Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 14:08:33 (8673)

2004-05-19 14:08:33# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra. Ég ætla að byrja á að taka það fram að ég er ekki í neinu Baugsliði (Gripið fram í.) eins og oft hefur verið talað hér um. Ég hef hins vegar sagt og vitna þá bara til ræðu minnar og bið hæstv. forsætisráðherra að skoða ræðu mína frá því 3. maí þegar ég fór yfir hvernig ég lít á þetta mál og hvaða möguleikar væru í stöðunni til að leysa þetta mál og ná sátt um það. Ég sagði áðan og benti á að eðlilegt væri að skoða hvernig ætti að trappa þetta niður, hvernig ætti að trappa niður eignaraðild fyrirtækis sem á stóran hlut í fjölmiðlafyrirtæki eins og Norðurljósum. Ég minni á að hæstv. forsætisráðherra sagði sjálfur í kosningabaráttunni þegar við ræddum sjávarútvegsmál að stórhættulegt væri að trappa niður eignaraðild í sjávarútvegi á fiskikvóta á fimm til fimmtán árum, það væri stórhættulegt. (Forsrh.: Þeir mega nú ...) En hér er verið að tala um, hæstv. ráðherra, tvö ár án tröppu, bara beint í 5% þrepið sem núna er inni í frumvarpinu. Ég held að ég hafi alveg skilmerkilega gert grein fyrir því, hæstv. forsætisráðherra, hvaða leið ég sé í því að ná sáttum í þessu máli ef menn hefðu viljað fara þá leið.