væntanlega ekki að vera neinn vafi um það.

Í þessari samþykkt sem hæstv. menntmrh. lagði fram kemur líka fram að lög verði sett um prentrétt, ákvæði sem skyldi fyrirtæki í dagblaðaútgáfu til að setja sér innri reglur er miði að því að tryggja sjálfstæði blaðamanna og ritstjóra gagnvart eigendum og enn fremur reglur um stöðu blaðamanna gagnvart ritstjórn og að sambærileg ákvæði verði sett í útvarpslög. Líka kemur fram að kannaðir verði möguleikar á að gera tilteknar kröfur til dagskrár útvarps. Málinu er ekki lokið.

Síðan vil ég vekja athygli á því að nú starfar sérstök nefnd samkvæmt skipunarbréfi hæstv. iðn.- og viðskrh. um hringamyndun í íslensku viðskiptalífi. Í skipunarbréfi kemur m.a. fram að það sé engum vafa undirorpið að þær breytingar sem hafa orðið á íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum hafi leitt til betri lífskjara þjóðarinnar. Jafnframt kemur fram að aukin hagræðing og hraðar breytingar á eignarhaldi fyrirtækja hafa leitt til meiri samþjöppunar og minni samkeppni í einstökum atvinnugreinum. Þá hafa ýmis viðskipti á verðbréfamarkaði vakið upp spurningar um hvort stjórnunarhættir hlutafélaga séu með þeim hætti sem best gerist. Í þessari nefnd á m.a. að taka fyrir hvernig bregðast skuli við aukinni samþjöppun og með hvaða hætti skuli þróa reglur þannig að viðskiptalífið sé skilvirkt og njóti trausts. Nefndin skal hafa hliðsjón af reynslu síðustu ára í alþjóðlegum samanburði og ljúka störfum fyrir 1. september. Það er enginn vafi á því að þetta starf lýtur jafnframt að því sem við erum að tala um, þeirri hringamyndun og samþjöppun sem hefur orðið í íslensku viðskiptalífi. Það hlýtur að vera skoðun okkar allra að það sé æskilegt að sem minnst sé um markaðsráðandi fyrirtæki í íslensku viðskiptalífi. Hins vegar verður vart hjá því komist. Við hljótum að stuðla að því að sem mest samkeppni verði á mörkuðum og þá jafnframt á fjölmiðlamarkaði.

Hæstv. forseti. Ég vildi koma þessum sjónarmiðum að í þessari umræðu um leið og ég tel mikilvægt að umræða um þessi mál haldi áfram. Það er nauðsynlegt að hún sé rekin með málefnalegum og sanngjörnum hætti og ég tel að á það hafi verulega skort í hita leiksins undanfarna daga. Ég vænti þess að breyting geti orðið á því í framtíðinni.