Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:33:37 (8721)

2004-05-19 21:33:37# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:33]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Fá mál hafa komið fram á Alþingi sem eins mikill styr stendur um og þetta frv. ríkisstjórnarinnar um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum. Í fáum málum hefur verið eins mikill einhugur í röðum stjórnarandstöðunnar og í þessu máli og ég held að það sé rétt sem fram kom hjá hv. þm. Framsfl., Kristni H. Gunnarssyni, í fréttum í kvöld að ef þingmenn greiddu atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni væri mjög ólíklegt að meiri hluti væri á Alþingi fyrir frv. Það sem sameinar stjórnarandstöðuna í þessu máli er að hún er samdóma um það að afleiðingar þessa frv. verða mjög ólíklega þær sem frumvarpshöfundar gefa sér, að auka fjölbreytni hér í fjölmiðlaflórunni. Stjórnarandstaðan er líka samstiga í því efni að þetta mál þurfi miklu meiri umræðu við en hér er boðið upp á. Ég verð að segja að á þeim fáu dögum sem gefist hafa til að ræða málin hafa komið upp margir nýir fletir sem hafa varpað ljósi á þetta mál.

Ég vel, nánast af handahófi, eitt dæmi sem ég varð svolítið hugsi yfir. Í skýrslunni, skýrslu fjölmiðlanefndar, er verið að ræða þær reglur sem eru við lýði í hinum ýmsu löndum, þar á meðal í Danmörku. Það er ekki langur kafli, 10--12 línur, og þar segir, með leyfi forseta:

,,Engar takmarkanir gilda um eignarhald á dagblöðum, aðrar en þær sem leiðir af almennum samkeppnisreglum. Þannig taka samkeppnisreglur til samráðs fyrirtækja í fjölmiðlum, misnotkunar á markaðsráðandi stöðu og samruna fyrirtækja með sama eða svipuðum hætti og annarra fyrirtækja.

Fyrirtæki (félög) sem eru í rekstri óskyldum fjölmiðlarekstri mega ekki eiga ráðandi hlut í félagi sem hefur leyfi til að reka útvarp (sjónvarp og hljóðvarp).

Þeir sem hafa leyfi til að reka sjónvarp eða hljóðvarp verða að hafa þann rekstur sem sitt eina markmið.

Engar takmarkanir eru annars á láréttum eignatengslum eða eignarhaldi útlendinga.``

Þetta er umfjöllun um fjölmiðlalöggjöf í Danmörku. Nú spyr ég: Hvaða skilyrði eru sett fyrir því í Danmörku að reka fjölmiðla á landsvísu? Ég veit það ekki en ég held að ákveðin og jafnvel nokkuð ströng skilyrði séu sett fyrir því. Þetta vantar inn í þessa mynd til að fá ljósa stöðu fjölmiðla í Danmörku, samspil þeirra krafna sem reistar eru af hendi löggjafans og svo eignarhaldsins, til þess að við áttum okkur á því hver löggjöfin er í reynd. Þarna er varpað ljósi á aðeins einn flöt, eignarhaldið.

Ég nefni þetta nánast af handahófi til að taka dæmi um hve bagalegt það er að fá ekki ráðrúm til að ræða þetta mál af meiri dýpt. Ég tók sem dæmi við fyrri umræðu um þetta mál að í sumar leið boðuðum við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til umræðu um skólagjöld í háskólum. Við vorum með almenna afstöðu til þess máls en við vildum heyra sjónarmið úr öllum þeim stofnunum sem hlut eiga að máli, háskólum í landinu, til þess að við fengjum gleggri mynd af málefninu. Það hefur verið rifjað hér upp við þessa umræðu að Norðmenn hafi tekið sér ein fjögur ár í umræðu áður en sett voru lög um fjölmiðla. Við hins vegar fengum frv. á bolludaginn og áttum að samþykkja það nánast á fáeinum klukkutímum. (RG: Hrikalegir þessir bolludagar.) Á fáeinum klukkutímum. Fáeinum sólarhringum. Það hefur teygst á umræðunni og þessir sólarhringar hafa orðið heldur fleiri en ætlað var. Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst mynd mín mun skýrari en hún var áður. Ég verð að segja að umræðan hefur orðið til þess að andstaða mín við frv. er meiri, hún er ákveðnari en hún var í upphafi og var hún þó talsvert eindregin þá.

Við höfum vakið athygli á því að skilningur ríkisstjórnarinnar, sérstaklega formanna stjórnarflokkanna, á því hvernig lýðræði eigi að starfa er afskaplega undarlegur. Það virðist snúast um það að þeir sem stýra þingliði í stjórnarmeirihluta komist að niðurstöðu og síðan nánast stimpli meiri hlutinn samkomulag þeirra. Lýðræði snýst ekki bara um það að kjósa menn á þing og smíða lög heldur snýst lýðræðið um það hvernig staðið er að smíðinni, hvers konar umræða fer fram í samfélaginu. Er hún opin? Er hún lokuð? Hafa allir aðgang að henni? Er hún grunn? Er hún djúp? Þetta er gagnrýni sem við höfum verið að setja fram um vinnulagið. Það skiptir nefnilega máli.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði hvort aðferðin við að setja lögin skipti meira máli en niðurstaðan. Við teljum að þarna sé samhengi á milli. Niðurstaðan ræðst af þeim aðferðum sem beitt er, af umræðunni sem fram fer um málið.

Ég hef áður sagt og ætla ekki að tíunda það hér að afstaða mín til þessa máls, eða andstaða öllu heldur, ræðst ekki af því að ég telji það brjóta í bága við stjórnarskrá. Ég tel svo ekki vera. Það eru aðrar ástæður sem ráða því að ég er á móti frv. Það eru aðrar ástæður en stjórnarskráin. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma en ég hef lagst talsvert yfir það efni, yfir þær greinar stjórnarskrárinnar sem um er að ræða, 72., 73. og 75., og niðurstaða mín er mjög afdráttarlaus í því efni. Ástæðan fyrir því að ég tel frv. varasamt er fyrst og fremst sú að það nær ekki markmiði sínu, það stuðlar ekki að því að það markmið sem sett er fram nái fram að ganga. Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir, með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið frumvarps þessa er að sporna við því að eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamli gegn æskilegri fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi. Frumvarpið er reist á almennt viðurkenndum viðhorfum um mikilvægi fjölmiðla fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi í nútímalýðræðisþjóðfélagi.``

Síðan heldur áfram og ég ætla ekki að ræða það nánar.

Það sem mig langar til að staldra núna aðeins við er sú grundvallarspurning hvernig markaður og markaðsráðandi aðilar geti haft áhrif á fjölmiðla, þess vegna á ritstjórnarstefnu og fréttamennsku fjölmiðlanna, á hvern hátt þeir geti beitt áhrifum sínum. Ég hef áður sagt að ég telji eignarhald þar vissulega skipta máli og á endanum er það úrslitaatriði hver á fjölmiðilinn. Það er deginum ljósara. Ég hef sagt að ég hef ákveðnar efasemdir um að hægt sé að setja reglur um sjálfstæði ritstjórna. Ég hef ákveðnar efasemdir um það. Á endanum er það eignarhaldið sem þarna ræður. Hins vegar skiptir innri styrkur fjölmiðilsins miklu máli í því efni og ræður miklu meiru en þær reglur sem settar eru. Fjölmiðill sem býr yfir innra sjálfstrausti er líklegri til að fylgja sjálfstæðri stefnu en smár óöruggur fjölmiðill, ég tala nú ekki um ef hann rambar stöðugt á barmi gjaldþrots og starfsmennirnir eru uggandi um framtíð sína. Ég held að slíkum fjölmiðli sé miklu hættara hvað þetta snertir en hinum sterka fjölmiðli. Ég endurtek: Eignarhaldið skiptir máli. Það er hægt að tína til fjölmörg dæmi um þetta.

Talað hefur verið um stórblöðin í Bandaríkjunum í eigu gyðinga sem ráða miklu um ritstjórnarstefnu New York Times og stóru blaðanna. Menn hafa iðulega vakið athygli á þessu í sambandi við fréttaflutning af málefnum Ísraels, svo dæmi sé tekið. Við vitum hvernig Murdoch beitir áhrifum sínum. Menn þekkja hvernig Fox-fjölmiðillinn hagar sér. Eignarhaldið skiptir máli.

Nú spyr ég: Gæti verið að markaðsráðandi aðilar gætu beitt áhrifum sínum í fjölmiðlum á áhrifaríkari hátt en með eignarhaldi? Ég tel svo vera. Og hvernig? Með auglýsingum. Gefum okkur að Baugur dragi sig algerlega út úr eignarhaldi á fjölmiðlum á Íslandi en ákveði að beita áhrifum sínum í krafti auglýsinga. Einn ágætur blaðamaður af víðlesnu blaði hér, vikublaði, rifjaði það upp fyrir mér að á sínum tíma, þegar hann var starfandi á þessu blaði, hefðu menn aldrei haft nokkrar áhyggjur af eiganda blaðsins, hann hafi spurt um það eitt hvernig blaðið seldist og þeim vegnaði. Af auglýsendum höfðu menn hins vegar stöðugar áhyggjur.

Hugleiðum núna það sem ég vil kalla niðurlægingu Ríkisútvarpsins. Í hverju er hún fólgin? Hún er fólgin í því að Ríkisútvarpið lýtur auglýsendavaldinu, er farið að taka upp kostun sem er farið að hafa áhrif á dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu. Við sjáum það á sumrin þegar byggingarvöruverslanirnar byrja. Ég þori ekki að nefna þær af því að ég man ekki hvaða fyrirtæki það voru en ég man að fyrirtækin voru með kostað dagskrárefni sem auglýsti vörur þeirra. Ég held að frjálsum fjölmiðlum og frjálsri óháðri ritstjórnarstefnu stafi mest hættan af þessu þegar upp er staðið. Vantar þetta ekki svolítið inn í þessa umræðu alla? Mér finnst það. Auðvitað hafa margir vakið athygli á þessu og þessir fletir hafa komið upp en mér finnst hafa skort á að þessu sé nægilegur gaumur gefinn. Ég ítreka að við ættum að hyggja að því hvort þessi auðfyrirtæki sem í hlut eiga gætu ekki beitt áhrifum sínum á áhrifaríkari og markvissari hátt með þessum hætti en í gegnum eignarhald. Ég held það. Ég held að við ættum að hyggja að þessu. Eins og ég vék að áðan er í athugasemdum með lagafrumvarpinu sagt að markmiðið sé að stuðla að fjölbreytni og við erum að reyna að skapa hér sjálfstæða, kröftuga fjölmiðla.

[21:45]

Ég tek undir það sem hér var sagt áðan og rímar mjög við sjónarmið okkar og afstöðu í þessu máli að það ástand sem hefur skapast hér í íslensku efnahags- og fjármálakerfi veldur því að það er á færi aðeins örfárra aðila að reka hér stóra fjölmiðla. Hvers vegna hefur það gerst? Það hefur gerst vegna þeirrar stefnu sem hér hefur verið fylgt í landinu í hálfan annan áratug með kvótakerfi sem þjappað hefur saman auð og völdum og fært á örfáar hendur. Hið sama er að gerast í fjármálalífinu.

Ég held að einhver versta spilling sem við höfum orðið vitni að, á síðari tímum liggur mér við að segja, sé helmingaskipti stjórnarflokkanna á ríkisbönkunum. Reyndar finnst mér í hjarta mínu það alltaf vera pínulítið ósanngjarnt gagnvart Sjálfstfl. vegna þess að ég held að það sé runnið undan rifjum Framsóknar sem gerði kröfu um að horfið yrði frá því að setja bankana á markað og selja þá eins og hluti í hverju öðru hlutafélagi, eins og ýmsir vildu. Við munum þegar fulltrúi, eða hvort það var formaður, í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar gekk frá borði og sagðist vera búinn að fá sig fullsaddan af vinnubrögðunum þar, Steingrímur Ari Arason. Ég man ekki betur en að það væri í tengslum við þetta mál. Margir góðir og gegnir hægri menn í Sjálfstfl. og frjálshyggjumenn urðu æfir þegar Sjálfstfl. lét undan þeirri kröfu Framsóknar að búa til það sem menn kölluðu kjölfestufjárfesti. (KolH: Helmingurinn ...) 45,6% í báðum ríkisbönkunum skyldu fengin í hendur kjölfestufjárfestum. Það var samið upp á 11,3 milljarða og hæstv. viðskrh. Valgerður Sverrisdóttir mætti uppábúin í Þjóðmenningarhúsinu á gamlárskvöld og afhenti bankana, eða bankann, ég held að þeir hafi ekki verið afhentir báðir í einu. Nákvæmlega eins samningar voru samt gerðir um þá báða. Þegar verðið var síðan lækkað í öðrum gilti hið sama um hinn. Áður en upp var staðið hafði verðið verið lækkað um tæpa tvo milljarða króna, var komið niður í milli níu og tíu milljarða en nú er hvor banki metinn á 25 milljarða.

Þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson rifjaði upp að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hefðum sett fram frv. sem átti að tryggja dreifða eignaraðild að bönkunum kom mér í hug að undir það var í fyrstu tekið af hálfu hæstv. forsrh. og ýmissa úr stjórnarmeirihlutanum. Síðan gufaði sá stuðningur allur upp. Stefna okkar hefur verið sú, og það er fullkomin samfella í henni, að tryggja dreifða eignaraðild á grunnþjónustustofnunum samfélagsins, Ríkisútvarpinu, við vildum hafa ríkisbanka, einn eða tvo sem kjölfestu, við vildum hafa Landssíma með dreifðri eignaraðild. Hvernig gerist hún dreifðust? Hvað eru Íslendingar margir núna? (Gripið fram í: 290 þús. líklega.) Tæplega 290 þús. Stofnun í eigu 290 þús. einstaklinga er með eins dreifða eignaraðild og hugsast getur. Þannig vildum við tryggja fullkomlega dreifða eignaraðild. Sú er líka stefna okkar gagnvart Ríkisútvarpinu eða fjölmiðlarekstri. Við höfum viljað tryggja dreifða eignaraðild með eignarhaldi þjóðarinnar á Ríkisútvarpinu á sama hátt og við vildum gera hið sama í fjármálakerfinu þótt við færðum önnur rök fyrir eignarhaldinu á því sviði.

Þegar ákvörðun hafði hins vegar verið tekin um að taka þessa eign þjóðarinnar og færa hana út á markað sögðum við: Nú setjum við stranga eignarhaldslöggjöf sem tryggir dreifða eignaraðild. Hið sama vildum við gera á sviði fjölmiðlanna, hið sama og segir á bls. 80 og 81 í skýrslu fjölmiðlanefndar, tryggja fjölbreytni á markaði með öflugu Ríkisútvarpi. Bara nákvæmlega eins og segir í þessari skýrslu. Eins og segir í skýrslunni þarf að öllum líkindum ekki að setja ný lög eða reglur ef þessi forsenda er fyrir hendi. Við höfum hins vegar verið minnt á það að undanförnu að hér sé ekkert öruggt.

Fyrir liggur frv. frá nokkrum þingmönnum Sjálfstfl. um að einkavæða Ríkisútvarpið. Þingmaður Framsóknar hefur ýjað að því að til greina komi að skerða tekjumöguleika Ríkisútvarpsins þannig að það þurfi að draga saman seglin. Hér er því allt á huldu. Þessa umræðu viljum við einfaldlega taka. Síðan segjum við: Ef niðurstaðan er sú að breyta þessu fyrirkomulagi kann það að leiða til þess að löggjöf þurfi að setja um eignarhald á fjölmiðlum til þess að tryggja dreifða eignaraðild. Sú er hugsun okkar. Þess vegna vildum við láta ráðast í þessa könnun, þessa kortlagningu á landinu þannig að við hefðum grunn til að byggja umræðuna á. Og að þessu leyti hefur verið fullkomin samfella í málflutningi okkar, allar götur frá því að þessi beiðni kom fram. Það væri gaman ef hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kæmi hingað og gerði örlítið betur grein fyrir hugmyndum sínum um dreifða eignaraðild á fjármálasviðinu. Hann hóf máls á því sérstaklega og því væri fróðlegt að hann gerði það.

Þetta er í hnotskurn afstaða okkar í þessu máli. Við auglýsum þess vegna eftir því að menn gefi sér betri tíma til að fara yfir það og skoði það frá öllum hliðum.

Staðreyndin er sú, og ég held að það eigi við um alla, ég held að það eigi við um alla í stjórn og stjórnarandstöðu, að við vildum öll hafa sem dreifðasta eignaraðild. Ég held að sú sé staðreyndin. Engu að síður er upp á teningnum í íslensku efnahags- og fjármálakerfi að peningarnir eru komnir á örfáar hendur. Þá er spurningin: Hvernig eigum við að vinda ofan af þeirri þróun? Gerum við það með því að hefja förina á fjölmiðlasviðinu? Ég óttast að ef við gerum þetta séum við að tefla fjölmiðlafyrirtækjum í tvísýnu. Ég gef minna fyrir Baug af því að ég held að hann klári sig og er nú enginn sérstakur lítilmagni, á allt of stóran hluta af íslensku efnahagskerfi og ástæðulaust að gráta örlög hans, en ég geri það hins vegar varðandi fjölmiðlana sem slíka. Mér finnst mikill ábyrgðarhluti að renna í gegn lagasetningu sem veikir rekstrargrundvöll þeirra. Um það finnst mér þetta mál snúast. Mér finnst það ekki snúast um stjórnarskrá, mér finnst það snúast um praktík og veruleika, hvaða áhrif þetta er líklegt til að hafa.

Ég taldi eðlilegt við fyrri umræðu að leggja ríka áherslu á afstöðu mína varðandi stjórnarskrárþáttinn. Ég ætla ekki að sitja uppi með þá afstöðu að ekki megi setja auðhringum hér lög og reisa skorður við starfsemi þeirra. Auðvitað er það alveg rétt sem komið hefur fram við umræðuna að stjórnarskráin er afskaplega lítið afgerandi í þessu efni. Þetta er spurning um hvernig menn túlka tiltekin hugtök, t.d. um almannaheill. Þegar menn segja að stjórnarskráin eigi að njóta vafans spyr ég á móti: Hver sáir vafanum? Ég ætla mér að hafa alveg eins mikla skoðun á því að túlka hugtök á borð við almannaþörf eins og lögfræðingur úti í bæ. Ég vil túlka hana í þágu lýðræðisins og láta áhersluna liggja innan þingsins en ekki hjá dómstólunum. Þegar menn síðan vitna stöðugt í dómaniðurstöður finnst mér menn eiginlega vera að ganga á rétt og áhrif þingsins, löggjafans, sem á að hafa mun rýmri heimildir til að túlka þessi hugtök. Um það snýst lýðræðið, að færa ekki það vald til dómstólanna. Þeirrar tilhneigingar gætir hér á landi, í Evrópu og víðar og ég tel hana vera afskaplega varasama. Ég tel að löggjafinn þrengi að sér með þessum hætti. Þegar menn segja að stjórnarskráin eigi að njóta vafans segi ég: Hver sáir honum? Við eigum öll að setjast yfir spurninguna: Hvað finnst okkur? Hver er skoðun okkar? Til þess þurfum við tíma.

Þetta er eitt af því sem menn vilja skoða rækilega. Ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiðum þeirra sem vilja fara betur í þau mál. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er búinn að liggja svolítið yfir þessu undanfarna daga, safna að mér dómum og túlkunum og hef komist sjálfur að niðurstöðu. Þetta er nokkuð sem þingið er að óska eftir, að fá rýmri tíma og svigrúm til að skoða þau mál.

Meginniðurstaða mín í þessu máli er sú að ég tel að frv. tefli í tvísýnu rekstrargrundvelli þeirra fjölmiðla sem loksins eru að koma undir sig fótunum hér í landinu, tveggja dagblaða, sjónvarpsstöðvar og nokkurra útvarpsstöðva. Ég tel að við höfum ekki rétt á því að grípa inn í þeirra líf, liggur mér við að segja, með þeim hætti sem við erum að gera á talsvert vanhugsaðan hátt. Því miður.