Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 15:13:27 (8681)

2004-05-19 15:13:27# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Gott og vel. Hv. þm. segist ekki hafa tekið hugmyndafræðilega U-beygju, en þá vil ég spyrja: Hvernig rökstyður hv. þm. það að í reglunum sem gilda um sjávarútvegsfyrirtækin er gert ráð fyrir að fyrirtæki megi eiga allt að 12% hlutdeild í aflamarki? Ég kann ekki alveg að fara með þessi kvótahugtök en ég var að hlusta á hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson áðan og þar er prósentuviðmiðunin 12% en sambærileg viðmiðun í því frv. sem við fjöllum um er 5%. Ég sé ekki betur en hér þurfi að rökstyðja mál. Sömuleiðis þurfa hv. þm. að rökstyðja mál sitt þegar það er alveg ljóst að fyrirtæki sem vex og dafnar og á í fjölmiðlum má ekki fara yfir þessa 35% eignaraðild nema með refsingu. Og hver er refsingin? Hún er sú að viðskrh. verða fengnir ákveðnir hlutir í fyrirtækinu til að selja og fyrirtækin fá ekki neitt um það að segja t.d. á hvaða verði viðkomandi hlutir verða seldir. (Forseti hringir.) Er hv. þm. sáttur við það að viðskrh. skuli fá slíka heimild og að eigendur fyrirtækjanna, eigendur eignanna skuli ekki hafa neitt um verð eignarhlutanna að segja?