Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:04:05 (8709)

2004-05-19 21:04:05# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:04]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að játa það að ég er ekki það kunnugur á þessum markaði að ég geti alveg fullyrt nákvæmlega hvaða fyrirtæki munu sýna því áhuga að koma að rekstri þessa fjölmiðlafyrirtækis. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að forstjóri fyrirtækisins greindi frá því í fjölmiðlum áður en sameiningin mikla átti sér stað við Fréttablaðið og Dagblaðið að Stöð 2 og Norðurljós ættu sér prýðilega framtíðarmöguleika, þetta væri fyrirtæki með góða framlegð sem gæti haft mikla hagnaðarvon. Ég er ekki í nokkrum vafa um að menn sem eru að leita ávöxtunar og sjá hagnaðarvonina eins og forstjóri fyrirtækisins hefur bent á, sem gleggst má vita, muni koma með fjármagn inn í þetta fyrirtæki. Við sjáum einfaldlega að það er gríðarlegt fjármagn í umferð í landinu. Mjög margir vilja taka þátt í þessum fjárfestingum og það er enginn vafi á því að þetta fyrirtæki mun þess vegna fá fjárfesta til þess að styðja við reksturinn, ef rétt er að hann sé svona arðvænlegur.