Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 18:50:22 (8701)

2004-05-19 18:50:22# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Við erum komin í 3. umr. um þetta frumvarp sem hér var hent inn í þingið lítt undirbúið og illa samið, vil ég leyfa mér að segja, eins og ég held að enginn þurfi að velkjast í vafa um þegar þess er gætt að gerðar hafa verið á því breytingar í þrígang og í hvert eitt sinn hafa menn barið sér á brjóst og talað um að nú væru þeir með besta frumvarp allra frumvarpa og að á því þyrfti ekki að gera neinar breytingar og það gæti bara staðið eins og það stóð á þeim tíma. Mönnum hefur síðan orðið ljóst að þetta frumvarp hefur ekki staðist neina kröfur sem gera verður til þingmála um að þau standist stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar og séu bara lagatæknilega í lagi eins og þar stendur. En látum það nú vera. Ég ætla ekki að tala hér í ræðustóli í kvöld um lagatæknileg atriði eða einhver formsatriði sem lúta að texta frumvarps.

Umræðan á Alþingi um þetta mál hefur verið löng og mikil. En það leiðir eiginlega af sjálfu sér að þegar mál fær ekki þann undirbúning og umfjöllun sem það þarf áður en það kemur til þingsins þá er ekki von á öðru en að margt þurfi að segja í þingsalnum sjálfum og hefðu menn getað sparað sér allmarga ræðuna ef þeir hefðu átt kost á því að koma að þessu máli á undirbúningsstigi. Umræðan hefur verið hörð í þingsalnum eins og alþjóð hefur orðið vitni að en hún hefur mestan part verið málefnaleg. Það hefur verið tekist á í þingsalnum. Það hefur verið tekist á um skoðanir og viðhorf og það er ekkert að því. Það er heldur ekkert að því þó að menn takist jafnvel hart á í þingsalnum og beiti sér fyrir þann málstað sem þeir trúa á. Það verðum við auðvitað að þola sem hér erum. En það er samt alltaf einn og einn, virðulegur forseti, sem fer yfir strikið, kann sér ekki hóf og er sér og sínum til minnkunar. Það er auðvitað ekki vandamál þingmanna almennt. Það er bara vandamál viðkomandi og í þessu tilviki er ég auðvitað að vísa til hæstv. dómsmálaráðherra sem ekki kunni sér hóf í umræðunni á laugardaginn. Það verður auðvitað að vera hans, eins og ég segi, vandamál og það er ekkert hægt fyrir okkur að vera að erfa það við sjálfstæðismenn utan þings. Hann er auðvitað hér á ábyrgð þingmanna Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðherrastöðunni. En við getum ekkert verið að erfa það við sjálfstæðismenn utan þings vegna þess að þessi ráðherra er auðvitað löngu orðinn viðskila við þá eins og aðra landsmenn. Þessi ráðherra varð viðskila við þá fyrir alllöngu síðan. Það þarf ekkert annað en að líta á útreið sjálfstæðismanna í síðustu borgarstjórnarkosningum til þess að sjá það, en fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei verið minna í Reykjavík síðan þeir fóru líklega að bjóða þar fram í eigin nafni eins og í síðustu kosningum þar sem þessi ráðherra fór fyrir fylkingunni. Við þurfum ekkert annað en horfa á síðustu þingkosningar til þess að átta okkur á því hversu viðskila hann og reyndar fleiri ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og forustumenn eru orðnir við sinn flokk.

Við þurfum heldur ekkert annað en að líta á mælingar á vinsældum ráðherra til þess að átta okkur á þessari sömu stöðu. Ráðherrann er einfaldlega rúinn trausti vegna stjórnarathafna sinna og framgöngu og engum þarf að blandast hugur um af hverju það er sem hlustaði á þennan ágæta ráðherra í þingsalnum á laugardaginn. En það er ekki bara hann sem er rúinn trausti því að stjórnin er það líka og það endurspeglast í viðhorfi fólks til fjölmiðlamálsins.

Ég er þeirrar skoðunar, og ég held að ég hafi sagt það hér áður í ræðustól, að fólkið sem er að mótmæla í fjölmiðlamálinu, fólkið sem er andsnúið þessu frumvarpi, þessi 70% þjóðarinnar sem hafa mælst í þá veru, það fólk er í sjálfu sér ekki endilega að taka afstöðu til inntaks frv. nema að takmörkuðu leyti heldur er það að taka afstöðu til þess hvernig að málum hefur verið staðið í þinginu. Fólk treystir einfaldlega ekki stjórnvöldum. Það treystir því ekki að málefnaleg sjónarmið ráði för hjá stjórnvöldum.

Stjórnvöld berja sér á brjóst og segjast bera mikla umhyggju fyrir lýðræðinu og fjölbreytninni, þau séu að bera þetta mál fram vegna þess að þau vilji svo ákaft tryggja fjölbreytni og lýðræði í samfélaginu, þess vegna séu þau að berjast hatrammri baráttu fyrir því að koma þessu máli í gegnum þingið þó svo að lögin eigi ekki að taka gildi fyrir en eftir tvö ár. Þetta eru sem sagt riddarar frelsisins, lýðræðisins og fjölbreytninnar.

En af hverju í ósköpunum ætti fólk að trúa þessu þegar það eina sem þessir menn virðast hafa áhuga á og þola eru einsleitar skoðanir og þegar þessir aðilar hafa smækkað lýðræðið niður í foringjaræði. Það eru tveir foringjar sem ráða. Það birtist okkur æ ofan í æ þetta foringjaræði. Svo eru þeir að telja fólki trú um að það sé lýðræðið sem þeir beri svona mikið fyrir brjósti.

Þetta mál sem við erum að ræða í dag snýst um lýðræði og tjáningarfrelsi. Þess vegna tölum við og þess vegna höldum við ræður og þess vegna er það sem við segjum hér málefnalegt þó svo stjórnarliðarnir virðist telja að það eitt sé málefnalegt innlegg í þetta mál sem snúist um það hver prósentan eigi að vera í eignarhaldi í fjölmiðlum og hvernig það eigi að skiptast milli markaðsráðandi aðila og ekki markaðsráðandi aðila, milli veltu, hvort hún er yfir eða undir tveimur milljörðum. Það eitt, ef við horfum á þá hluti, eru málefnaleg sjónarmið en ekki þegar við tölum um lýðræði og tjáningarfrelsi og að verið sé að vega að tilteknum aðilum í því sambandi og ekki þegar við tölum um stjórnarskrána. Ekkert af því er málefnalegt, nei, nei. Þetta snýst um lýðræði og tjáningarfrelsi og þó að frumvarpið sé sértækt að því leytinu til að það beinist að einum aðila þá er ekki rétt, eins og hér hefur verið gert af hálfu stjórnarliða, að smækka þetta mál líka. Það er allt smækkað. Lýðræðið er smækkað niður í foringjaræði og tjáningarfrelsið smækkað niður í Baugsmál og sagt að þetta mál snúist bara um Baug. Þeir sem eru þeirrar skoðunar að þetta mál sé ekki gott, þeir eru einfaldlega Baugsliðar, ganga erinda þeirra og það er hamrað á því æ ofan í æ hér í ræðustól.

Ég sagði að þetta mál snerist um lýðræði og tjáningarfrelsi. Við þurfum ekki annað en vitna í Morgunblaðið þann 27. apríl þegar Morgunblaðið var að fjalla um þetta og var að spyrja af hverju menn vilja setja reglur og löggjöf um fjölmiðla. Morgunblaðið segir, með leyfi forseta:

,,Ástæðan er fyrst og fremst ein og hin sama: að tryggja lýðræðið, að tryggja að tjáningarfrelsið fái að njóta sín. Að tryggja að frjáls skoðanaskipti fái að blómstra.``

Það er þetta sem við erum að tala um hérna. Við erum að tala um tjáningarfrelsið og lýðræðið og hin frjálsu skoðanaskipti og samt á, þegar svona mikið er í húfi, að þvinga það í gegnum þingið á örfáum dögum.

Þetta snýst um lýðræðið. Þetta snýst í rauninni um það og ástæðan fyrir því að fólk mótmælir, ekki bara í þinginu heldur líka fyrir utan þingið, er að það er orðinn alger skortur á lýðræðisvitund hjá stjórnarliðinu eða að minnsta kosti er lýðræðisvitundin mjög frumstæð því að lýðræðið snýst ekki bara um ákvörðun, hverjir megi ákveða eitthvað heldur snýst lýðræðið um ferli, um það að fólk eigi aðkomu að ákvörðunum, að það hafi tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri, hafi tækifæri til að ræða málin við stjórnmálamennina, fái að sannfæra stjórnmálamennina um að þeir séu að fara villir vegar, sannfæra stjórnmálamennina um ágæti sinna skoðana innan og utan flokka, að þessi samræða geti átt sér stað á milli stjórnmálamanna og almennings, ekki bara samræða ráðherra sín á milli og þingmanna sín á milli. Lýðræðið er einfaldlega þessi aðkoma fólks að ákvörðuninni, að það geti einhvers staðar átt aðgang að umræðunni, aðgang að stjórnmálamönnunum og það geti einhvers staðar komið skoðunum sínum á framfæri.

Halldór Ásgrímsson sagði í umræðum um Írak í morgun: ,,Berum við forsætisráðherra ekki ábyrgð?`` Þeir tveir tóku nefnilega ákvörðunina um að við ættum að vera á lista hinna viljugu þegar ráðist var inn í Írak og hann sagði: ,,Berum við forsætisráðherra ekki ábyrgð?`` Svo sagði hann hér í ræðustóli í dag líka um fjölmiðlamálið þegar hann var að ræða það frumvarp að ákvörðun í málinu byggir á því að við höfum skoðun hér á Alþingi. Auðvitað verðum við að hafa skoðun á þessu máli og auðvitað þurfum við á einhverjum tímapunkti að taka ákvörðun í málinu. En við berum líka ábyrgð gagnvart umræðunni. Við berum ábyrgð. Hæstv. utanríkisráðherra --- og nú tala ég til þessara ráðherra, bæði dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra og ég á eftir að tala til forsætisráðherra á eftir líka, þó þeir sitji ekki í stólunum, þó þeir vermi ekki stólana og séu ekki að eyða dýrmætum tíma sínum í að hlusta á sjónarmið. Þeir eru ekkert því vanir að vera að hlusta á annað fólk og því skyldu þeir sitja hér? Þeir geta bara lesið þingtíðindin. Það kemur þá í góðar þarfir að þetta er tekið upp og prentað. En það er bara eftir öðru. Það er ekkert verið að hlusta. Þeir eru löngu hættir að heyra og löngu hættir að hlusta. Ég ætla samt að tala til þeirra því ég held að við verðum að gera það.

Ábyrgð þeirra er gagnvart umræðunni. Hún er gagnvart flokksmönnum. Hún er gagnvart fólkinu í landinu. Hún er gagnvart Alþingi og hún er gagnvart hagsmunaaðilum. Þeir eiga að tala við þetta fólk og þeir bera ábyrgð á því að sniðganga ekki þetta fólk og þeir bera ábyrgð á því að loka sig ekki af inni í Stjórnarráðinu einir og sjálfir með einhverja pappíra og senda á milli sín einhver frumvörp sem þeim hugnast sjálfum svo vel þó engum öðrum hugnist þau. Þeir bera auðvitað ábyrgð á því að hunsa allt og alla eins og þeir gera núna í þessum málum nema sinn eigin vilja því það skiptir svo miklu máli að sýna og sanna hvað vilji þeirra er sterkur og óbilgjarn. En fólkið er búið að fá nóg af þessum sterka og óbilgjarna vilja. Hann birtist okkur æ ofan í æ, þessi sterki og óbilgjarni vilji. Hann birtist okkur í Íraksmálinu þar sem þessir menn tóku sína ákvörðun tveir einir og höfðu ekkert við neinn annan að tala, ekki einu sinni utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) þingsins.

(Forseti (BÁ): Á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?)

Já, talsvert, hæstv. forseti.

(Forseti (BÁ): Þá óska ég eftir því að hv. þm. geri hlé á máli sínu meðan við tökum kvöldmatarhlé.)