Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 12:06:02 (8654)

2004-05-19 12:06:02# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[12:06]

Mörður Árnason (andsvar):

Það sem hér kemur í ljós er auðvitað enn ein birtingarmynd hins djúpstæða klofnings sem ríkir í Framsfl. um málið. Það vill til að þetta bréf hefur verið sent. Hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson getur ekki neitað því. Hann á að hafa séð það því það kom í þingflokkana. Í bréfinu stendur m.a., með leyfi forseta:

,,Alls óvíst virðist hins vegar hvort markmið um fjölbreytni í umfjöllun og öfluga dagskrárgerð náist. Það er lágmarkskrafa,`` segir borgarstjórn Reykjavíkur, ,,að nægilegur tími gefist til að fullkanna hin víðtæku áhrif sem samþykkt frumvarpsins gæti haft í för með sér.``

Hæstv. utanrrh. vitnaði í stjórnarformann nokkurn hér í bæ, í því fyrirtæki sem þessi lög beinast auðvitað gegn. Stjórnarformaðurinn sagði nákvæmlega þetta: Fyrirtækið heldur áfram þessi tvö ár í þeirri sannfæringu og þeirri fullu vissu að hægt sé að stöðva þessi lög, annaðhvort í innlendum dómstólum, héraðsdómi eða Hæstarétti, eða með Evrópurétti. Þess vegna ætla þeir að reyna að halda áfram en ekki vegna þess að frv. beinist ekki gegn neinum.