Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:42:07 (8693)

2004-05-19 17:42:07# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg dapurlegur málflutningur, eins ómálefnalegur og hugsast getur. Þetta er sama aðferðafræðin og Bush notar: Ef þú ert ekki með mér ertu á móti mér. Bush hefur einmitt notað þá sömu aðferðafræði, ef menn eru á móti hryðjuverkum eiga þeir auðvitað að styðja stefnu Bandaríkjastjórnar. Þá á það bara að vera þannig að þar með séu menn skuldbundnir til þess að styðja þá aðferðafræði Bandaríkjastjórnar að fara um með báli og brandi og láta sprengjum rigna yfir vanþróaðar þjóðir. Það er enginn millivegur hjá Bush.

Þessi röksemdafærsla stjórnarliðsins er af sama toga, menn skulu ekki mega hafa sjálfstæða skoðun í þessu máli, vera tilbúnir til að skoða einhverjar reglur og takmarkanir. Nei, ef þeir eru það skulu þeir skrifa upp á tillögur ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð. Algerlega. (Gripið fram í: Þetta eru þín eigin orð.) Já, þær standa enn og þetta er enn skoðun mín, hv. þingmaður, og reyndu að bera virðingu fyrir því. Það eru til menn með sjálfstæðar skoðanir þótt þær séu ekki hátt skrifaðar í Sjálfstfl. (Gripið fram í.)