Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 11:24:30 (8735)

2004-05-21 11:24:30# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, RG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[11:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Enn á ný hefjum við dagskrá fundar á Alþingi með umræðu um fjölmiðlafrv. Enn þá einu sinni er þingmál til meðferðar á hv. Alþingi sem kallar á hörð viðbrögð í samfélaginu. Þó er langt síðan Alþingi hefur haft til meðferðar mál sem svo lengi hefur lifað í fréttatímum, í fréttatengdum þáttum og manna á meðal. Engan þarf að undra sterkar tilfinningar í þessu máli enda snertir það almannarétt, eignarrétt, tjáningarfrelsi og réttlætiskennd fólks.

Á miðvikudaginn var útifundur haldinn á Austurvelli. Þar voru háværar kröfur um lýðræðisleg vinnubrögð og að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi sæi að sér. Undirskriftalistar eru í fullum gangi og svo virðist sem allir láti sig varða hvað verður með þetta frv.

Málið hefur jafnframt fengið mjög mikla umfjöllun fagfólks, blaðamanna, lögfræðinga, sérfræðinga í fjölmiðlun, sérfræðinga í stjórnskipunarrétti auk okkar þingmanna. Það hallar á ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann í þessari umræðu. Nú í morgun var birt skoðanakönnun sem birtir okkur að sjö af tíu af þeim sem spurðir eru vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta frv., og fleiri eru á móti frv. að því er sagt er.

Það var dálítið athyglisvert í tilefni af þessari skoðanakönnun hvernig formaður allshn. svaraði þegar hann var spurður hvernig hann læsi þessa skoðanakönnun. Hann svaraði því til að það væri áhyggjuefni en að ríkisstjórnin hefði ekki komið sjónarmiðum sínum að. Ég veit ekki hver hefur komið sjónarmiðum sínum að ef það eru ekki ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir. Oddvitar ríkisstjórnarinnar fá drottningarviðtöl við sig þar sem þeir leggja út um sín mál, þar á meðal þetta. Þessir aðilar, ráðherrarnir og forráðamenn málsins, fá alltaf fréttir og viðtöl um sjónarmið sín. Hitt er svo annað mál að það má segja að ríkisstjórnin, kannski fyrst og fremst oddviti ríkisstjórnarinnar, sé eins og businn í leikskólanum sem tekur dót af krökkunum og eyðileggur hópleikinn af því að hann kann ekki að vera með, kann ekki reglurnar í samskiptum barna. Börnin langar til að annað tveggja gerist, að businn hætti í leikskólanum eða hann breyti um framkomu. Sennilega mundu allir vilja að businn yrði góður og að reglur krakkanna yrðu virtar. Svona er ríkisstjórnin og það er náttúrlega ljóst að hún getur ekki hætt. Það er alveg ljóst að leikreglurnar í samfélaginu eru ekki virtar og það viturlegasta sem þessi ríkisstjórn gerði núna væri að geyma málið, hlusta á alla þá sem hafa tjáð sig, verða við óskunum sem koma fram hjá sjö af tíu hjá þjóðinni, skoða málið í sumar og setjast niður með öðrum.

Virðulegi forseti. Ef ég dreg ræðu mína saman í nokkra punkta eru þeir þessir: Ríkisstjórnin er á villigötum. Sjálfstæðismenn úti á akrinum eru furðu lostnir, undrandi og hrærðir yfir framgangi forsrh. Davíðs Oddssonar sem staðfestir í opinberri umræðu að lagasetning beinist að einu fyrirtæki. Forustumenn framsóknarmanna í borginni álykta jafnframt gegn foringja sínum. Stjórnarliðar hér á Alþingi virðast loksins hafa áttað sig á að lög á fjölmiðla geta dregið dilk á eftir sér fyrir þá. Þeir eru farnir að taka þátt í umræðunni sem ekki gerðist framan af. Oddvitar ríkisstjórnarinnar bera enga virðingu fyrir stjórnarskránni. Þeim finnst í góðu lagi áð láta dómstóla um að meta hvort lög standist stjórnarskrá landsins. Ekkert ferli á Alþingi tryggir skoðun á því hvort lög brjóti á bága við stjórnarskrána. Umræðan um þetta frv. hefur skýrt dregið fram muninn á samræðustjórnmálum og valdapólitík. Við skoðun hv. þm. Ásgeirs Friðgeirssonar kemur í ljós að um 95 stærstu fyrirtæki landsins velta meiru en tveimur milljörðum kr. og ekkert þeirra gæti átt meira en 5% í fjölmiðlafyrirtækjum. Aðeins sjávarútvegsfyrirtæki virðast geta átt fjölmiðla og tími sægreifanna blífur í íslensku samfélagi.

Ég ætla líka að fara yfir þær upplýsingar sem komu fram í ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á miðvikudagskvöldið um söluna á TV2 í Danmörku, og er full ástæða til. Að lokum: Alþingi er fullkomlega vanbúið að verjast yfirgangi ríkisstjórnarinnar, hvað þá að halda starfsáætlun sína. Grundvallarmunur er á vinnubrögðum og skoðun Samf. á fjölmiðlum og flumbrulegum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar.

[11:30]

Virðulegi forseti. Áleitnar spurningar vakna. Hvað er að gerast? Er þetta flumbrugangur? Er þetta yfirgangur eða virðingarleysi við Alþingi og þjóðina eða er allt þetta í einum pakka? Í umfjöllun um langar og heitar umræður á Alþingi finnst mér gæta misskilnings. Menn detta í að tala um málþóf á Alþingi eins og stjórnarandstaðan sé eingöngu með tafir eða uppivöðslu í máli sem hvort eð er eigi að lögfesta, enda sé meiri hluti fyrir málinu á Alþingi.

Það gleymist að Alþingi er meira en löggjafarþing. Alþingi er vettvangur þjóðmálaumræðu. Alþingi er vettvangur til að brjóta mál til mergjar, ekki síst að skoða allar hliðar máls sem á að lögfesta í óeiningu á löggjafarþinginu, hvað þá þegar málið er jafnumdeilt og þetta, þegar það er umdeilt úti í þjóðfélaginu og meðal þeirra sérfræðinga sem gerst þekkja til eins og fjölmiðlafrv. ríkisstjórnarinnar er.

Það er líka mjög eðlilegt hvað þetta mál varðar að það er fyrst nú þegar langt er komið inn í 3. umr. málsins sem stjórnarliðar fara að taka þátt í umræðunni og reyna að bera í bætifláka og bregðast við gagnrýninni sem stjórnarandstaðan hefur uppi í málinu. Framan af átti bara að láta stjórnarandstöðuna um að tuða, eins og algengt er að segja um málflutning okkar í stórum málum. Það var ekki laust við að það örlaði á nýjum tón í umræðunni á miðvikudaginn og miðvikudagskvöldið í ræðum stjórnarliða sem þá töluðu. Ég les það þannig að þeir séu orðnir mjög meðvitaðir um hversu vanhugsað það er að fara fram með þeim hætti sem hér er gert og auðvitað hljóta þeir líka að heyra þungann í viðbrögðum flokksmanna sinna og fylgismanna, ekki síður en við sem mætum undrun og vonbrigðum úr öllum áttum. Nú er ég óhress. Ég er ekki ánægð með minn mann núna. Ég skil ekkert í mínu fólki inni á þingi. Þessi og önnur tilsvarandi viðbrögð heyrast frá sjálfstæðisfólki þessa dagana. Ég get nefnt að um helgina þurfti ég að skreppa frá bakaríinu og inn í Nóatún í Kópavogi sem tekur ekki langan tíma en þegar ég kom heim furðaði fólkið mitt sig á hvað ég tók langan tíma í þetta stutta skrepp. Þrír sjálfstæðismenn gáfu sig fram við mig á þessari stuttu vegferð minni um Hamraborgina, allir með viðbrögð eins og þessi: Nú er ég óhress. Ég skil ekki, hvað eru þau að hugsa?

Auðvitað hljóta stjórnarliðar á Alþingi að heyra þungann í viðbrögðum flokksmanna sinna eins og við. Mér finnst merkilegt að viðbrögðin sem ég heyri eru miklu meira frá sjálfstæðismönnum en framsóknarmönnum. Þeir virðast þegja þunnu hljóði nema það fólk, jafnvel flokksfólk, sem fer fram í fjölmiðlum um málið og gegn ríkisstjórn sinni. Þetta er mín reynsla þessa dagana. Mér finnst hún athyglisverð og ég hefði gaman af að vita hvort fleiri könnuðust við þessi viðbrögð. En ríkisstjórnin er vön því að vera alltaf í liði. Þetta eru hagsmunaflokkar sem hafa verið þekktir að því að vera helmingaskiptaflokkar í gegnum tíðina. Sennilega skapar það þessa erfiðleika flokkanna núna. Þeir eru svo vanir því að vera í liði. Þeir þekkja ekki aðra sýn en ,,við og okkar``.

Hæstv. forsrh. talar eins og maður eigi alltaf að vera í liði með þeim sem eiga hlut að máli. Getur verið að þetta sé ein skýringin á framferðinu þessa dagana? Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hefur talað mjög opinskátt um hug sinn til fyrirtækisins Baugs og menn skilja hann svo að hann þoli ekki þetta fyrirtæki. Hins vegar hefur hann t.d. spyrt mig saman við Baug og hann hefur gert okkur í Samf. að einhverjum Baugsliðum og reyndar flesta þá sem andmæla honum í þessu máli. Ég verð að segja að mér finnst þessi framkoma óviðfelldin og óheilbrigð. Ég hef ekkert á móti Baugi en er ekki tengdari því fyrirtæki en t.d. Nóatúni þar sem ég versla stundum á hraðferð. Verst þykir mér að þessir dagar hafa undirstrikað að stjórnarherrarnir eru ekki að vinna með almannrétt og almannahagsmuni. Það er það sem stendur eftir eftir þessa löngu umræðu og umfjöllun allra, fagfólks og sérfræðinga um málið.

Virðulegi forseti. Ólíkt höfumst við að. Reyndar er alltaf verið að bera okkur saman við önnur lönd og reynt hefur verið að finna fordæmi annars staðar í þessu máli sem er ekki auðvelt því að löndin og fjölmiðlarnir, ef við lítum bara í kringum okkur á Norðurlöndunum, að ég tali ekki um Evrópu, eru ólík. Ekki hentar það sama alls staðar eins og vel hefur komið fram, m.a. í ræðum hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur sem hefur rakið þessi mál mjög vel.

En ólíkt höfumst við að í vinnubrögðum. Ríkisstjórnin setti nefnd niður í desember og gaf henni tvo mánuði. Nefndin dreif af skýrslu eftir liðlega þrjá mánuði. Einhverjir ráðherrar fengu að sjá hana en þremur vikum seinna var hún lögð fram í ríkisstjórn ásamt fyrsta fjölmiðlafrv., þessu fyrsta. Fram að þessu hafa breytingar verið gerðar þrisvar sinnum á frv. sem fyrst og fremst undirstrika flumbruganginn í málinu. Við hverja var haft samráð í þessu þýðingarmikla máli? Ekki Blaðamannafélag Íslands. Ekki samtök auglýsenda. Ekki fulltrúa Norðurljósa sem málið beinist að. Ekki fulltrúa annarra fjölmiðla og alls ekki stjórnarandstöðuna. Slíkt gerir maður ekki á Íslandi. Engin tilraun er gerð til að afla upplýsinga og viðhorfa hjá neinum þeim sem málið varðar, hvað þá að eiga við þá samvinnu um málið. Athyglisverðast finnst mér þó að þingflokkar stjórnarflokkanna fengu ekki skýrsluna. Þarna lá skýrslan á ís uppi í Stjórnarráði og beið frv. Davíðs Oddssonar. Það hefði verið vottur af virðingu að leyfa stjórnarliðinu að skoða skýrsluna á meðan verið var að vinna frv. Þau hefðu þá verið betur í stakk búin til að meta frv. þegar það kom inn í stjórnarþingflokkana og sá vandræðagangur sem við höfum orðið vitni að hefði e.t.v. orðið minni. Flumbrugangur, sagði ég, yfirgangur, virðingarleysi. Meti hver fyrir sig.

Skoðum Noreg í samanburði. Í skýrslunni sem mjög margt gott er í --- enda var ekki tekið nema eitt eða kannski tvö atriði úr henni og sagt: Þetta frv. byggir á skýrslu --- er sagt frá því að í Noregi séu menn með hugmyndir um að rýmka lögin sín og heimila eignarhlut upp að 49%. Í Noregi var nefnd að störfum í nokkur ár, fjögur ár hafa verið nefnd. Skýrslu eða hugmyndum að breytingum var skilað til ráðherra. Þessar hugmyndir hefur verið að finna á vef menningarmálaráðherrans síðan í janúar. Þar er líka að finna hugmyndir um lárétta skerðingu en þar er talað um hámark 30%, og hámark 20% ef fyrirtæki á í bæði ljósvaka- og prentmiðlum. Eingöngu ef fyrirtækið á bæði í ljósvaka- og prentmiðlum á að setja hámark, 30% á hlutdeild í öðrum miðlinum eða 20% í hinum. Ég kannaði á dögunum meðan ég enn hélt að umræðan stæði miklu skemur en raun ber vitni hvað þessum málum liði. Jú, það var boðað einhvern tíma að brtt. kæmu til þingsins ekki síðar en í maí. Þær voru reyndar ekki komnar inn í norska Stórþingið í byrjun vikunnar. Við spurningunni um hvort þær yrðu afgreiddar fyrir þinglok sem í Noregi er eftir miðjan júní var svarið að það væri mjög óvíst og færi eftir því hvort nefndunum sem um málið fjalla tækist að ljúka sinni vinnu.

Á útifundunum á miðvikudaginn var Ólafur Hannibalsson, sem lengi hefur verið varaþingmaður fyrir Sjálfstfl., ræðumaður og talaði einmitt um vinnubrögð Norðmanna í samanburði við það sem væri að gerast á Alþingi Íslendinga. Hann hafði upplýsingar um að í Noregi hefði mikil áhersla verið lögð á að fá fulltrúa fjölmiðla og allra hagsmunaaðila að borðinu, að eiga samráð við alla þá sem ættu hlut að máli, hlusta á sjónarmið og kanna hvort mögulegt væri að ná saman um tiltekin atriði þannig að lög yrðu sett í eins mikilli sátt og unnt væri. Ég hef áður nefnt þetta. Ég hef áður nefnt þetta með Norðurlöndin, hve mikil áhersla er þar lögð á það í stórum málum sem varða almannaheill að ná víðtækri sátt til að afstýra því að næsta ríkisstjórn þurfi að byrja á því að breyta þeim lögum sem þar eru sett af því að það er óviðunandi fyrir þá sem eiga hlut að máli að lifa við þannig lög.

Það verður að segjast eins og er að það að setja lög á fjölmiðla er eitt af stærri málum þessarar ríkisstjórnar, og hefur hún komið með æðimargt hingað inn. Hér ætla menn að afgreiða málið á engum tíma og pressa það í gegnum þingið með valdi. Útifundurinn á miðvikudeginum kallaði eftir því að lýðræðið væri virt. Það er umhugsunarefni hver staðan er þegar ríkisstjórn með valdatilhneigingu setur fram umdeilt mál. Hverjir eru möguleikarnir þegar ósætti er um lagasetningu á Alþingi? Hvaða möguleikar eru hér til að bregðast við? Þetta er t.d. mjög umdeilt mál sem snertir tjáningarfrelsið og ritfrelsið og brýtur í bága við lýðræðið. Sterkir einstaklingar og sérfræðingar á sínu sviði, þar á meðal fólk sem ríkisstjórnin á stundum hefur ráðfært sig við, hafa látið í ljósi að þessi lagasetning geti átt við mál sem skotið er til úrskurðar þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem það brjóti í bága við atvinnufrelsi, eignarrétt og tjáningarfrelsi. Ég ætla ekki að láta í ljósi mína skoðun á því hvort setja eigi þetta mál í þjóðaratkvæði en það er óumdeilt að forseti Íslands hefur þessa heimild, og hvort hún verður nýtt er ákvörðun hans. Ýmsir hafa verið með lögskýringu á heimild forseta og sérfræðingar telja þetta mál geta orðið til þess að ákvörðunar verði krafist um það hvaða ferli eigi að fara í gang ef og þegar ákvæðinu yrði beitt. Það er mjög merkilegt að fylgjast með þessari umræðu og hvernig hún hefur þróast. Hún er eflaust sprottin af efasemdum og viðbrögðum stjórnvalda. Meira að segja hefur sjálfur forsrh. landsins skrifað grein um hæfi forseta Íslands varðandi þetta, greinina sem margir hafa sett spurningarmerki við en er nú að finna á vef Stjórnarráðsins. Halldór Ásgrímsson sagði í ræðu sinni á miðvikudaginn að það væri samspil löggjafans og dómstóla, svo sem Hæstaréttar, að finna út hvort lög stæðust stjórnarskrá, ekkert minna. Virðulegi forseti, ég tek það fram að ég er ekki að hafa beint eftir hæstv. utanrrh., heldur efnislega. Mig hnykkti við að heyra þetta. Annar oddviti ríkisstjórnarinnar telur eðlilegt að setja lög sem kannski brjóta í bága við stjórnarskrána af því að dómstólarnir útkljái þá málið eftir á, sem sé að ef og þegar lögin verði kærð verði málið útkljáð. Þá er það samspil löggjafans og dómstóla að skera úr um hvort lög standist stjórnarskrá. Hvert erum við eiginlega komin þegar mál hefur tekið breytingum þrisvar sinnum og í þriðja sinnið segir hæstv. utanrrh., annar oddviti ríkisstjórnarinnar, að hann sé öruggari núna um að málið brjóti ekki í bága við stjórnarskrána og fer svo fram í ræðu sinni með þessum hætti sem ég hef greint frá?

Ég má til með að tala um Finnland. Finnar taka stjórnarskrá sína mjög alvarlega og það er full ástæða til fyrir Ísland að læra af Finnum. Ég átti þess kost að sitja ráðstefnu í Finnlandi í desember sl. um það hvernig Norðurlöndin, hvert um sig, vinna með tilskipanir og gerðir Evrópusambandsins og í hvaða mæli þjóðþingin koma að þeim á vinnslustigi. Það var auðvitað grundvallarmunur á Íslandi og Noregi annars vegar og hins vegar hinum þremur Norðurlandanna sem eru í Evrópusambandinu en þarna eru Finnar til fyrirmyndar. Þeir settu á laggir nefnd sem heitir Grand committee þegar þeir urðu frjálsir og sú nefnd hefur það verkefni að kanna og úrskurða hvort þau þingmál sem inn í þingið koma standist stjórnarskrá. Þetta er alvörumál hjá þeim. Þessi nefnd er jafnframt í aðalhlutverki varðandi tilskipanir Evrópusambandsins. Það er aldeilis munur á vinnubrögðum og virðingunni fyrir stjórnarskránni þar eða hér hjá okkur.

[11:45]

Finnar fengu líka nýja stjórnarskrá, að mig minnir, árið 2000 og í hana var sett heimild fyrir forseta lýðveldisins í Finnlandi til að senda frv. til baka til þingsins. Það gerir forsetanum mögulegt að fresta undirskrift og fá álit stjórnlagadómstóls. Björg Thorarensen fjallaði um þetta í Kastljósi á dögunum og það var mjög áhugavert að hlusta á þegar hún greindi frá því hvernig haldið væri á þessum málum. Aðalmálið finnst mér vera hvað Finnar virða stjórnarskrána sína mikils og hversu sterkt það er að horfa á hvernig þeir vinna núna þegar Alþingi fer fram eins og við verðum vitni að viku eftir viku.

Við í Samf. höfum reyndar flutt nokkur þingmál sem eiga að stuðla að stjórnfestu, eða svokölluðu Good Governance, m.a. frv. um stjórnlagaþing og fleira. Það var í kjölfar þess að starfshópur úr þingflokknum vann með þessi mál undir stjórn hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur.

Við höfum verið mjög upptekin af því í Samf. að það þurfi ný vinnubrögð á nýjum tímum. Þessi vinna sem ég vísaði til opnaði t.d. augu okkar þingmanna Samf. fyrir því hversu margt væri vanbúið í stjórnsýslunni okkar, eins og svo skýrt kemur fram í hörkulegum vinnubrögðum ríkisstjórnar og stjórnarliða með þetta fjölmiðlafrv. Nýir tímar krefjast samræðustjórnmála. Þau viðgangast í ríkari mæli í nágrannalöndum okkar. Minnihlutastjórnahefðin skapar nauðsynlegt samráð við aðra flokka, góða kynningu á málum og skilning annarra á eðli mála. Það er mikill munur eða hér þar sem stjórnunar- og valdapólitík er höfð að leiðarljósi. Þessu vill Samf. breyta.

Eins og ég hef komið ítrekað inn á fara stjórnarflokkarnir ekki vel með meirihlutavaldið. Forsrh. er gjarn á að láta í veðri vaka vald meiri hlutans. Við ætlum, við viljum, við ráðum. Þau (lesist stjórnarandstaðan) verða að skilja það. Stundum passar reyndar að segja að mál sé hjá Alþingi eins og á dögunum þegar það hét að fulltrúar í allshn. væru með brtt. Þeir höfðu hins vegar ekki séð þær miðað við yfirlýsingar sumra. Forsrh. og utanrrh. komu sér saman um tillögurnar en gleymdu að tryggja baklandið, svona svipað og þegar við duttum inn á listann yfir 30 viljug ríki vegna innrásar í Írak. Þá heyrðu þingmenn, líka þeir sem eru í utanrmn., það í fréttunum. Þá heyrðist því fleygt að stjórnarþingflokkarnir hefðu heldur ekkert vitað. Ekki skal ég segja en þetta eru afskaplega gerræðisleg vinnubrögð og eitthvað svo valdasjúk.

Í byrjun vikunnar kom búvörusamningur inn í þingið. Hann á að taka gildi haustið 2005. Þetta gátu virst ágætisvinnubrögð, að koma frv. um búvörusamning til nefndar og skoða málin, fjalla um samninginn í sumar, kalla til ýmsa og fá umsagnir annarra sem eiga hlut að máli, skoða málið vel í sumar og afgreiða það í haust. Nei, það á að keyra hann líka í gegnum þingið á þessum óvanalegu og annasömu dögum. Og takið bara eftir hversu mörg mál eru enn þá óafgreidd. Hér hafa verið 40--60 mál á dagskrá fundanna að undanförnu.

Það eru haldnir fundir í landbn. á kvöldin og eldsnemma á morgnana. Það er ekki tími til að senda málið til umsagnar. Samningurinn var tilbúinn eftir að þinginu átti að hafa verið lokið samkvæmt starfsáætlun en bingó, inn á Alþingi með hann, í gegnum nefnd á fáum dögum og lögfesta. Svona gerum við sem höfum valdið og ráðum. Þetta er samningur sem á að gilda til 2012 og nemur 4 milljörðum kr. í útgjöldum á ári.

Ég hef gagnrýnt það, virðulegi forseti, að starfsáætlun þingsins er alltaf að styttast. Þinghaldi átti að ljúka þann 7. maí. Það er alveg fráleitt en enn þá fráleitara að henda inn stórmálum á síðustu dögum þegar þingið á að vera farið heim án þess að endurskoða starfsáætlun og ákveða formlega hversu lengi á að framlengja þingið og hvernig á að halda á málum.

Það var haft eftir hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni í fjölmiðlum um daginn að hann hefði sagt eitthvað á þá leið að kannski ætti bara að senda þingið heim, kæla fólk niður og koma svo aftur saman til að ljúka. Í öðrum löndum stjórnar þingið sér sjálft, ákveður starfsáætlun sína og tilkynnir framkvæmdarvaldinu hvernig hún á að vera, en ekki hér.

Það passar vel hér að minna á frv. mitt og hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um að þingið starfi frá miðjum september fram að þjóðhátíðardegi og að endurskipulagt verði hvernig starfstíminn er nýttur. Það stendur ekki á okkur í Samf. að vera hér fram í júní --- við höfum ítrekað það --- en það breytir ekki því að svona frá-degi-til-dags-stjórnun þekkist ekki nokkurs staðar annars staðar.

Mér finnst mjög mikilvægt að koma aðeins inn á vinnu okkar í Samf. um fjölmiðla. Skoðun Samf. á fjölmiðlum og því umhverfi sem þeim er ætlað að starfa í hófst fyrir ári. Okkur óraði ekki fyrir því þá sem við erum að upplifa núna en við erum þess vegna ekki vanbúin í þessa umræðu. Við höfum sett fram frv. um vernd heimildarmanna og gerðum það strax í haust. Við settum fram þáltill. um sjálfstæði ritstjórna og gagnsæi í eignarhaldi, að það sé alltaf upplýsingaskylda, að allir eigi að vita hver eigi fjölmiðlana á hverjum tíma. Nú erum við með vinnu í gangi um Ríkisútvarpið, m.a. hvernig megi tryggja stöðu þess og sjálfstæði. Þetta eru góð vinnubrögð og ólíkt höfumst við að, Samf. eða stjórnarmeirihlutinn sem setur fram í flaustri frv. sem beinist að einstökum fyrirtækjum og er illa unnið eins og ítrekaðar breytingar og yfirklór bera vitni um núna.

Eins og hér kemur fram fer því fjarri að við viljum eitthvert alfrelsi í fjölmiðlum. Fjölmiðlar hafa einstaka samfélagslega stöðu umfram önnur atvinnufyrirtæki. Stjórnarliðar hafa hamast við að vísa til fjölmiðlaskýrslunnar. Við fengum skýrslu, segja þeir, settum fram frv. og ætlum að setja lög samkvæmt henni. Mig langar því, virðulegi forseti, að grípa niður á bls. 145 í fjölmiðlaskýrslunni þar sem segir:

,,Sé litið til aðstæðna á markaði á Íslandi er ljóst að markmiðum beinna reglna um takmarkað eignarhald eða útbreiðslu yrði ekki náð að öllu leyti nema þær yrðu afturvirkar. Með afturvirkni er hér átt við að í þeim þyrfti að gera ráð fyrir að heimilt yrði samkvæmt reglunum að gefa fyrirmæli um að uppbygging á íslenskum fjölmiðlamarkaði yrði brotin upp og fyrirtækjum gert að laga sig að þeim takmörkunum sem beinar reglur um takmarkanir á eignarhaldi kynnu að fela í sér. Slíkt fæli augljóslega í sér inngrip hins opinbera í ríkjandi markaðsaðstæður, sem gæti orðið fyrirtækjum þungbært og kostnaðarsamt, auk þess sem álitamál gætu risið um þær skorður sem ákvæði stjórnarskrár um vernd eignarréttar og atvinnufrelsi kynnu að setja í þessu efni. Af þessum ástæðum yrði því fyrst og fremst að horfa til áhrifa þeirra til framtíðar.`` --- Þetta er í fjölmiðlaskýrslu ríkisstjórnarinnar.

Síðar segir á bls. 147 þar sem fjallað er um fjölmiðlafyrirtæki og fyrirtæki í öðrum rekstri:

,,Í löggjöf einstakra landa virðist sjaldgæft að beinar takmarkanir séu á því að eignatengsl séu milli fjölmiðlafyrirtækja og fyrirtækja í öðrum rekstri. Á hinn bóginn verður ekki ráðið af þeim gögnum sem nefndin hefur aflað að það sé þekkt í öðrum löndum að aðili sem hefur hliðstæð umsvif í viðskiptalífi annarra landa og Baugur Group hf. hefur á Íslandi fari jafnframt með ráðandi hlut í jafnöflugu fjölmiðlafyrirtæki og Norðurljósum hf. Þó gildir sú regla í Danmörku að fyrirtæki í rekstri óskyldum fjölmiðlarekstri megi ekki eiga ráðandi hlut í félagi sem hefur leyfi til að reka útvarp.`` --- Ég bið viðstadda þingmenn að taka eftir þessu sem er lesið upp úr fjölmiðlaskýrslunni vegna þess sem ég kem að síðar um söluna á TV2 í Danmörku. Skömmu síðar á sömu blaðsíðu í skýrslunni segir:

,,Þótt mögulegt sé að setja beinar reglur sem að þessu lúta er þó ljóst, sé miðað við aðstæður á Íslandi eins og þær eru nú, að markmiðum slíkra reglna til skemmri tíma yrði ekki náð nema þær yrðu afturvirkar í þeim skilningi sem rakinn er að framan.`` --- Þetta er eiturskýrt í skýrslunni sem ríkisstjórnin lét vinna.

Virðulegi forseti. Á miðvikudaginn hélt Ásgeir Friðgeirsson, þingmaður Samf., athyglisverða ræðu og kom með mikilvæg sjónarmið inn í umræðuna. Hann fór yfir það hvað áhrifin um markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði sem setti 5% mörk varðandi eignarhald á fjölmiðlum þýddi. Hann las fyrir þingheim upp úr Frjálsri verslun sem hefur birt lista yfir fyrirtæki á Íslandi og Ásgeir Friðgeirsson, þingmaður Samf., komst að þeirri niðurstöðu að af 90 stærstu fyrirtækjunum í landinu væru um 60 með markaðsráðandi stöðu eða að álitamál væri uppi um hvort svo væri, að 95 stærstu fyrirtækin veltu meira en tveimur milljörðum svo að ekkert þeirra mætti eiga eignarhlut yfir 5% í fjölmiðlafyrirtæki, að þau sem mættu eiga 35% í fjölmiðlafyrirtæki miðað við listann í Frjálsri verslun væru eiginlega eingöngu sjávarútvegsfyrirtæki.

Þar höfum við það.

Þetta var mjög athyglisvert og vakti líka mikla athygli. Slík úttekt segir okkur hins vegar að ríkisstjórnin veit ekkert hvaða afleiðingar lögin hafa af því að hún hefur ekki gefið sér tíma til að fjalla um hvað í þeim felst í raun nema að beina þeim gegn vondu fyrirtæki. Ásgeir Friðgeirsson benti líka á að samþjöppun er því aðeins háskaleg ef hún hindrar samkeppni, ef hún hindrar nýliðun, ef henni er misbeitt og að í skýrslu forsrh. segi að það sé meiri fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði en fyrr, það sé góð þjónusta og fyrirtækin standi traustari fótum en áður.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti einnig athyglisverða ræðu á miðvikudagskvöldið. Því nefni ég þau tvö að þau komu með alveg sérstakar upplýsingar inn í umræðuna. Ég vil taka það sérstaklega fram að þingmenn Samf. hafa verið afskaplega málefnalegir í umræðunni um fjölmiðlafrv. á Alþingi. Í engri ræðu hefur vottað fyrir því að menn hafi staðið í þessum ræðustól til þess að fjalla um málið út og suður. Í hverri einustu ræðu hefur verið að finna nýjan vinkil á umræðunni, í hverri einustu ræðu hefur verið bent á athyglisverð mál, stöðuna sem ríkisstjórn er í og hamrað á því sem skiptir máli. En það sem kom fram í ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur var að hún fór inn á vefinn 19. maí og sá að sagt var frá því í Danmörku, í næstum öllum fjölmiðlum, að verið væri að selja TV2 í Danmörku, að á árunum 1995--2002 hefði sjónvarpsstöðin notað 628 millj. danskra króna meira í bara almennan rekstur en hún mátti nota í almannaþágu samkvæmt greiðslum og framlögum sem stöðin fékk. Það þýðir að stöðin blandaði saman því sem fellur undir almannaþjónustu, því sem hið opinbera ætlar henni að gera, og skemmtidagskrá. Þetta er á kostnað þess sem framlög eiga að renna til. Fallinn er úrskurður hjá Evrópusambandinu um að þessi fjárhæð skuli endurgreidd, 628 millj. danskra króna, um 6 milljarðar íslenskra króna. Í framhaldinu var ákveðið að selja TV2.

Það er athyglisvert að skoða það, og það er það sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti á, hverjir vilja kaupa. Það er alsterkasta fjölmiðlasamsteypa á Norðurlöndum, sænsk samsteypa sem heitir Bonnier AB, sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma ætlar að vera í samstarfi við Det Berlingske Officin. Öll könnumst við við Berlingske. Saman ætla þessir aðilar að bjóða í. Það eru fleiri skandinavískar samsteypur sem sýna áhuga á kaupum, t.d. Svenska Modern Times Group sem á hluta markaðarins og er í samstarfi við Bonnier, og eins norska fjölmiðlasamsteypan Shipsted. Það sem er athyglisvert í þessu máli sem hefur verið í dönskum fjölmiðlum er að þessir fjölmiðlarisar og samsteypur sem eiga í samstarfi alveg þvers og kruss reka útvörp, sjónvörp og dagblöð og það dregur að sjálfsögðu athyglina að staðhæfingunum sem ég vísaði til áðan um stranga danska löggjöf þar sem fyrirtæki eða samsteypur mega ekki eiga bæði í blaða- og sjónvarpsmiðlum. Mér finnst þetta mjög athyglisvert, og mikilvægt að a.m.k. Samf. fari aðeins ofan í þessi mál vegna þeirra upplýsinga sem við höfum verið að vinna með hér. Ég geri ekki ráð fyrir því að meiri hlutinn hafi áhuga á því að skoða þetta. Þeir segja bara hvað er sagt og hvað er og láta það gott heita.

Virðulegi forseti. Það sem blasir við í þessari umræðu er ekki gott. Skýrsla er samin á methraða svo að ekki gefst tími til að kanna hvaða lagasetning mundi standast EES-samninginn. Skýrslan er lögð fram í ríkisstjórn og frv. um leið sem segir sína sögu, og ég hef farið yfir hér, frv. sem að mati sérfræðinga brýtur gegn eignarrétti, tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi og mannréttindasáttmála Evrópu, frv. sem vinnur gegn tilgangi sínum um fjölbreytni og stofnar atvinnu hundr\-uða í voða. Þetta hefur allt komið mjög vel og rækilega fram. Meiri hlutinn er í tímaspreng að setja lög, og nefndir fá ekki tækifæri til að hlusta á alla málsaðila, hvað þá eiga samskipti sín í milli og ljúka umfjöllun sinni. Samt er engin leið að sjá af hverju þarf að setja þessi lög á þessu vori.

Frumvarpið beinist að einu fyrirtæki. Það er alveg ljóst að fyrir haustið kemur varla til greina að þessi fjölmiðlarisi fari að kaupa Morgunblaðið, ég held að ekki nokkrum manni detti það í hug. Ég hef ekki getað séð nokkrar líkur til þess að þetta fyrirtæki keypti Skjá 1. Hvað er það þá sem getur gerst frá því núna og þar til í haust? Það er spurningin sem menn spyrja úti á götunni. Það er spurningin sem fólk spyr þegar það segir við mann: Ég er ekki ánægð með minn mann núna, ég er ekki ánægð með mitt lið núna á Alþingi. Af hverju liggur svona á? Af hverju er þetta gert svona? Fyrir það getum við í stjórnarandstöðunni að sjálfsögðu ekki svarað. Ég velti fyrir mér núna þegar það er ljóst að svona gífurleg andstaða er með þjóðinni gegn því að þessi lög verði sett af hverju menn staldra ekki við. Mikið óskaplega mundi það breyta stöðunni í þessu samfélagi ef sá sem öllu ræður kæmi fram og segði: Ég hafði ekki áttað mig á því að það væri svona gífurleg andstaða við að setja lög með þeim hætti sem stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið. Það hvarflar ekki að mér, úr því að þessi staða er uppi, að setja lög núna í svo miklu trássi við þjóðina. Þess vegna ætla ég núna að draga frv. til baka og eiga samráð út og suður þar til í haust og skoða um hvað væri hægt að ná samstöðu í þessu samfélagi. Hvað mundi gerast? Allt mundi lyppast niður. Allir yrðu allt í einu ánægðir með sinn mann. Þeir sem eru búnir að vera svo miður sín yfir því hvað stjórnarmeirihluti þeirra er að gera gætu allt í einu risið upp og sagt: Þetta er allt í lagi. Menn átta sig. Menn vaða ekkert fram. Þjóðin mundi hugsa: Já, það er hægt að hafa áhrif á Alþingi. Kannski yrði farið að vinna með málið eins og þarf og tala við þá sérfræðinga sem hafa verið í öllum þáttum að undanförnu að tjá sig um málið, greina frá þekkingu sinni og hvað hefði þurft að vera öðruvísi. Ég get ekki skilið af hverju þetta er ekki gert.

Virðulegi forseti. Ef ég bara skildi hvað fær ríkisstjórn og meiri hluta á Alþingi til að reka mál með þessum hætti liði mér bara ögn skár þessa rugluðu daga sem við erum að upplifa á Alþingi. Þar með lýk ég ræðu minni.