Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:50:13 (8698)

2004-05-19 17:50:13# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:50]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir efnismikla og ágæta ræðu þar sem hann bæði færði rök að andstöðu sinni við það frv. sem hér er um að ræða og skýrði líka vel afstöðu sína og síns flokks í þessu máli. Þótt stjórnarandstaðan hafi staðið hér fullkomlega sameinuð í þessum punkti hefur hver hluti hennar sínar forsendur til að gera það. Það er ekkert óeðlilegt við það, þvert á móti. Það kann t.d. að stafa af mismunandi skilningi okkar á hlutverki stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og mismunandi sýn okkar á samfélagið hvað ber þar í milli sem er, eins og ég segi, ekki merkilegt miðað við samstöðu okkar gegn þessu frv.

Ég lagði við eyrun þegar hv. ræðumaður talaði um hin sértæku lög og þá stöðu okkar hér á Íslandi í litlu samfélagi að mörg þau lög sem við gjarnan vildum telja almenn verða sértæk vegna þess að aðstæður okkar eru sérstakar, alveg eins og aðstæður okkar á fjölmiðlamarkaði ágætlega sýna.

Ég vil samt segja það að ég tel að lög sem hætt er við að teljist sértæk verði að uppfylla a.m.k. þrjú skilyrði til þess að þau séu í raun og veru tæk á þingi. Í fyrsta lagi verða þau að vera neyðarúrræði í stöðu sem strax þarf að leysa úr. Í öðru lagi eiga skilyrði þeirra eða ramminn í kringum þau að miðast við langan tíma og miðast við þá æskilegu framtíðarsýn sem menn hafa samkvæmt markmiðum frv. Í þriðja lagi á að gæta meðalhófsreglu og ekki ganga lengra í lagasetningu en þarf. Þarna greini ég t.d. mjög skýrt á milli frv. um SPRON sem mikill meiri hluti var hér fyrir í þinginu og síðan þessa frv. sem mikill minni hluti er með í samfélaginu.