Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 15:12:05 (8680)

2004-05-19 15:12:05# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að mótmæla því að ég hafi talað í einhverjum vandlætingartón til ákveðinna þingmanna. Ég held því samt statt og stöðugt fram að ýmsar ræður ýmissa hv. þm. hafi verið einkar ómálefnalegar. Ég skal hins vegar játa það að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur verið málefnaleg í umræðunum sem hér hafa farið fram.

Hún spurði hvort átt hafi sér stað pólitísk U-beygja af minni hálfu hugmyndafræðilega. Það er alls ekki. Þó svo að ég sé frjálshyggjumaður og frjálslyndur í skoðunum þýðir það ekki að ég sé anarkisti. Því er haldið fram, m.a. í fjölmiðlum, að ég sé bara anarkisti sem vilji engar reglur. Það er ekki satt. Við sem erum frjálslyndir í pólitík viljum að reglur séu sem fæstar og takmarkanir á atvinnulífinu séu sem minnstar. En það er samt sem áður svo (Forseti hringir.) að við afneitum ekki reglum í atvinnulífinu, hvort sem það er í sjávarútvegi eða á mörkuðum þar sem markaðurinn er bjagaður, m.a. á þessum markaði.