Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 12:11:16 (8658)

2004-05-19 12:11:16# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[12:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lasta það að menn séu efahyggjumenn og menn setji spurningarmerki við alla hluti en það verður að gera grundvallargreinarmun á því við lagasetningu og þegar menn bera ábyrgð á málum hvort þeir eru í góðri trú eða hvort uppi er vafi af því tagi sem auðvitað var þegar lögin um öryrkjamálin voru sett á sínum tíma. Það sem gerði málstað stjórnvalda þá m.a. sérstaklega vondan var að þau voru rækilega vöruð við því að málið kynni að brjóta í bága við stjórnarskrána. Sú reyndist líka niðurstaða Hæstaréttar. Ef á daginn kemur að mönnum hafa orðið á mistök eiga þeir sér það þó til málsbóta ef þeir hafa verið í góðri trú. Það sem er sérstaklega athyglisvert við þessa yfirlýsingu utanrrh. er að hann játar á sig vafann um að stjórnarfrumvarpið í upphaflegri mynd hafi verið í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Hann viðurkennir það og segir hins vegar að með brtt. sé honum nú að verða rórra. Ég tel að hæstv. utanrrh. skuldi okkur skýringar á þessum sérkennilegu ummælum.