Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 12:18:22 (8665)

2004-05-19 12:18:22# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[12:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel enga sérstaka ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu. Það liggur ekki neitt fyrir um það að einhver þeirra fyrirtækja sem eru nú í fjölmiðlarekstri séu markaðsráðandi þótt ákveðnar grunsemdir séu um það. Enn síður liggur fyrir að eitthvert þeirra fyrirtækja sé markaðsráðandi 1. júní 2006. Það getur ýmislegt breyst á þeim tíma. Það er engin ástæða til að fullyrða hvaða fyrirtæki verði markaðsráðandi á þeim tíma.

Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel almennt óæskilegt að markaðsráðandi fyrirtæki séu í fjölmiðlarekstri. Það er mikil hætta á því að slík fyrirtæki misnoti aðstöðu sína. Ég er ekki að segja að þau geri það en það er veruleg hætta á því að slík fyrirtæki noti þá viðkomandi fjölmiðla fyrirtækjum sínum til framdráttar.