Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:11:39 (8715)

2004-05-19 21:11:39# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:11]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. velti upp hinni teoretísku spurningu um hvernig við horfðum á það ef þetta frv. yrði til þess að fjölmiðlum fækkaði (Gripið fram í.) ... veiktust og þeim fækkaði. Í spurningunni felst það sjónarmið sem hefur ruglað bæði mig og Helga Guðmundsson í ríminu að sjónarmið hv. þingmanns virðist vera það að forsendan fyrir því að hægt sé að halda hér uppi öflugum fjölmiðlum sé að markaðsráðandi öfl í þjóðfélaginu, stóru fyrirtækin, þau sem geta haft stjórn á markaðnum, þ.e. markaðsráðandi fyrirtæki sem geta m.a. haft áhrif á verðmyndun í landinu, hafi líka tangarhald á fjölmiðlunum í landinu. (ÖJ: Hvers ...?) Þau eiga að ráða fjölmiðlunum. Það er ákaflega athyglisvert sjónarmið sem hv. þm. hefur greinilega tekið undir í þessu einnar mínútu andsvari sínu og (ÖJ: Við skulum ræða það.) hefur undirstrikað að það var nauðsynlegt af mér og Helga Guðmundssyni að spyrja hér áleitinna spurninga.