Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 22:10:33 (8785)

2004-05-21 22:10:33# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[22:10]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki verið mikið framboð af stjórnarliðum í þessari umræðu. Ég verð þó að hæla hv. þm. Gunnari Birgissyni fyrir að koma hér og eiga við okkur orðastað um þetta frv.

Ég vil líka þakka hv. þm. fyrir hreinskilnina. Hann kemur hér í pontu og segir, nánast fyrstur stjórnarliða, að þetta sé sértækt frv. Hann eyðir mestöllum ræðutíma sínum til að tala um hve Norðurljós sé vont fyrirtæki, hvað Baugur sé vont fyrirtæki og svo, rétt þegar hann er að klára ræðu sína, fer hann að tala um smáatriði eins og stjórnarskrá og slíka hluti.

Ég vil bara vera alveg viss um að ég hafi skilið ræðu hv. þm. rétt. Í fyrsta skipti, eins og ég segi, er talað skýrt af hálfu stjórnarliðsins. Er það hans skoðun að þetta frv. sé fram komið eingöngu til þess að leysa upp Norðurljós?