Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 14:56:53 (8755)

2004-05-21 14:56:53# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Winston heitinn Churchill, sem hafði langa reynslu á sínum tíma bæði af stríðsrekstri á vígvöllum og pólitískum átökum, sagði einu sinni að vandamálið við það að eiga sér bandamenn væri að þeir hefðu stundum eigin hugmyndir. Við höfum séð það í þeim umræðum sem hér hafa staðið, því frv. sem hér er til umræðu og breytingum á því að stjórnarflokkarnir og stjórnarherrarnir sem stjórna þingflokkum stjórnarflokkanna úr Stjórnarráðinu með tilskipunum hafa ekki átt sérstaklega mikið við þetta vandamál að stríða. Þingmenn þeirra hafa ekki svo margar eigin hugmyndir, a.m.k. hefur ekki orðið vart við þær innan Sjálfstfl. á þingi. Við höfum að vísu séð a.m.k. einn hv. þm. úr Framsfl., Kristin H. Gunnarsson, lýsa sínum eigin hugmyndum og sjálfstæðu skoðunum til málsins og að því er virðist hafa einhverjir framsóknarmenn viðrað þær í baksölum í ferli málsins enda er ljóst að innan Framsfl. er engin eining um málið og mikill órói meðal almennra kjósenda. Það sem við höfum verið að upplifa hér á síðustu dögum kemur heim og saman við það sem Churchill bætti við þegar hann lét þessi ummæli falla, að það eina sem er verra en að heyja stríð með bandamönnum er að heyja stríð án bandamanna. Það er akkúrat það sem við höfum séð, að bandamenn stjórnarflokkanna í þessu máli meðal hv. kjósenda í landinu eru orðnir fáir, og raðir þeirra þynnast með degi hverjum að því er kemur fram í skoðanakönnunum.

Allt þetta ætti að verða stjórnarflokkunum til umhugsunar og þeir hafa fengið það heilræði frá stjórnarandstöðunni að doka við með málið, setja það til umhugsunar og frekari vinnslu í sumar, koma síðan til haustþings, fjalla um það betur þá og reyna að skapa breiða samstöðu í þjóðfélaginu með samráði við fagaðila, samtök starfsfólks á fjölmiðlum, fjölmiðlafyrirtæki og stjórnarandstöðuflokkana um að setja hér á landi fjölmiðlalög sem tryggja markmiðin í frv. sem hér liggur fyrir. Þau eru í sjálfu sér góð og nauðsynleg, þ.e. að tryggja vandaða, fjölbreytta fjölmiðlun í landinu, sjálfstæða fjölmiðla og rétt almennings til upplýsinga og stöðu blaðamanna til að vera varðhundar fyrir almenning gagnvart stjórnvöldum.

[15:00]

Ég hef áður lýst því í ræðustól í fyrri umræðu um þetta mál að eignarhaldsleiðin, þ.e. takmarkað eignarhald á alla enda og kanta, er versta leiðin sem stjórnvöld gátu valið í þessu máli vegna þess að aðrar leiðir standa til boða. Bent hefur verið á aðrar leiðir, vægari leiðir, leiðir sem eru líklegri til að ná fram markmiðum frv. Það tryggir ekki markmiðin um óháða, sjálfstæða, öfluga fjölmiðla með fjölbreyttri dagskrá. Í öðru lagi, og það hefur reynslan sýnt í öðrum löndum, er tiltölulega einfalt að fara í kringum takmarkanir á eignarhaldi. Í versta falli er löggjöf af þessu tagi sem við erum að ræða líkleg til að draga máttinn úr möguleikum fjölmiðla til að fjármagna sig en þeir hafa eins og margoft hefur komið fram í umræðu sérstaka þörf fyrir þolinmótt fjármagn vegna þess hve mikill upphafskostnaðurinn er við að byggja upp öfluga fjölmiðla.

Það hefur verið sagt af hálfu stjórnarliða að verið sé að bregðast við samþjöppun sem er meiri á þessum markaði og meiri en nokkurs staðar hefur orðið á skömmum tíma erlendis með þjóðum. Það er umhugsunarvert af hverju almenningur fellst ekki á þessi rök. Stjórnarliðar hafa sagt að sjónarmið þeirra til málsins hafi ekki komið nægilega fram í fjölmiðlum og annars staðar og að þeim muni, eftir að frv. hefur verið gert að lögum, takast að vinna almenning á sitt band aftur. Ég held að þetta sé algjör misskilningur vegna þess að sjónarmið stjórnarliða hafa komist afar vel til skila. Hvers vegna er það þá sem fólkið í landinu er ekki sammála þeirri nauðsyn að bregðast hart við þessari samþjöppun sem sögð er hafa verið á markaðnum? Ég held að það sé vegna þess að fólki er það í fersku minni að hér voru þeir fjölmiðlar allir í dauðateygjunum sem samanlagt er talin stafa mikil ógn af á þessum missirum. DV dó úr leiðindum eins og við vitum. Það var á tímabili orðið eins og tölvupóstur frá Valhöll og naut ekki hylli lesenda. Fréttablaðið var orðið gjaldþrota og hætt að koma út. Stöð 2 átti í miklum fjárhagserfiðleikum og þar blasti ekkert annað við en upplausn og gjaldþrot. Við blasti afturhvarf til alveldistíma Ríkisútvarpsins og Morgunblaðsins á auglýsingamarkaði og á markaði lesenda.

Ég held að engan hafi langað aftur til þessa tíma, hvorki auglýsendur né almenna lesendur og áhorfendur sjónvarps og útvarps. Fólki er sem sagt í fersku minni að þessir fjölmiðlar voru endurreistir af fjársterkum aðilum sem höfðu það markmið að stefna í Kauphöllina á markað með stórt afþreyingar- og fjölmiðlafyrirtæki.

Eins og bent var á í ræðum var samþjöppun ekki saknæm. Hún var óheppileg en ekki háskaleg. Fákeppni er heldur ekki sama og fáokun. Það var sem sagt engin sérstök hætta, engin yfirvofandi vá á ferðum. Manni hefði a.m.k. sýnst að ástæða væri til að doka við og sjá hvernig málin þróuðust. Það er líka hægt að minna á að Samkeppnisstofnun hefur málið og þessa samrunaþróun enn þá til skoðunar og ástæða hefði verið til að bíða úrskurðar Samkeppnisstofnunar um þennan samruna. Það er hún sem á að ákveða hvort það er fáokun á markaðnum en ekki virk fákeppni. Það hefði verið fróðlegt að hafa þann úrskurð fyrir höndum en það má ráða nokkuð um afstöðu Samkeppnisstofnunar sem kemur endurtekið fram í álitum hennar til allshn. Í síðara álitinu kemur skýrt fram að hún telur að enn stríði frv. gegn markmiðum samkeppnislaga. Væntanlega má draga þá ályktun af þessu áliti Samkeppnisstofnunar að hún telji að meðan Ríkisútvarpið sé á þessum markaði, bæði að framfylgja sínu lögboðna hlutverki og einnig að taka þátt í samkeppni á auglýsingamarkaði sé ekki rík hætta á því að hér sé um fáokun og misbeitingu á samkeppnisaðstöðu að ræða, enda má minna á það að Morgunblaðið er enn virkur aðili á samkeppnismarkaði og ekki búið að gefast upp í samkeppninni enn þá.

Það er nokkuð ljóst eins og hér hefur komið fram að fyrirætlunum Norðurljósa er stefnt í voða með þessu frv. Það er ljóst að áform þeirra um að skrá fyrirtækið í Kauphöllina, þetta afþreyingar- og fjölmiðlafyrirtæki, geta vart orðið að veruleika. Það var einkar fróðlegt að heyra hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson lýsa því í ljósu og skýru máli hvernig þetta gæti komið við rekstur þessa fjölmiðlafyrirtækis. Það er sem sagt hætta á því að veruleg skerðing yrði á starfsgrundvelli Norðurljósa og annarra ljósvakamiðla sem afleiðing af þessu frv. Við höfum satt að segja í gegnum tíðina fengið nóg af öllum þeim rekstrarerfiðleikum og áföllum sem fjölmiðlar hafa orðið fyrir.

Ég sagði að hægt hefði verið að fara aðrar leiðir og auðvitað getur fjármagn í fjölmiðlum haft sín áhrif. Til greina kemur að setja einhverjar skorður við yfirráðum fjármagnsins yfir fjölmiðlum. Eins og við vitum hafa Bretar þann sið að vefja fisk inn í dagblöð og af því tilefni sagði einn góður húmoristi í Bretlandi eitthvað á þá leið að enginn dauður þorskur með sjálfsvirðingu vildi láta vefja sig inn í Murdoch-blað, hvað þá að vinna fyrir það. Það hefur verið nefnt hér að Robert Murdoch hafi hótað Blair, forsætisráðherra Bretlands, að beita blöðum sínum gegn honum ef hann léti ekki koma til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá Evrópusambandsins, þá nýju sem er á döfinni. Auðvitað er merkilegt að fjölmiðlakóngurinn skuli telja sig geta hótað fyrir hönd ritstjórna sinna um slíkt atriði.

Á hinn bóginn má segja að það sem hann er að gera sé ekki annað en að leggja áherslu á það hlutverk fjölmiðla að standa vörð um grundvallarmannréttindi og lýðræði í löndum sínum. Ef fjölmiðlar mega vera hlutdrægir á einhverjum punkti er það til að standa vörð um stjórnarskrána, standa vörð um mannréttindi og lýðræði. Ég sé ekki að það sé ýkja alvarleg hótun þó að Murdoch hótaði því að hafa áhrif á blöð sín til að þau gegndu skyldum sínum. Hitt er verra, eins og tíðkast víða í löndum, að útgefendur blaða taki t.d. um það ákvörðun að þeir styðji eða séu á móti viðkomandi ríkisstjórn. Ég tel að slík vinnubrögð ættu að heyra fortíðinni til en minni á að hér á landi er blað sem heitir Morgunblaðið sem fyrir hverjar kosningar tekur slíka afstöðu, fortakslaust með eða á móti ríkisstjórn. Hið eðlilega á nútímablaðamarkaði væri að ritstjórar blaða tækju afstöðu til einstakra mála út frá rökum og málefnum en beittu ekki blöðum sínum með eða á móti ríkisstjórnum í heild. Auðvitað er ekki hægt að banna slíkt og spurningin er hvernig eigi að verjast mönnum eins og Murdoch sem hafa slíka eignastöðu og eru með blaða- og fjölmiðlahring á bak við sig sem teygir sig um allan heim.

Þá minni ég á að blaðamenn og ritstjórar hafa sínar skyldur. Þeir geta neitað, þeir geta sett störf sín að veði fyrir sjálfstæði sínu og mannorði og neitað að láta vefja sig inn í Murdoch-blöðin eins og þorska. Það er alveg sama hvaða lög við setjum ef siðferðiskennd og heiður blaðamanna og ritstjóra eru ekki varin að þessu leyti.

Hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson sýndi fram á það í mjög ljósu máli að af þeim 90 fyrirtækjum sem græddu mest á síðasta ári samkvæmt Frjálsri verslun yrðu, samkvæmt þessum lögum, 60 þeirra vanhæf til að leggja fé að einhverju marki í fjölmiðla. Þau einu sem hefðu þannig sjálfstæða stöðu að geta lagt til fé væru kvótakóngarnir í landinu, sjávarútvegsfyrirtækin. Þetta er afskaplega lýsandi dæmi um það hve illa hugsuð þessi lög eru, hvort sem þetta var hinn duldi tilgangur þeirra eða tilviljun sem mig grunar helst. Málið er ekki fullbúið og ekki hugsað.

Þetta minnti mig á söguna um Rottweiler-hundinn sem sumir hv. þm. kannast kannski við. Sú saga var eitthvað á þá leið að sægreifi nokkur lagði leið sína til Ísafjarðar og hafði með sér almannatengslamann, eins og gerist stundum. Sem þeir ganga upp Aðalstrætið og eru komnir að einni helstu búðinni þar sjá þeir hvar óður Rottweiler-hundur gerir sig líklegan til að stökkva á barn sem þar var í barnakerru. Sægreifinn var karl í krapinu og skjótur í snúningum. Honum tekst að grípa hundinn og gerir sér lítið fyrir og kyrkir hann í greip sinni áður en hundurinn gæti bitið barnið. Í þessum svifum ber að ritstjóra Bæjarins besta og hann segir með andköfum: Þvílík frétt. Þvílík frétt. Hugsið ykkur fyrirsögnina. Heimamaður drýgir hetjudáð, bjargar barni frá óðum hundi. Þá kemur almannatengslamaðurinn og skýtur inn í: Ég ætla að benda þér á að þetta er aðkomumaður. Já, já, það er allt í lagi. Aðkomumaður bjargar barni. Það er allt í lagi með þá fyrirsögn, segir ritstjórinn. Þá segir almannatengslamaðurinn: Ja, veistu ekki að þetta er einn af helstu útgerðarmönnum landsins? Daginn eftir kemur frétt yfir þvera forsíðuna í Bæjarins besta og þar stendur: Sægreifi kyrkir heimilishund.

Þessi saga, hæstv. forseti, kennir okkur margt. Hún kennir okkur t.d. að það er hægt að segja satt með ýmsum hætti. Það var ekkert rangt í þessari fyrirsögn, en sjónarhornið skiptir máli. Það kennir okkur líka hvaða gagn má hafa af almannatengslamönnum og í þriðja lagi er líklegt að þessi frásögn í blaðinu hafi orðið sægreifanum til nokkurrar skapraunar. Hugsanlega gæti honum hafa dottið í hug að kaupa blaðið til að hafa áhrif á skrif þess. Eins og komið hefur fram telja fulltrúar stjórnarflokkanna, einkum og sér í lagi Sjálfstfl. og ráðherrar þess flokks, að blaðamenn séu viljalítið handbendi eigenda fjölmiðlanna og skrifi nánast hvað sem þeim er fyrirlagt að skrifa af eigendunum.

[15:15]

Það sem kemur þá til skoðunar er hvernig hægt sé að verjast Murdoch, og sægreifanum í þessu tilfelli. Ég held að það sem við höfum lagt fram á síðustu dögum í umræðuna hér hafi sýnt með ýmsum hætti að það eru til margvíslegar aðferðir og leiðir til þess. Í Lúxemborg er t.d. nýbúið að samþykkja fjölmiðlalög þar sem tjáningarfrelsi blaðamanna er tryggt með betri hætti en áður hefur verið. Mér er til efs að hæstv. ríkisstjórn hafi skoðað þessi lög frá litlu landi sem að mörgu leyti svipar til okkar hvað fjölda íbúa varðar. Þetta er land sem hefur verið okkur kært og við höfum átt mikil samskipti við. Samkvæmt þeim lögum geta t.d. blaðamenn neitað að birta greinar undir nafni ef þeim hefur verið breytt af ritstjórum eða eigendum. Eignarréttur þeirra yfir því sem þeir skrifa er sem sagt styrktur og þetta getur verið mikilvægt atriði ef það er svo, eins og stjórnarliðar halda fram, að eigendurnir setji mönnum fyrir hvað skrifa eigi. Þar er einnig ákvæði sem segir að ef Murdoch skyldi kaupa blaðið eða einhver annar eigandi, ef eigendaskipti yrðu á fjölmiðli, gætu blaðamenn sagt upp störfum fyrirvaralaust en notið engu að síður umsaminna uppsagnarkjara. Það er sem sé ekki hægt að þvinga blaðamenn til að starfa undir breyttum formerkjum.

Svipuð ákvæði hafa verið leidd í lög í Frakklandi og öðrum löndum. Þetta snýst allt saman um rétt almennings til óhlutdrægra og fjölbreyttra upplýsinga og rétt blaðamanna til að gegna hlutverki sínu sem varðhundar almennings gagnvart stjórnvöldum og viðskiptaaðilum án þess að hagsmunir eigenda torveldi þeim að gegna skyldu sinni í þessum efnum. Við höfum af hálfu Samf. hvað eftir annað lagt áherslu á það sem t.d. er fjallað um í tilmælum Evrópuráðsins nr. 13/1994, að það sé nauðsynlegt að löggjafinn stuðli að aðgerðum sem tryggi gagnsæi fjölmiðla. Það er sérstaklega tekið fram í Evrópuráðinu að þetta atriði sé mikilsvert til að tryggja og efla fjölbreytni. Það er æ erfiðara að gera sér grein fyrir því hverjir séu í aðstöðu til að hafa áhrif á efni blaða í krafti eignarhalds og viðskiptatengsla. Hvað er þá til ráða? Á að banna mönnum að eiga í fjölmiðlum og leggja fé í fjölmiðla, gera þá að einhvers konar annars flokks fjárfestingarkosti? Eigum við e.t.v. að fara þá leið að auka gagnsæið og gera þannig almenningi kleift að meta gildi upplýsinga út frá því hvaða hagsmunir búa að baki og auðvelda stjórnvöldum að framfylgja lögum á þessu sviði, t.d. að því er varðar hömlur við samþjöppun?

Þegar við tölum um þetta erum við að tala um að fyrir liggi upplýsingar um eigendur, að sjálfsögðu, um ritstjóra, um þá sem hafa áhrif á ritstjórnarstefnu. Við viljum að skrifuð ritstjórnarstefna liggi fyrir á hverjum fjölmiðli sem almenningur og blaðamenn geta haft til viðmiðunar þannig að þeir þurfi ekki að vera undir geðþóttavaldi ritstjóra á hverjum tíma, að ritstjórinn sé undir þá sömu sök seldur og aðrir að þurfa að fylgja boðaðri, tilkynntri og auglýstri ritstjórnarstefnu. Þeir mega ekki bara geta hagað seglum eftir vindi og eftir því sem passar í pólitíkinni. Á sama hátt verða prinsippin í fréttastefnu fjölmiðilsins að vera skráð og öllum kunn og sýnileg. Þá er ekki síður mikilvægt að auglýsinga- og kostunarreglur séu skráðar þannig að menn viti hvernig kaupin gerast á eyrinni og ekki síst að allar breytingar á þessum atriðum séu tilkynningarskyldar.

Við höfum líka talað um að auka þurfi sjálfstæði ritstjórna með því að settar verði innri reglur á hverjum fjölmiðli sem tryggi sjálfstæði hans og sjálfstæði ritstjóra, að samþykktar séu siðareglur blaðamanna og starfsmannafélaga og að uppi sé vinnuskipulag sem skapi kínamúra milli annars vegar auglýsinga og frétta og ritstjórnardeilda og hins vegar ritstjórnar og framkvæmdastjórnar. Á þessum atriðum er sums staðar misbrestur í íslenskum fjölmiðlum. Þarna er hægt að laga mikið.

Varðandi eignarhaldið eru þær leiðir sem fram koma í frv. hæstv. ríkisstjórnar afar hamlandi og torveldandi fyrir rekstur fjölmiðla og hægt að hugsa sér miklu skynsamlegri reglur ef menn ætla að fara þá leið. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hægt væri að komast að samkomulagi ef menn skoðuðu það, fengju að meta hugsanleg áhrif af því og gæfu sér góðan tíma til þess.

Ef menn eru til að mynda að hugsa um að takmarka áhrif Murdochs og sægreifans í sögunni sem ég var að nefna þarf ekki að vera rétta leiðin að takmarka möguleika þeirra til að leggja fé í fjölmiðla, heldur hins vegar að takmarka auglýsingahlutdeild á markaði og takmarka leyfilegt hámark í áskrifendafjölda hvort sem það er á blaða- eða sjónvarpsmarkaði. Þetta er leið sem bent er á í skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum til menntmrh. og virðist vera miklu nær því að ná markmiðinu. Það er augljóst að ef einn aðili hefur algjöra yfirburðastöðu varðandi aðgang að áhorfendum hefur hann náttúrlega yfirburðastöðu á auglýsingamarkaðnum og það getur verið til lengri tíma litið varhugavert varðandi fjölbreytni og skoðanaskipti á fjölmiðlamarkaði. Það er hægt að hugsa sér að bæta úr því með ýmsum hætti. Sú leið hefur verið farin að styrkja fjölmiðla sem eru númer tvö á hverju svæði í samkeppni, þ.e. að menn hafi möguleika til að keppa við þann aðila sem er númer eitt á hverjum markaði með skarpari hætti, þeir séu ekki dæmdir til að tapa í samkeppni. Það er ein leið sem hægt er að fara. Það er líka hægt að fara þá leið að takmarka hámark auglýsingahlutdeildar og hámark áskrifendahlutar. Þessar leiðir eru algjörlega óskoðaðar og hafa ekki verið bornir saman kostir þeirra og gallar miðað við þá leið að takmarka eignarhaldið. Þess vegna sýnir þetta ásamt mörgu öðru sem aðrir þingmenn Samf. og stjórnarandstöðunnar hafa farið yfir svo glögglega hversu vanreifað, illa hugsað og ótækt frv. hér í þingsölum er.

Eitt af því sem er augljóst með fjölmiðlana í dag og sérstaklega sjónvarpið er að þar er ekki nógu öflug innlend dagskrárgerð. Þar vantar betri fréttaskýringaþætti, það vantar að við gerum efnivið úr sögum okkar og ljóðum, að við speglum veruleikann eins og hann er, samtíma okkar í sjónvarpsmyndum, leiknu sjónvarpsefni. Þetta kostar mikla fjármuni og því miður eru bæði einkafjölmiðlarnir og Ríkisútvarpið eins og því er búinn stakkur í dag vanbúnir til að gegna þessu menningarhlutverki. Þess vegna er niðurstaðan af fyrirliggjandi frv. sú að það er líklegt til að veikja fjölmiðlana, eignarhald þeirra, fjárhagsgrundvöll, fjármögnunarmöguleika og þar með veikja stöðu íslensks máls og íslenskrar dagskrárgerðar til frambúðar. Ekkert af þessu leiðir til þess að almenningur eigi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fölmiðlum en ýmsir þingmenn hafa áður farið vel yfir þessi mál út frá þessum sjónarhóli.

Kannski er hinn duldi tilgangur einmitt sá að halda að okkur lélegu sjónvarpi á næstu missirum og árum. Það skyldi þó aldrei verða að þrautalendingin yrði að segja með Groucho Marx sem var greinilega ekki mikill aðdáandi sjónvarps og sagði einhvern tíma: Mér finnst sjónvarpið mjög menntandi. Um leið og einhver kveikir á því fer ég inn í bókastofu og les góða bók.