Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:52:26 (8699)

2004-05-19 17:52:26# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg augljóst mál að lagasetning á Íslandi er í því sérstaka umhverfi sem okkar fámenna samfélag og litla viðskiptalíf ber í sér. Þetta t.d. ræddum við mikið og skoðuðum í raun og veru í heilt ár 1991--1992 þegar samkeppnislög voru í smíðum. Hversu raunhæft er að nota sömu viðmið á Íslandi hvað varðar t.d. markaðshlutdeild fyrirtækja vegna smæðar markaðarins og fámennis eins og gert er víða erlendis? Niðurstaðan varð auðvitað sú að við yrðum að einhverju leyti að hafa hér sérstakar viðmiðanir. Við gætum ekki yfirfært reglur úr milljónaþjóðfélögum á okkur. Þetta á auðvitað mjög vel við líka í þessum fjölmiðlaheimi.

Ég er ekki alveg sammála greiningu hv. þingmanns á þessu með sértæk versus almenn lög. Ég held reyndar að sjálf skilgreiningin sé ekki nógu góð. Það er sjálfsagt ekki hægt að tala um fátæk lög í þeim skilningi, ekki að þau séu peningalítil, heldur að þau taki til fárra. Kannski væri það samt betri viðmiðun. Taka lögin til eins aðila, til fáeinna aðila eða eru þau almenn í þeim skilningi að þau varði þúsundir manna, lögaðila eða einstaklinga, í þjóðfélaginu?

Ég held að ekki sé hægt að nota þá röksemdafærslu að aldrei megi setja lög sem hafa eðlis síns vegna áhrif fyrst og fremst á einn eða fáeina aðila nema eitthvert neyðarástand sé fyrir dyrum. Ég held að slík lög geti þjónað réttmætum fyrirbyggjandi tilgangi. Ef þau uppfylla hin markmiðin tvö sem hv. þm. talaði réttilega um og ég er sammála, þ.e. að slík löggjöf verði þá að horfa til mikilvægra framtíðarmarkmiða sem löggjöfin á að uppfylla eða ná fram og að sjálfsögðu verður að gera þær kröfur til allrar slíkrar lagasetningar að hún standist góða stjórnsýslu og lagasetningarvenjur, þ.e. að hún sé ekki meira íþyngjandi en óumflýjanlegt er, gætt sé meðalhófs, menn fái sanngjarna aðlögun o.s.frv.

Um það snýst þetta mál nú orðið að mjög miklu leyti.