Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 13:37:45 (8741)

2004-05-21 13:37:45# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Við 3. umr. hef ég fyrir mitt leyti þegar gert nokkuð ítarlega grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef til málsins við 1. og 2. umr. Það sama verður ekki sagt um þingmenn Framsfl., til að mynda hæstv. landbrh. sem gengur úr salnum undan umræðunni eins og jafnan áður ásamt félögum sínum flestum. Mér telst til að aðeins tveir af þingmönnum Framsfl. hafi talað við umræður um það frv. sem hér er til umfjöllunar en hinir 10 þagað. Hlýtur það að vera til sannindamerkis um það að frv. hafi í raun ekki meirahlutastuðning í þinginu, eða hvar eru hæstv. ráðherrar Siv Friðleifsdóttir og Guðni Ágústsson, hv. þm. Birkir Jón Jónsson og fleiri og fleiri framsóknarmenn í þessari umræðu? Við hljótum að lýsa eftir þeim.

Ég hafði hins vegar, virðulegur forseti, fyrst og fremst hugsað mér að draga fram nokkra þætti sem hafa komið nýir fram í 3. umr. við ræðu hv. þm. Ásgeirs Friðgeirssonar og leggja áherslu á þau efnislegu sjónarmið sem komu fram í máli hans. Þó að við höfum áður sýnt fram á að frv. það sem hér er til umfjöllunar lúti að því að svipta ákveðna aðila tjáningarfrelsi, draga úr og eyðileggja stöðu ákveðinna aðila á fjölmiðlamarkaði var það ekki fyrr en á miðvikudaginn ...

(Forseti (GÁS): Forseta finnst óþarflega mikill kliður í salnum og biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég þakka virðulegum forseta. Það var ekki fyrr en á miðvikudaginn að dregið var fram að í raun réttri er ekki aðeins verið að takmarka stöðu ákveðinna aðila á fjölmiðlamarkaði heldur styrkja mjög stöðu tiltekins hagsmunahóps í samfélaginu með frv. og í rauninni skapa honum einstæða stöðu á hinum frjálsa fjölmiðlamarkaði. Ýmsar aðrar efnislegar ábendingar tel ég rétt að draga fram.

Við höfum áður sýnt fram á það í þessari umræðu að frv. er ekki byggt á málefnalegum forsendum. Það er flutt til að kveða niður óþarflega sterkar gagnrýnisraddir hjá fjölmiðlum, að því er hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar þykir. Því hefur verið hafnað að frv. fengi málefnalega og eðlilega málsmeðferð í þinginu. Eðlilegum óskum um að leitað yrði til alþjóðlegra stofnana svo sem eins og Evrópuráðsins sem við eigum aðild að um sérfræðiráðgjöf og álit á frv. hefur verið hafnað. Því hefur sömuleiðis verið hafnað að kalla eftir áliti lagadeildar Háskóla Íslands --- sem þar til fyrir nokkrum árum var eina háskólastofnunin í lögfræði á Íslandi og er auðvitað algerlega viðurkenndur aðili sem álitsgjafi um lagafrv. og stjórnarskrá --- sem og fjölmargra málsmetandi aðila svo sem eins og Lögmannafélagsins, Evrópuréttarstofnunarinnar o.s.frv. Ekki var gefinn sá tími til að fjalla um þetta frv. sem þeir óskuðu eftir. Þessi málsmeðferð sannar það auðvitað, algerlega afgerandi, virðulegur forseti, að frv. er ekki flutt með málefnaleg markmið að leiðarljósi. Því er beinlínis varnað að hlutlaus sérfræðiálit á innihaldi frv. fái að koma fram áður en það verður staðfest sem lög frá Alþingi. Þeim vinnubrögðum og slíkri ósvinnu hlýtur, virðulegur forseti, nái hún fram að ganga á Alþingi, sem ég efast raunar stórlega um, að verða hnekkt því að þannig má löggjafinn ekki ganga fram. Líki stjórnvöldum ekki hvernig einhverjir fjalla um stjórnarathafnir þeirra geta þau ekki sett lög til að hefna sín á þeim, geta ekki keyrt frv. í gegnum löggjafarsamkomuna án þess að þau fái þar málefnalega meðferð.

Við höfum þegar farið í gegnum þessi svokölluðu fjölbreytileikarök og leitt fram að hér hefur aldrei verið meiri fjölbreytni í fjölmiðlun. Það er þess vegna ekki annað en yfirvarp fyrir þennan hefndarleiðangur að vísa til fjölbreytni í fjölmiðlun og nota sem afsökun fyrir frv. Við höfum líka farið yfir það að frv. sem hér liggur fyrir verður ekki til þess að auka fjölbreytni í eignarhaldi. Þvert á móti verður það til þess að draga úr fjárfestingum í fjölmiðlun og dregur þar af leiðandi þrótt úr frjálsri fjölmiðlun á Íslandi. Markaðsráðandi á fjölmiðlamarkaði á Íslandi er Ríkisútvarpið. Með því að veikja hina frjálsu fjölmiðla er verið að stuðla að aukinni fábreytni á markaðnum en ekki fjölbreytni eins og haldið hefur verið fram. Þetta er algerlega augljóst og hefur margverið staðfest.

Síðast á miðvikudaginn dró hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson það ágætlega fram í hverju þetta m.a. felst, það að draga þróttinn úr fjölmiðlunum. Það er sú staðreynd að í atvinnulífi okkar í dag leggja menn fé til kaupa á eignarhlutum í fyrirtækjum með það að markmiði síðar að selja hlutina aftur og þá með hagnaði.

Það frv. sem hér liggur fyrir gerir að öllum líkindum ráð fyrir því að 2/3 hlutum af hundrað stærstu fyrirtækjum landsins verður ókleift að kaupa þessa eignarhluti. Þar af leiðandi hefur kaupendum á eignarhlutum í fjölmiðlum verið fækkað umtalsvert. Þegar mögulegum kaupendum fækkar dregur úr eftirspurninni og verðið lækkar. Þess vegna sýndi hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson ágætlega fram á það að með frv. er verið að gera fjárfestingu í fjölmiðlafyrirtækjum að annars flokks fjárfestingarkosti. Ekki má selja eignarhlut í fjölmiðlafyrirtækjum hverjum sem er og þess vegna er bæði minni eftirspurn eftir slíkum eignarhlutum og aukin hætta á því að fjárfestirinn í hverju tilfelli geti setið uppi með þann eignarhlut sem hann kaupir vegna þess að kaupendur skortir á markaðnum. Það mun mjög draga úr áhuga aðila á því að leggja fé í fjölmiðlun á Íslandi.

Það er sannarlega áhyggjuefni að svo mikilvæg atvinnugrein, einkum í Reykjavík og nágrenni, sé gerð skipulega og markvisst veikburða. Hjá Norðurljósum eiga hátt í 700 starfsmenn atvinnu sína undir þessari starfsemi. Hjá öðrum fyrirtækjum er auðvitað líka fólk og hjá fyrirtækjum sem byggja störf sín á að selja þessum fyrirtækjum þjónustu er enn fremur að finna umtalsvert af störfum, kannski einkanlega í Reykjavík. Þess vegna var ákaflega ánægjulegt að vera á þriðjudagskvöldið staddur á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur og fá þar tækifæri til að ræða um þetta mál. Það var líka gott að heyra hversu mikill einhugur var hjá okkur í borgarstjórninni um að leggjast gegn frv. Nærri því 2/3 hlutar borgarstjórnarinnar, níu borgarfulltrúar, lögðust gegn frv. með vísan til atvinnuhagsmuna fólks í Reykjavík. Það voru fulltrúar fjögurra af fimm stjórnmálaflokkum sem sæti eiga í borgarstjórn Reykjavíkur sem með þeim hætti ályktuðu, m.a. forustumenn Framsfl. í Reykjavík. Það var satt að segja með hálfum huga að borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. drattaðist til að greiða atkvæði gegn ályktunartillögunni, í margra tilfelli auðvitað gegn betri vitund. Varaborgarfulltrúi Sjálfstfl. hefur dregið það fram í lögfræðiáliti að það frv. sem hér liggur fyrir standist ekki og oddviti Sjálfstfl. í borgarstjórn Reykjavíkur tók það sérstaklega fram að hann hefði fyrirvara við það ákvæði þessa frv. að sömu aðilum væri bannað að eiga blöð annars vegar og ljósvakamiðla hins vegar. Einarðari var ekki stuðningurinn sem ríkisstjórnin gat vænst í borgarstjórn Reykjavíkur, enda engin ástæða til.

[13:45]

Borgarstjórn Reykjavíkur hlaut að láta svo mikilvægt atvinnuhagsmunamál í Reykjavík til sín taka því að henni ber að huga að hagsmunum borgarbúa, atvinnu þeirra og lífsskilyrðum. Við höfum áður í borgarstjórn látið slík mál til okkar taka. Ég minni á stóran vinnustað, Áburðarverksmiðju ríkisins, og sömuleiðis síðan þegar fyrirtæki sem starfaði í Reykjavík, Landmælingar Íslands, var með nauðung flutt hreppaflutningum út á land. Í bæði þau skipti man ég til þess að borgarstjórn Reykjavíkur hafi tekið upp hanskann fyrir Reykvíkinga og slegið skjaldborg um atvinnuhagsmuni þeirra. En það er eitthvað annað en sagt verður um hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson og er réttast að sá þingmaður haldi aftur heim til Hornafjarðar því að framganga hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar í þessu máli er auðvitað slík að hann verður ekki kallaður þingmaður Reykvíkinga. Hann á ekkert erindi að sitja á Alþingi sem þingmaður Reykvíkinga því að þetta frv. beinist sérstaklega gegn atvinnuhagsmunum íbúa í borginni, hér á höfuðborgarsvæðinu, hagsmunum þess fólks sem hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson á að verja. Hann hefur uppi enga tilburði til þess og segir í ræðustóli að hann hafi sérstakt umboð til þess frá kjósendum að brjóta stjórnarskrána. Hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson er orðinn svo vanur því að brjóta stjórnarskrána, enda heimsmetshafi í þeirri grein lagasetningar að brjóta gegn stjórnarskrá. Hann segir að vegna þess að hann hafi farið í kosningar megi hann setja lög sem tefli á tæpasta vað þegar stjórnarskráin er annars vegar. Hvar er þetta stórkostlega umboð hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar? Það er 10% fylgi í Reykv. n., lágmarksfylgi Framsfl. í Reykjavík. Verra gat það ekki orðið en 10% hjá Framsfl. í Reykjavík. Hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson hefur ekkert pólitískt umboð persónulega úr þeirri kosningu. Sú kosning er engin traustsyfirlýsing við Halldór Ásgrímsson og störf hans nema síður sé vegna þess að minna en 10% hefði Framsfl. aldrei getað fengið í Reykv. n. sama hver hefði skipað 1. sæti á þeim framboðslista. Í því felst ekkert umboð fyrir hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson til að brjóta gegn stjórnarskránni né heldur að tefla á tæpasta vað gagnvart henni.

Ef hér væri á ferðinni málefnaleg lagasetning mundi hæstv. utanrrh. og 1. þm. Hornafjarðar leita til Evrópuráðsins og lagadeildar Háskóla Íslands um álit þeirra á efninu og láta vafa þann sem fram kynni að koma í slíkum álitum alltaf falla stjórnarskránni í vil og standa þannig að lagasetningu að einhver sómi væri að ef hann teldi ástæðu til að hafa áhyggjur af því að frv. stæðist stjórnarskrá. Það stendur því miður ekki til.

Hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson sýndi okkur á miðvikudaginn að það er ekki bara það að þetta frv. beinist að því að koma í veg fyrir að eitt tiltekið fyrirtæki fái að eiga umtalsverðan hlut í fjölmiðlum á Íslandi. Hann sýndi að trúlega eru 2/3 hlutar af þessum 100 stærstu fyrirtækjum landsins sem á Íslandi velta yfir tveimur milljörðum kr. og þetta frv. nær til markaðsráðandi fyrirtæki og þar af leiðandi útilokuð frá því að eiga meira en 5% í fjölmiðlum. En 1/3 hluti þeirra fyrirtækja mun eftir sem áður, þrátt fyrir sína miklu stærð, mega eiga allt að 35% eignarhlut í fjölmiðlafyrirtæki. Hvaða fyrirtæki eru það, virðulegur forseti? Jú, það eru sjávarútvegsfyrirtækin. Frv. er sem sagt gagngert sniðið til þess að sægreifarnir geti náð ráðandi stöðu á fjölmiðlamarkaði á Íslandi. Sægreifarnir eru hinir þóknanlegu eigendur að íslenskum fjölmiðlum. Þess vegna er frv. hannað, sniðið og klæðskerasaumað að því markmiði að aðeins þau af stærstu fyrirtækjum landsins sem eru sjávarútvegsfyrirtæki fái að fjárfesta í fjölmiðlunum. Hvers vegna eru þau þóknanlegir eigendur ríkisstjórninni? Jú, vegna þess að hún hefur gengið gegn stjórnarskrá landsins og þeir flokkar sem fyrir henni fara í stærstu og mestu eignaupptöku lýðveldissögunnar þegar sameiginleg auðlind okkar allra að andvirði hundruða milljarða króna var af okkur tekin, var af hverjum og einum Íslendingi tekin og færð sægreifunum, þjóðareignin gefin útvöldum hópi manna.

Ekkert mál í nær 20 ár í stjórnmálum á Íslandi hefur verið jafnumdeilt, virðulegur forseti. Ekkert mál hefur eins sagt í sundur friðinn í samfélaginu. Fyrir ári, nærri 20 árum eftir lagasetninguna, sýndi það sig að enn eru yfir 80% þjóðarinnar andvíg þessari gjöf, þessari einkavinavæðingu auðlinda landsins. Það skyldi þó ekki vera þess vegna sem nú eru sérsniðin lög að því að sægreifarnir fái að verða drottnandi aðilar á fjölmiðlamarkaðnum. Það skyldi þó ekki vera einmitt þess vegna? Telur ríkisstjórnin að þeir séu sem eigendur að fjölmiðlunum ríkisstjórninni handgengnir og muni vinna að því leynt og ljóst að sjónarmið hennar nái fremur en annarra fram í fjölmiðlunum og reyni að nota fjármuni þá sem þeim voru gefnir til að snúa við þeirri löngu töpuðu áróðursstöðu í kvótamálinu, þeirri staðreynd að þjóðin er, var og verður ósátt við það að auðlindin sem við öll áttum saman skuli hafa verið af okkur tekin og fengin litlum útvöldum hóp?

Í ræðu hv. þm. Ásgeirs Friðgeirssonar voru ýmis önnur ágæt efnisatriði sem í engu hefur verið reynt að svara af hálfu stjórnarliðsins, enda stendur ekki til efnisleg og málefnaleg meðferð á þessu máli. Ég nefni þar atriði eins og þau að það sem skiptir máli fyrir samkeppni á markaði sé að þröskuldur fyrir nýliða sé sem lægstur, það sé sem auðveldast að koma inn á markaðinn. Það verður auðvitað að hafa í huga að á fjölmiðlamarkaðnum í dag er enginn að banka á dyrnar, það er enginn að biðja um sjónvarps- eða útvarpsleyfi sem ekki eru til. Sjónvarps- og útvarpsleyfin eru ekki takmörkuð auðlind. Ef einhver vill sjónvarpa eða útvarpa getur hann, virðulegur forseti, gert það. Það hafa allir aðgang að þessum markaði og það er engin ástæða til að hindra menn í að geta fjárfest þar.

Ég nefni önnur efnisleg rök sem hv. þm. dró fram, það að setja með lagaboði skorður við því hve stóran eignarhlut einstakir aðilar geta átt í fyrirtækjum. Það tíðkaðist nokkuð í lagasetningu á Vesturlöndum á 9. áratugnum og fram á þann 10. Eftir Enron-hneykslið og fjölmörg önnur slík spillingarmál í stórfyrirtækjum, almenningshlutafélögum um hinn vestræna heim, hurfu menn hins vegar almennt frá því vegna þess að niðurstaða manna varð sú að með því að takmarka eignarhlut manna við 5% eða viðlíka stærðir hefðu eigendur ekki nægileg áhrif í hlutaðeigandi fyrirtæki heldur gætu stjórnendurnir meira og minna deilt og drottnað því að enginn einn úr hópi eigendanna hefði nægilega sterka stöðu eða ætti nægilega mikla hagsmuni undir til þess að beita áhrifum sínum sem vert væri til aðhalds með stjórnendunum. Þess vegna er það almennt mat manna að lagasetning af þessu tagi sé fremur til þess fallin að auka á spillingu og óheppilega þróun stærri fyrirtækja en hitt. Þess vegna hurfu menn frá henni.

Virðulegur forseti. Þessum og svo fjölmörgum öðrum efnislegum atriðum hafa stjórnarliðar látið ósvarað og munu eflaust láta ósvarað. Ég árétta bara í lok máls míns, virðulegur forseti, að það er til sannindamerkis um að á Alþingi Íslendinga er ekki meiri hluti fyrir þeirri lagasetningu sem hér á að fara fram. Ef svo ólíklega vill til að það takist að skrapa saman atkvæðum þannig að muni einu eða tveimur við afgreiðslu málsins er það ekki vegna þess að málið sem slíkt eigi þann stuðning á Alþingi, heldur vegna flokksagans. Eigum við e.t.v., virðulegi forseti, að segja að flokksharðræði hafi verið beitt á menn til að knýja þá til að styðja mál gegn betri vitund?