Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 17:14:56 (8761)

2004-05-21 17:14:56# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[17:14]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að lengja þessa umræðu né skoðanaskipti milli okkar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar en sjálf hef ég leitað mjög að því hver geti verið rökin fyrir því að svo ofboðslega mikil áhersla er lögð á að setja þessi lög í vor. Þingið sem átti að ljúka störfum 7. maí er enn að þann 21. maí og mörg mál óafgreidd, 40--60 mál fyrir utan þetta. Það er auðvitað grafalvarlegt mál ef þingmaðurinn hefur rétt fyrir sér í þeirri ályktun sinni að þetta mál snúist svo þegar upp er staðið allt um starfsskilyrði stjórnmálaflokks.

Eins og ég fór yfir er auðvitað engin leið að sjá hvaða fjölmiðlafyrirtæki það er á markaðnum sem gæti verið til sölu og gerði það að verkum að þetta mál hefði ekki getað beðið haustsins né það að ekki hefði mátt hafa samráð við bæði fjölmiðlafyrirtæki, stjórnmálaflokka, sérfræðinga í stjórnskipunarrétti og annað til þess að gera þetta mál vel úr garði. Þetta mál er óskiljanlegt með öllu en kenning þingmannsins er auðvitað grafalvarleg, svo ekki sé meira sagt.