Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:43:27 (8694)

2004-05-19 17:43:27# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls síns notaði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nokkurn tíma til að fjalla um þau orð forvera síns á ræðustóli sem sneru að málflutningi Morgunblaðsins. Ef ég man rétt sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon eitthvað sem svo að það væri eins og þingmanninum sem hann var þá að tala um þætti sem allir ættu að vera sammála Morgunblaðinu af því að nógu mikið væri hamrað á hlutunum. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta nokkuð áhugavert og kem þess vegna upp. Fyrr á árum, um það leyti sem ég var að byrja í stjórnmálum, var Morgunblaðið bæði ráðandi málgagn á blaðamarkaði og mjög flokkspólitískt. Síðan gerðist það að þeir höfðingjar Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarsson bara börðust fyrir sjálfstæði ritstjórnar sinnar. Morgunblaðið fékk allt aðra ásýnd og e.t.v. þannig ásýnd að mjög mörgum fannst að það væri margt rétt sem stæði í Morgunblaðinu.

Þingmaðurinn notaði mikinn tíma til að fjalla um ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar --- mér fannst það skemmtilegt --- og ég velti fyrir mér hvort hann velti því fyrir sér hvort þessi viðhorf þingmannsins eigi rætur í trúverðugleikanum sem Morgunblaðið hefur öðlast á liðnum árum eða hinu, hinu breytta Morgunblaði, hinu flokkspólitíska málgagni sem hefur birst okkur u.þ.b. frá því að þetta mál fór af stað. Það hefur orðið grundvallarmunur á málflutningi Morgunblaðsins sem á þessum tíma sem ég var að vísa til reyndi að hafa breiðan umræðugrundvöll og fjalla um ólík sjónarhorn í málum. Svo hefur það gerst að undanförnu að það er bara ein lína og hún er flokkspólitísk. Hvernig má það vera miðað við það sem ég hef lagt hér upp með?