Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 22:02:33 (8778)

2004-05-21 22:02:33# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[22:02]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt til að fara yfir þetta þá þurfum við bara að fara rúmt ár aftur í tímann, þegar kosningarnar voru á síðasta ári. Þá var þessum fjölmiðlum beitt af mikilli hörku og grimmd gegn hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni. Manni varð um og ó og er þó ýmsu vanur. Það gekk hér látlaust og var alveg greinilegt hverjum átti að koma frá.

En það er ekki bara um þetta sem gilda sérlög. Menn tala hér um 5% eign og annað. Við erum með sérlög um sjávarútveg þar sem er ákveðið hámark á kvótaeign og annað slíkt. Ég held að menn séu orðnir sammála að mestu leyti um þetta frv. nema varðandi spurninguna: Hver má þessi hlutur vera hjá markaðsráðandi fyrirtækjum? Á hann að vera 5% eða 25%? Það er farið að rífast um það núna. Nú held ég að menn séu orðnir slakir gagnvart eignarréttinum og stjórnarskránni.