Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:07:58 (8712)

2004-05-19 21:07:58# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var vitnað í skrif Helga Guðmundssonar, fyrrverandi ritstjóra Þjóðviljans. Hann er glöggur maður og greindur, ég ber mikla virðingu fyrir skoðunum hans og mér þykir vænt um að hann skuli skrifa inn á heimasíðu mína. Í þessu máli er ég honum hins vegar algerlega ósammála. Því fer víðs fjarri að stjórnarandstaðan, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð eins og hann heldur fram, sé að ganga til liðs við auðhringinn Baug. Við erum að ganga til liðs við málstað sem gengur út á það að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun. Við viljum verja fjölmiðla sem eru fjölmennir vinnustaðir og mikilvægir í lýðræðislegri umræðu í landinu. Við teljum það frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu ekki gera það, það hafi meira að segja gagnstæð áhrif.

Þingmaðurinn segir og minnir á að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafi lagt fram frv. um dreifða eignaraðild í lánastofnunum. Kem ég að því í síðara andsvari.