Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 22:15:24 (8789)

2004-05-21 22:15:24# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[22:15]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Síðustu daga hefur farið fram athyglisverð og skemmtileg umræða þótt hún hafi oft og tíðum einkennst af undarlegustu hlutum og örvæntingarfullum rógburði af hálfu Sjálfstfl. En honum kippir í kynið og kannski var ekki við öðru að búast þegar flokkurinn er kominn út í horn í málflutningi sínum. Samkvæmt öllum skoðanakönnunum er fylgið hrunið og öll hin gamla frelsishugsjón hefur verið fyrir borð borin og er haugamatur.

Ekkert stendur eftir af málflutningi Sjálfstfl. Það hefur verið rammað inn í umræðunni síðustu tvær vikurnar, m.a. með prýðilegum hætti af hv. þm. Gunnari Birgissyni sem mælti síðast, fyrstur stjórnarliða í langan tíma. Hann dró það skýrt fram að frv. bæri fyrst og fremst með sér tvennt. Annars vegar væri það aðför að tjáningarfrelsinu, hins vegar væri frv. sértækt og gert til að koma fram hefndum og höggi á tiltekið fyrirtæki í landinu. Hefndarleiðangur forsrh., með það að markmiði að brjóta á bak aftur fyrirtækið Norðurljós, er á lokasprettinum. Afleiðingarnar eru vægast sagt drastískar. Sjálfstfl. er í rúst. Fylgið er hrunið af flokknum og hugmyndafræðin á haugunum eins og ég gat um áðan. Trúverðugleiki flokksins að engu orðinn. Já, hann er glæsilegur svanasöngur Sjálfstfl. fyrir okkur sem höfum séð í gegnum huliðshjálm frelsiskjaftæðisins. Það er óralangt síðan glitta fór í hið rétta andlit sem helgríma Davíðs Oddssonar hefur lagt sig yfir.

Nú eru runnir upp merkilegir tímar. Það hefur komið fram að hér er í gangi umræða sem tekið hefur lengri tíma en nokkur önnur frá því að EES-samningurinn var ítarlega ræddur og er ekki að undra miðað við hvernig málið ber að og hvert inntak málsins er. Það hefur ábyggilega aldrei áður komið fram þvílíkt frv. sem snýst svo augljóslega um sértæka löggjöf sem sniðin er að því að mölva fyrirtæki sem gæti kostað hundruð starfsmanna atvinnuna. Þótt skýrlega sé vegið að tjáningarfrelsinu í landinu og öllum mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, öðrum en þeim er lúta að trúfrelsinu að mati allra þeirra lögspekinga sem skiluðu inn álitum til þeirra nefnda þingsins sem um málið fjölluðu, þá skiptir það engu. Hefndum skal fram koma af hálfu Sjálfstfl. og forsrh. og flokkurinn dreginn niður í svaðið í leiðinni. Framsfl. fylgir að sjálfsögðu með og þjóðin er klofin niður en hins vegar er sá hluti sem fylgir Sjálfstfl. að málum ákaflega lítill.

Komið hefur verið inn á marga þætti í umræðunni. Ég ætla að stikla á stóru varðandi það. Við fulltrúar Samf. í menntmn. fórum mikinn í 1. umr. og í aðdraganda 2. umr. og báðum þráfaldlega um að menntmn. fengi að fjalla um málið og koma að því með skynsamlegum hætti. Um er að ræða mál sem að sjálfsögðu ætti að vera borið fram af menntmrh. en ekki forsrh. Af einhverjum ástæðum hrifsaði forsrh. málið úr höndum hæstv. menntmrh., eftir að hún hafði kynnt skýrslu sem unnin var að beiðni ráðherra um ástandið á fjölmiðlamarkaðnum. Skýrslan var reyndar birt um leið og þetta dæmalausa frv., sem fer í bækurnar sem aðför stjórnvalda að mannréttindum í landinu. Það er aðför stjórnvalda að tilteknu fyrirtæki og leiðarljósið er hatrið eitt, hatur forustumanna Sjálfstfl. í garð þessa fyrirtækis og þeirra sem fyrir fyrirtækinu fara. Það er með ólíkindum að verða vitni að því í lýðræðissamfélagi þegar sú tilfinning fer að grípa fólk að það búi í einræðisríki, að þar fari einvaldur hamförum og allir fylgi með. Enginn þorir að segja neitt, enginn þorir að segja sannleikann um þá stöðu sem raunverulega er uppi.

Ég ætla að fara aðeins yfir umsögn minni hluta menntmn., sem okkur tókst að útbúa á þeim skamma tíma sem skammtaður var til að vinna að áliti til allshn. þingsins um þetta mál. Við fórum þráfaldlega fram á að fá fjölda gesta til fundar við okkur. Við lögðum fram ítarlegan gestalista og fórum fram á þeir sem vinna í hinum ýmsu geirum fjölmiðlunar fengju að koma til fundar við nefndina og skýra sjónarmið sín. Við því var að sjálfsögðu ekki orðið enda voru störf nefndarinnar skrípaleikur. Þau fóru fram í miðri 2. umr. og var ekki ætlað að skipta nokkru einasta máli. Nefndin vann það litla sem henni gafst kostur á. Við fengum til fundar við okkur valinkunna einstaklinga sem voru meðal margra annarra á listanum sem við lögðum fram. Formaður nefndarinnar boðaði að okkar ósk doktor Herdísi Þorgeirsdóttur lögfræðing, Sigurð Líndal lagaprófessor, Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins, Gunnar Smára Egilsson, ritstjóra Fréttablaðsins, Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóra Íslenska sjónvarpsfélagsins, og Sigurð G. Guðjónsson, forstjóra Norðurljósa.

Fundur nefndarinnar með þessum gestum var haldinn 12. maí um morguninn og voru allir beðnir að vera viðstaddir samtímis, þrátt fyrir að við hefðum að sjálfsögðu farið fram á að hver og einn fengi að koma fyrir nefndina svo gæfist nægur tími og tóm til að fara yfir málið. En panillinn var litríkur og skemmtilegur og kemur fram í áliti nefndarinnar, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn telur þau vinnubrögð afar sérkennileg og í andstöðu við þingvenjur. Eftir afgreiðslu allsherjarnefndar gafst þó kostur á að athuga auk frumvarpsins breytingartillögur frá meiri hluta nefndarinnar á þskj. 1619.

Minni hluti menntamálanefndar lítur svo á að allsherjarnefnd hafi sent málið til skoðunar í menntamálanefnd á þeirri forsendu að útvarpslögin, nr. 53/2000, heyri undir málasvið nefndarinnar og þess vegna hafi verið til þess ætlast að nefndin skoðaði einkum þau mál er heyrðu útvarpslögunum til. Það er mat minni hlutans að sérstaklega hafi verið þörf á að beina sjónum að menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla og skoða frá því sjónarhorni hvort náðst hafi yfirlýst markmið frumvarpsins um að tryggja æskilega fjölbreytni í íslenskri fjölmiðlun og hlúa að því lykilhlutverki þeirra að vera ,,vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi`` og ,,mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis`` eins og það er orðað í athugasemdum við frumvarpið.``

Ég ætla að taka það fram að ítrekað hefur verið farið fram á að þingfundum yrði frestað þangað til menntmn. hefði komið að málinu, enda höfum við talið fáránlegt að umræða um þetta mál fari fram án þess að sú nefnd þingsins sem langmest hefur með málið að gera skili í alvöru áliti sínu inn til þingsins, þeirri vinnu sinni inn til þingsins. Það plagg lægi allri umræðu til grundvallar en væri ekki skrípaleikur á hliðarlínunni. Ég harma það mjög og lýsi vonbrigðum mínum með hin gerræðislegu vinnubrögð í nefndarstörfum þingsins, í þessu tilfelli menntmn. Nefndin var fótumtroðin og höfð að engu í umræðu og vinnu við þetta mál. En það er í stíl við annað í þessu máli. Það skiptir engu hvaða rök koma fram. Málinu skal þröngvað í gegn, pínt í gegnum Alþingi Íslendinga með góðu eða illu. Hefndum skal fram komið. Það stendur upp úr.

Hér er á ferðinni sértækt frv. sem vegur að mannréttindum á Íslandi og heftir tjáningarfrelsið. Í fyrsta sinn í Íslandssögunni, í sögu lýðveldisins, er vegið að prentfrelsinu. Í fyrsta sinn er ákveðnum aðilum bannað að gefa út blöð. Í fyrsta sinn skal takmarka prentfrelsið. Það er með ólíkindum að sú staða komi upp á Íslandi árið 2004 að prentfrelsi sé takmarkað. Það er ótrúlegt að upplifa það. Ég kem nánar að því síðar.

Til að undirbyggja umræðu mína og röksemdafærslu varðandi tjáningarfrelsið, mikilvægi þess og hve heilagt það er, hef ég leitað til sígildra öndvegisrita. Ég hef farið yfir, lesið upp og fléttað í málflutning minn valda kafla úr Frelsinu eftir John Stuart Mill. Að mínu mati rammar það rit einna best hvernig málum á að vera háttað og hvernig menn litu á það fyrir um 150 árum að búa ætti að mannréttindum og málfrelsi. En hvað gerist 149 árum síðar uppi á Íslandi? Málfrelsið er heft og prentfrelsið takmarkað. Ég vildi að Íslendingum gæfist kostur á að lesa meginkafla þessa grundvallarrits um frelsið og þeir væru öllum aðgengilegir í gegnum þingtíðindin. Ég kaus því að fara yfir valda kafla án þess að það flokkaðist undir málþóf eða tafir á störfum þingsins þannig að öðrum gæfist ekki kostur á að koma að umræðum. Ég fór þá leið að velja sérstaklega kaflana og mun koma betur að því síðar þegar ég er búinn að fara yfir aðra þætti. Nóttin er ung, eins og segir í vísunni.

Í áliti minni hluta menntmn. segir síðan, með leyfi hæstv. forseta:

,,Að afloknum fundi með þeim gestum sem að framan eru taldir og eftir þá athugun á málinu sem möguleg var miðað við aðstæður sem menntamálanefnd voru búnar er það mat minni hlutans að ekkert bendi til þess að markmið frumvarpsins um æskilega fjölbreytni í fjölmiðlum á Íslandi náist verði það að lögum. Breytingartillögur meiri hluta allsherjarnefndar breyta engu þar um. Tekið skal undir þá fullyrðingu sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að mikilvægt sé að fjölmiðlar standi undir þeirri kröfu að almenningur hafi ,,aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum``. Minni hlutinn vekur athygli á því að forsenda þessarar kröfu er að til séu á Íslandi slíkir fjölbreyttir, sjálfstæðir og öflugir fjölmiðlar. Í fjölda umsagna til allsherjarnefndar er talin hætta á að aðgerðir sem kynntar eru í frumvarpinu verði til þess að veikja fjölmiðla þá sem nú starfa og leggja suma þeirra að velli.``

Frv. er lagt fram til að leggja ákveðna fjölmiðla að velli, fjölmiðla sem eru ekki ríkisstjórnarflokkunum þóknanlegir, sem þeir flokkar telja að séu misnotaðir daglega og gengdarlaust gegn stjórnvöldum. Menn eru sem sagt að hefta tjáningarfrelsi og ritskoða, það er kjarni þessa frv. Frv. er ætlað að leggja fyrirtæki að velli og ritskoða það, svo ómerkilegt sem það er. Áfram segir í áliti menntmn., með leyfi forseta:

,,Þá skerði hinn fyrirhugaði lagarammi svo rekstrargrundvöll fjölmiðlanna til frambúðar að hætt sé við að mjög dragi úr framlagi þeirra til íslenskrar menningar, m.a. með innlendri dagskrárgerð í ljósvakamiðlum. Líklegt er einnig að slík þróun veiki stöðu íslenskrar tungu á fjölmiðlavettvangi, en við athugun málsins er í mikilvægum umsögnum bent á að íslenskir fjölmiðlar eru nú í samkeppni við erlenda að því marki að aldrei hafi þekkst í þjóðarsögunni.``

Hér kemur að atriði sem ég dvaldi töluvert við í einni ræðu minni við 2. umr. Í þessari sértæku aðför að mannréttindum á Íslandi er ekkert tillit tekið til þess að íslenskir fjölmiðlar, ljósvakamiðlar, eru í bullandi samkeppni við erlenda fjölmiðla. Ekkert tillit er tekið til umfangs, áhrifa og stærðar netsins í fjölmiðlaneyslu landsmanna. Þar er ekki minnst orði á þetta enda hefur Sjálfstfl. ekki hugmynd um þá stafrænu sjónvarpsbyltingu sem í vændum er. Hið undarlega nátttröll hefndarinnar, heiftarinnar og mannfyrirlitningarinnar í íslenskum stjórnmálum hefur dagað svo illa uppi í þessu máli að það tekur ekki tækniþróunina með í reikninginn. Það er með ólíkindum hvernig þessu máli er stillt upp. Það er eins og við séum stödd á árinu 1966, þegar ríkissjónvarpið hóf aleitt útsendingar á Íslandi. Hér voru engir gervihnattadiskar, ekkert internet og engin stafræn sjónvarpsbylting. Ekkert af þessu tekið til greina, ekkert af þessu skal tekið til grundvallar í aðförinni að Norðurljósum og mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. En áfram segir, með leyfi forseta:

,,Flest bendir til að ekki einungis skorti mjög á að frumvarpið nái yfirlýstum markmiðum, ef að lögum yrði, heldur sé sennilegt að ákvæði frumvarpsins vinni beinlínis gegn því að þessi markmið náist og stuðli að aukinni fábreytni í efnisframboði, dagskrárgerð og lýðræðislegri umfjöllun. Verði þetta niðurstaðan bitnar frumvarpið ekki einungis á fjölmiðlunum, starfsfólki þeirra og aðstandendum heldur einnig margvíslegu menningarstarfi sem þeim tengist, og verður til þess að þrengja að vaxtarmöguleikum íslenskrar menningar og takmarka óðal íslenskrar tungu.

Minni hlutinn telur að til að ná markmiðum sem áður eru talin þurfi að fara aðrar leiðir, leiðir þar sem meðalhófsreglu er gætt og tryggt að fjölmiðlar veikist ekki, lýðræðissamfélaginu og íslenskri menningu til verulegs ógagns. Slíkar leiðir eru m.a. nefndar í nefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar. Sérstaklega skal bent á að eitt af því sem helst kemur til greina er að efla þjóðarútvarpið, móta því glöggt forustuhlutverk við almannaþjónustu á fjölmiðlasviði og viðurkenna það sem einn af máttarstólpum íslenskrar menningar. Um þennan þátt er ekkert fjallað í frumvarpinu þótt í skýrslu þeirri sem fylgir frumvarpinu sem fylgiskjal, og sögð er grundvöllur frumvarpsins, sé skýrlega bent á þetta og jafnvel gert ráð fyrir því að sú leið ein sé farin að sinni.

Þá tekur minni hlutinn eindregið undir ábendingar minni hluta allsherjarnefndar um að enn hafi ekki verið skorið úr um alvarleg álitamál um það hvort frumvarpið standist ýmis mannréttindaákvæði stjórnarskrár lýðveldisins verði það að lögum og skerði þar með tjáningarfrelsi Íslendinga. Enn fremur er óljóst um stöðu þess gagnvart Evrópurétti.

Minni hlutinn átelur þá málsmeðferð sem er viðhöfð við umfjöllun og afgreiðslu málsins á öllum stigum þess. Rétt er að fram komi að af hálfu minni hlutans var á áðurnefndum fundi 12. maí mótmælt vinnubrögðum meiri hluta menntamálanefndar sem ákvað að ljúka umfjöllun um málið eftir þann tveggja tíma fund með sex gestum sem áður er lýst.``

[22:30]

Stórbrotin vinnubrögð. Mikilfengleg aðkoma menntmn. að málinu --- það er ekki hægt að hafa önnur orð um það. En allt í plati. Leikritið var leikið og allt í þykjustunni. Við fengum að spila með, þykjast taka þátt í að koma að máli. Við hörmum að sjálfsögðu aðkomu nefndarinnar að málinu þótt við höfum vitanlega skilað okkar verki. En áfram segir í áliti nefndarinnar, með leyfi forseta:

,,Það er mat minni hlutans að eðlilegt sé að þroska umræðuna um stöðu fjölmiðla á Íslandi á opinn og lýðræðislegan hátt, án núverandi tímapressu og pólitísks þrýstings frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar. Í tengslum við slíka umræðu þyrfti líka að athuga rækilega tiltæk fræðileg gögn um fjölmiðlun á Íslandi og gera sérstakar rannsóknir, en verulegur skortur er á fjölmiðlarannsóknum hér á landi. Af framansögðu má ljóst vera að minni hluti menntamálanefndar telur málið vanreifað og ótækt til afgreiðslu. Minni hlutinn tekur því undir þá tillögu minni hluta allsherjarnefndar að frumvarpinu verði vísað frá.``

Þannig hljóðaði álit minni hluta menntmn. og undir það skrifuðu auk mín hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason. Málið er ótækt og við lögðum til að því yrði vísað frá. Það var að sjálfsögðu ekki tekið til greina. Við komum viðhorfum okkar a.m.k. á framfæri og höfum unnið eins vel og við getum.

Virðulegi forseti. Engum blöðum er um það að fletta að lagasetningunni er beint gegn ákveðnu fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði, eins og áður hefur komið fram, m.a. hjá hv. formanni menntmn. Gunnari Birgissyni. Frv. er áhlaup á Norðurljós og lagt fram til að brjóta fyrirtækið á bak aftur og koma fram hefndum á eigendum Baugs, þótt það kosti stjórnarskrárbrot, atvinnumissi fyrir hundruð manna og miklar skaðabætur á kostnað skattgreiðenda. Þetta er dæmalaus staða í lýðræðissamfélagi og segir mikið um þankagang, vinnubögð og valdníðslu forustumanna stjórnarflokkanna.

Staðan á íslenskum fjölmiðlamarkaði gefur vissulega tilefni til að setja skýrar reglur um upplýst eignarhald og sjálfstæði fréttastofa. Frv. er hins vegar ekki í samræmi við meðalhófið sem stjórnvöldum ber að gæta. Ef markmiðið er fjölbreytni í fjölmiðlarekstri þá er vandséð að fjölbreytnin væri mikil ef rekstri Fréttablaðsins, DV, Stöðvar 2, Sýnar og Bylgjunnar hefði ekki verið bjargað frá bráðu gjaldþroti fyrir örfáum mánuðum. Það var í janúar, virðulegi forseti, að þessum miðlum var bjargað frá því að fara í þrot. Þá römbuðu þeir á barmi gjaldþrots. Þá þótti einsýnt að þeir yrðu ekki lengur starfandi og þau hundruð sem hafa þar atvinnu misstu störfin. Fyrst fyrirtækið fór ekki í þrot hefur ríkisstjórnin tekið það hlutverk að sér að gera áhlaup á Norðurljós til þess að brjóta fyrirtækið upp og koma því frá þar sem það er ekki stjórnvöldum þóknanlegt.

Ritskoðun, virðulegi forseti. Þetta er aðför að málfrelsinu. Þetta er aðför að stjórnarskránni. Þetta er aðför að einu einstöku fyrirtæki á landinu. Fjölmiðlafrumvarpið snýst ekki aðeins um samþjöppun á markaði heldur hefur málflutningur einstakra ráðherra velt upp spurningum um tjáningarfrelsið. Meginniðurstaða fjölmiðlaskýrslunnar var að ef sett yrðu lög ættu þau að horfa til framtíðar en ekki vera afturvirk, segir í fjölmiðlaskýrslunni, ella risu álitamál um stjórnarskrá. Þessu fer frv. hæstv. forsrh. ekki eftir eins og margoft hefur verið komið inn á í þeirri umræðu sem linnulaust hefur staðið síðustu daga og vikur. Því er beint gegn einu fyrirtæki, Norðurljósum. Frv. stefnir í hættu afkomu fjölmargra starfsmanna. Við höfum orðið vitni að ótrúlegri málsmeðferð, virðulegi forseti, gagnvart grundvallaratriðum í íslensku samfélagi sem lúta að sjálfu lýðræðinu og lýðræðislegri umræðu í landinu.

Virðulegi forseti. Veldi Sjálfstfl. og gott gengi hans í kosningum hefur fram að þessu, eins og ég kom að í upphafi máls míns, grundvallast á trausti kjósenda á að flokkurinn standi einn flokka raunverulega vörð um frelsið til orðs, æðis og athafna, eins og segir m.a. á heimasíðu Sjálfstfl. Flokknum er ætlað að standa vörð um rétt einstaklinganna, berjast fyrir auknu sjálfstæði þeirra og efla áhrif þeirra í atvinnulífinu. Þetta segir, herra forseti, á heimasíðu Sjálfstfl. X-d.is í ritinu Sjálfstæðisstefnan. Þeirri stefnu er hins vegar ekki fylgt. Nú er hafinn sársaukafullur svanasöngur flokksins, eins og fram kemur í nýlegum skoðanakönnunum. Það mun örugglega staðfestast í skoðanakönnunum næstu daga og vikur að fylgi flokksins er hrunið og traust manna á honum ekkert. Málflutningur flokksins hefur iðulega verið sá að hin ósýnilega hönd markaðarins rétti allt af og eigi að ráða för. En nú er höndin í fatla og tími ríkisafskipta og inngripa miðstýringarsinnaðra stjórnmálamanna runninn upp.

Virðulegi forseti. Talið er að verði frv. að lögum kalli það jafnvel á skaðabætur af hendi ríkissjóðs upp á milljarða kr. Tölurnar eru vissulega á reiki, enda á eftir að koma í ljós og reyna á það. Það gæti einnig leitt til atvinnumissis fyrir hundruð manna. Virtustu lögmenn hvaðanæva að úr litrófinu staðhæfa að frv. brjóti í bága við allar mannréttindagreinar stjórnarskrárinnar nema þá er varðar trúfrelsið. Hér er um margfalt stjórnarskrárbrot að ræða, ef marka má lögspekingana alla. Hins vegar benda engin álit sem koma inn til nefnda þingsins til annars en um slíkt sé að ræða. Verði ólögin að lögum setja þau fjölmiðla landsins í mjög þrönga stöðu til fjármögnunar. Þau gera þeim nánast ómögulegt að fá andrými. Það er ekki eitthvað eitt heldur allt sem er óviðunandi við umrætt frv., svo ekki sé talað um aðdraganda málsins.

Við höfum margoft kallað eftir því í umræðunni á undanförnum dögum að nú reyni á Framsfl. Bjartsýnustu menn, bæði úti í samfélaginu og hér á þingi trúðu því ekki fyrr en á reyndi að Framsfl. léti hafa sig í þessa hefndarför Sjálfstfl. Það virðist hins vegar ætla að verða raunin að þeir láti teyma sig alla leið. Það kom fram í fréttum í kvöld að að lokum viðurkenndi formaður Framsfl. að einhver átök hefðu átt sér stað innan flokksins. Þar hefur allt vægast sagt logað undanfarna daga ef marka má orð og ályktanir, t.d. forustu Framsfl. í Reykjavík, Alfreðs Þorsteinssonar borgarfulltrúa og ályktanir frá Sambandi ungra framsóknarmanna og fjölda annarra framsóknarfélaga úti á landi, í Mýrasýslu, Bolungarvík og víðar. Flest þeirra harma efni frv. og skora á flokkinn og forustu hans að draga það til baka. En allt er falt fyrir 15. september. Stóllinn er dýr, alveg rándýr. Þetta er verðið sem Framsfl. ætlar að borga fyrir forsætisráðherrastólinn 15. september, þ.e. vega að mannréttindaákvæðum í stjórnarskránni, vega að tjáningarfrelsinu og hefta prentfrelsið í fyrsta sinn í Íslandssögunni. Einstökum aðilum er bannað að eiga og reka prentmiðla, eins og bannið við krossmiðlun í frv. felur í sér og ekkert annað. Þær skorður sem reistar eru gera frv. einfaldlega grímulaust áhlaup á fyrirtækið Norðurljós til að ná fram hefndum á eigendum Baugs og brjóta fyrirtækið á bak aftur. Allt þetta ætlar Framsfl. að láta yfir sig ganga.

Ég kom í ræðustól fyrr í dag, fyrir um 10--12 klukkustundum, og óskaði sérstaklega eftir því að varaformaður Framsfl., hæstv. ráðherra Guðni Ágústsson, léti í sér heyra. Hann hefur ekki sagt eitt aukatekið orð í umræðunni frekar en varaformaður Sjálfstfl., Geir H. Haarde. Krónprinsarnir tveir hafa þagað þunnu hljóði í gegnum þessa umræðu. Það hlýtur að vekja með öllum sem um málið hugsa efasemdir um að eining sé um málið í stjórnarflokkunum. Menn ætla að láta sig hafa þetta enda um svanasöng forsrh. í pólitík að ræða. Ég kallaði eftir viðbrögðum varaformanna flokkanna við málinu í dag, ásamt fleiri hv. þingmönnum. En þeir tóku til fótanna. Það sást undir skósóla hæstv. landbrh. og hann hefur ekki sést í húsinu síðan. Það getur vel verið að hann sé frammi í eldhúsi eða einhvers staðar í húsinu. Sé nokkur leið til að fá hæstv. ráðherrann til að koma í sal og gera grein fyrir viðhorfum sínum, sem varaformaður Framsfl. og ráðherra í hæstv. ríkisstjórn, þá óska ég þess. Ég fer þess á leit við virðulegan forseta að hann láti athuga hvernig stendur á hjá hæstv. landbrh., hvort hann sé nálægt og geti komið og rætt málið við okkur. Öllum var ljóst fyrir löngu að fundur stæði fram eftir kvöldi og þingmönnum ber að vera viðstaddir þingfundi eða í nálægð við þá nema að um lögmæt forföll sé að ræða. Það getur vel verið að hæstv. landbh. hafi lögmæt forföll. Hann var í fatla, búinn að vera í honum í marga daga og virtist vera kvalinn.

(Forseti (BÁ): Forseti vill af þessu tilefni geta þess að landbrh. eins og öðrum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum er kunnugt um að þessi umræða fer fram.)

Ég þakka kærlega fyrir, virðulegi forseti. Það gleður mig að heyra það. Þá hlýtur skýringin að vera sú að hæstv. landbrh. sé það kvalinn af handarmeini sínu að hann hafi þurft að leggjast til hvílu eða leita sér lækninga. Ég ætla að nota þetta tækifæri og óska honum góðs bata. Ég vona að síðar við umræðuna geti hann gert skörulega grein fyrir skoðunum sínum á þessu máli eins og hann er þekktur fyrir að gera. Hann er ekki þekktur fyrir að liggja á liði sínu þegar kemur að umræðum um ýmis mál, hvort sem er á mannamótum, þorrablótum eða á þingi. Við skulum bara vona að honum heilsist vel, að hann nái sér á strik og geti gert þingheimi grein fyrir því hvernig mál standa. Í fréttum í kvöld kom reyndar fram að hann viðurkenndi að átök væru um málið í Framsfl. og ólga. Við höfum flest orðið vör við það og í sjálfu sér er gleðilegt að heyra að sú taug sé til staðar í Framsfl.

En það hefði verið prýðilegt að fá til umræðunnar forustumenn Framsfl., sérstaklega hæstv. landbrh., varaformann flokksins og þann sem flestir líta til sem arftaka Halldórs Ásgrímssonar í stóli formanns Framsfl. þótt um það hafi verið skrifaðar fréttir í blöðum að gefið hafi verið sérstakt skotleyfi á landbrh. Á það legg ég hins vegar engan trúnað. Ég hef enga trú á öðru en hæstv. ráðherra standi sterkur í flokknum, enda var hann kosinn með 65% atkvæða á landsfundi flokksins. Ég óska því sérstaklega eftir að þessi sterki stjórnmálamaður sem mun erfa landið í Framsfl., ef að líkum lætur, komi og gerði þingheimi grein fyrir viðhorfum sínum. Ef hann er heima að horfa á sjónvarpið, kvalinn í öxlinni með höndina í fatla, þá skora ég á hann, eigi hann þess einhvern kost, að bruna í bæinn og koma til fundar við okkur. Það eru fleiri á mælendaskrá eftir mér og allar líkur á að þingfundur standi fram eftir öllu og haldi áfram þar eftir eða gert verði hlé á honum. Ég ætla að skora á ráðherra að verða við þessari eindregnu ósk minni, enda met ég hann mikils. Það mundi skýra ýmislegt fyrir mér ef ég fengi kost á að heyra viðhorf ráðherrans. Það mundi skýra fyrir mér hvað gerði það að verkum að Framsfl. lét dragast út í hefndarför hæstv. forsrh. sem miðar að því að koma fram hefndum á eigendum Baugs þótt það kosti atvinnumissi margra, að fyrirtæki verði knésett, að vegið verði að mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar o.s.frv.

[22:45]

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Kannski gefst mér síðar tóm til að koma upp. Ég kom inn á það í upphafi máls míns að til að styðja mál mitt sígildum rökum hef ég leitað í smiðju Johns Stuarts Mills heimspekings. Ég hef rakið þau rök sem hann færði á sínum tíma fyrir því að ekkert mætti verða til að hefta tjáningarfrelsið, prentfrelsið. Hann taldi tjáningarfrelsið heilagt öllum mönnum og ekkert mætti verða til að skerða það enda er frv. sem hér liggur frammi eingöngu til þess að skerða það frelsi. Það er verið að banna svokallaða krossmiðlun. Þetta er ekkert annað en bann, tilteknum aðilum er bannað að eiga prentmiðil og reka. Ég hef í undanförnum ræðum farið yfir þá kafla sem ég taldi brýnast að kæmu í þingsköp og brýnast að áheyrendur fengju að njóta við þessar umræður án þess að verða sakaður um að teppa stólinn tímunum saman við lestur. Ég hef skipt þessu upp í nokkrar ræður og lesið í þeim valda kafla, enda höfuðkostur á góðu námsefni að velja bitastæðustu hlutana úr og draga þá fram þannig að efnið skili sér sem best. Með leyfi forseta ætla ég að koma inn á einn af lokaköflunum, á bls. 107. Þar skrifar John Stuart Mill fyrir 149 árum:

,,Áður en ég skil við skoðanafrelsið, er rétt að víkja orði að þeim mönnum, sem telja skoðanafrelsið sjálfsagt með því skilyrði, að menn hagi orðum sínum hófsamlega og gæti allrar sanngirni. Margt mætti segja til að sýna, hve ókleift er að setja hófsemi og sanngirni mörk. Ef prófsteinn er sá, að maður hneyksli þann, sem andmælt er, hygg ég, að reynslan sýni, að menn hneykslist ávallt þegar árásin er snörp og snjöll. Og sérhver andstæðingur, sem hefur ríka tilfinningu fyrir efninu og fylgir skoðun sinni svo fast eftir, að erfitt verður um svör, virðist hóflaus í augum viðmælanda síns. En þótt þetta skipti miklu frá raunhæfu sjónarmiði, þá hverfur það inn í aðra mótbáru og mikilvægari. Sá háttur, sem menn hafa á að halda fram skoðun sinni, getur vitaskuld verið ámælisverður, enda þótt skoðunin sé rétt. Aðferðin ein getur verið með afbrigðum vítaverð. En flestar yfirsjónir manna af þessu tæi er ókleift að sanna á þá, nema sá, sem í hlut á, komi óviljandi upp um sjálfa sig.``

Velta mætti því fyrir sér, virðulegi forseti, hvort hæstv. forsrh. hafi viljandi eða óviljandi komið upp um sjálfan sig. Varla hefði nokkurn mann órað fyrir því þegar frv. kom fram hve augljóslega það var sniðið að því að eyðileggja eitt tiltekið fyrirtæki og hve augljóslega það mundi vega að mannréttindum Íslendinga og tjáningarfrelsinu. En áfram segir John Stuart Mill, með leyfi forseta:

,,Alvarlegustu yfirsjónir af þessu tæi eru: að beita hártogunum, að dylja málsatvik eða rök, að villa mönnum sjónir um eðli ágreiningsins, að afbaka skoðun andstæðingsins. En allt þetta, jafnvel í verstu mynd, er sýknt og heilagt gert í góðri trú af mönnum, sem hvorki eru álitnir né eiga að öðru leyti skilið að vera álitnir fáfróðir eða ómerkir orða sinna. Af þessum sökum er sjaldan unnt að telja slíkt athæfi siðferðilegt fordæmanlegt á nægum forsendum. Enn síður er unnt að gera slíka misnotkun málfrelsis refsiverða að lögum. Bann við hóflausum málflutningi, sem kallaður er, skömmum, skætingi, rógi og þvílíku, ætti meiri samúð skilið, ef báðir málsaðilar væru beittir því að jöfnu. En menn vilja einungis koma í veg fyrir, að slíkum vopnum sé beitt gegn ríkjandi skoðunum. Gegn nýjum skoðunum og óvinsælum þykir ekki einungis vítalaust, að þeim sé beitt, heldur er þeim, sem það gerir, einatt hrósað fyrir ærlegan áhuga og réttláta reiði. Slík vopn valda mestu tjóni, þegar þeim er beitt gegn tiltölulega varnarlausum skoðunum. Og illa fenginn ávinningur af slíkum vopnaburði fellur oftast í hlut ríkjandi skoðunar. Hin versta þessara misgerða sem menn gera sig seka um í deilum, er að brennimerkja andstæðinga sína sem vonda menn og siðspillta. Þeir, sem halda fram einhverri óvinsælli skoðun, eru í mestri hættu fyrir slíkum ásökunum. Þeir eru oftast fáir og áhrifalitlir, og aðrir láta sig litlu skipta, hvort þeir njóta réttlætis. En eðli málsins samkvæmt geta andstæðingar ríkjandi skoðunar ekki beitt slíkum vopnum án þess að stofna sjálfum sér í hættu. Og málstaður þeirra hefði illt eitt af. Yfirleitt hljóta andstæðingar almenningsálitsins því aðeins áheyrn að þeir hagi orðum sínum af hnitmiðaðri hófsemi og varast til hins ýtrasta að styggja aðra með orðum sínum að nauðsynjalausu. Frá þessu geta þeir varla vikið án þess að skaða eigin málstað. Á hinn bóginn geta hóflausar svívirðingar talsmanna ríkjandi skoðana í rauninni hrætt fólk frá því að játa andstæðar skoðanir eða hlýða á þá, sem halda þeim fram. Sannleikanum og réttlætinu er því miklu mikilvægara, að komið sé í veg fyrir slíkar svívirðingar en hinar fyrrnefndu. Og ættu menn t.d. aðeins tveggja kosta völ, riði miklu meira á að verja trúleysið gegn svívirðilegum árásum en trúna. Hins vegar er augljóst að í þessum efnum eiga hvorki þing né stjórn að hafa nein afskipti. Almenningsálitinu ber hins vegar að bregðast við með ólíkum hætti eftir atvikum. Án tillits til málstaðar ber því að fordæma hvern þann mann, sem í málflutningi sýnir óhreinskilni, illvilja, yfirdrepsskap eða ofstæki. En um þessa lesti má ekki kenna þeirri afstöðu, sem maðurinn tekur, jafnvel þótt hún sé andstæð okkar afstöðu. En sá maður á heiður skilinn, hver sem málstaður hans er, sem hefur stillingu til að átta sig á og ráðvendni til að skýra frá skoðunum andstæðinga sinna án þess að ýkja neitt það, sem þeim er í óhag, né draga neinar dulur á það, sem er eða ætla má þeim til málsbóta. Þetta er hin sanna siðfræði opinbers málflutnings. Oft brjóta menn gegn henni en hitt gleður mig að margir menn sem eiga í opinberum deilum hlíta henni eftir megni og enn fleiri gera sér samviskulegt far um það.``

Þar með lýkur þessum kafla. Mikil er spekin. Hún rammar inn ríkjandi ástand og þá aðför sem nú er gerð á Íslandi árið 2004 að málfrelsinu, tjáningarfrelsinu, prentfrelsinu. Hér er um að ræða aðför að einstöku fyrirtæki, fráhvarf stjórnvalda frá almennum lagasetningum. Ætlunin er að setja sértæk blygðunarlaus lög sem miða sérstaklega að því að rústa einu fyrirtæki. Þetta erum við að upplifa, virðulegi forseti. Trúi því hver sem vill. Þjóðin hefur hins vegar gert sér grein fyrir þessu. Fróðlegt verður að fylgjast með því á næstu mánuðum hvernig umræðunni í samfélaginu reiðir fram. En samkvæmt skoðanakönnunum sem fram hafa komið síðustu daga og vikur er yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar eindregið á móti frv. Sú afstaða virðist einungis styrkjast og þeim fjölga sem frv. eru andvígir.

Fylgið hefur bókstaflega hrunið af stjórnarflokkunum ef eitthvað er að marka síðustu skoðanakannanir. Miðað við fréttir af komandi könnunum virðast þeir ekki ríða feitum hesti frá umræðunni. Þegar menn eru vanir því, ár eftir ár og áratug eftir áratug, að komast upp með hvað sem er á pólitíska sviðinu þá blindar það sjálfsagt sýn. Við verðum að virða það forustumönnum Sjálfstfl. til vorkunnar að vald spillir og mikið vald gerspillir. Í þessu tilfelli blindar valdið augljóslega sýn. Hæstv. forsrh. hefur klárlega ekki sést fyrir í þessari umræðu og hefði enginn trúað því þegar fyrstu fregnir bárust af tilvonandi frv. til laga um eignarhald á fjölmiðlum að svo færi sem fram hefur undið. Umræðan hefur verið með þvílíkum ólíkindum. Harkan hefur verið slík og hundarnir á hliðarlínunum gjammað og gelt. Upp úr þeim hefur ollið rógburður og viðbjóður. Við verðum að strika yfir það og missa ekki sjónar af kjarna málsins.

Hér er um aðför að ræða að einu einstöku fyrirtæki. Við verðum að verja málfrelsið og prentfrelsið. Þess vegna hefur þessi umræða staðið síðustu daga enda er hún eina vörn okkar lýðræðissinna á þingi og í samfélaginu. Við höldum uppi málsvörn fyrir mannréttindi á Íslandi og höfum gert það af kostgæfni þann knappa tíma sem okkur hefur verið gefinn. Umræðan hefur tekið töluverðan tíma og sér ekki fyrir endann á henni enn eða hvernig málinu muni fram vinda á næstu vikum.

Hér hafa verið fluttar fróðlegar ræður. Enn einn daginn hefur þessi umræða staðið yfir. Nú síðast opnaði einn stjórnarliðinn sig. Hv. þm. Gunnar Birgisson, formaður menntmn., galopnaði sig. Eftir að hafa hlýtt á mál hans var engum blöðum um það að fletta að um væri að ræða frv. sem miðaði að því að eyðileggja Norðurljós og til að ritskoða. Þetta eru ritskoðaðrar, meiri hlutinn á Alþingi eru ritskoðarar. Þeir víla ekki fyrir sér að setja málfrelsinu skorður til að ritskoða, af því að einhver blöð sem koma út á Íslandi eru þeim ekki þóknanleg. Þau skrifa ekki nógu fallega að þeirra mati um leiðtogann, um sólina miklu. Þess vegna á að banna miðlana og brjóta þá einhvern veginn á bak aftur. Fyrst héldu þeir að enginn mundi fatta að hér væri um að ræða höft á málfrelsi og prentfrelsi, að enginn áttaði sig á því að hér væri verið að ritskoða. En það er verið að ritskoða á Íslandi í dag árið 2004.

Með þessu lagafrv. eru mannréttindi skert. Einhver orðaði það svo ágætlega í umræðunni, að mig minnir hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, að lýðræðið væri síbreytilegt, það gæti batnað og það gæti versnað. Í dag horfum við fram á, löngu eftir að við héldum að lýðræðið væri einfaldlega til staðar og gæti kannski ekki annað en batnað, að lýðræðið er að versna með þessu frv. Það er vegið að lýðræðislegri umræðu í landinu. Þessi umræða hefur staðið yfir af því að okkar einu vopn eru rökin. Við höfum séð í hvaða stöðu rökþrota stjórnmálamenn lenda. Þá beita þeir meðulum undirmálsmanna sem eiga ekki erindi inn í þessa umræðu. Við höfum haldið uppi málefnalegri umræðu um afstöðu okkar í þessu máli. Hér hefur farið fram efnisleg umræða, að sjálfsögðu einnig um aðdraganda málsins enda er hann með þeim ólíkindum að ég efast um að til sé annar eins málatilbúnað í allri íslenskri stjórnmálasögu. Þau meðöl sem sumir sjálfstæðismenn hafa beitt í þessari umræðu eiga sér varla samjöfnuð í stjórnmálasögu Vesturlanda á síðustu árum og áratugum. Um það er ég sannfærður. Svo lágt hafa hinir rökþrota menn lagst að ömurlegt er að fylgjast með.

En við látum það ekki á okkur fá. Við látum ekki slá okkur út af laginu. Höldum uppi málefnalegri umræðu um innihald málsins og styðjum rökum úr ýmsum áttum enda málið þess eðlis. En áður en ég lýk máli mínu og hleypi að næsta ræðumanni til að við fáum vegið og metið fleiri rök í þessari umræðu. Ég ætla að enda á að vitna í orð Johns Stuarts Mills sem rituð voru 149 árum úti í Bretlandi. Ég vil gera þau orð að mínum orðum, með leyfi forseta:

,,Sú tíð er vonandi liðin, að verja þurfti prentfrelsið með ráðum og dáð sem eina helstu tryggingu gegn spilltri og ofríkisfullri landsstjórn. Nú verður að ætla, að óþarft sé að ráðast með rökum gegn þingi eða stjórn, sem á aðra hagsmuni í húfi en þegnarnir, skipar þeim fyrir um skoðanir og ákveður, hvaða kenningar og rökræður þeir megi heyra. Að auki hafa fyrri höfundar rætt þessa hlið málsins svo oft og með svo ágætum árangri, að ástæðulaust er að fjölyrða um hana á þessum stað. Að vísu eru prentfrelsisákvæði enskra laga enn jafnströng ... En lítil hætta er á, að þeim verði beitt gegn ágreiningsmönnum um þjóðmál, nema þá í stundarofboði ...``

Hér ríkir stundarofboð, virðulegi forseti. Verði frv. að lögum mun það verða skömm fyrir íslenska þjóð. Nái þetta frv. fram að ganga mun lengi lifa með íslensku þjóðinni sá smánar- og skammarblettur. Hann verður svo stór á stjórnarflokkunum, Sjálfstfl. og Framsfl., að um eilífð mun lifa, virðulegi forseti. Þetta hefur verið dæmalaus atburðarás og dramatísk. Það er hreint ótrúlegt að fylgjast með til hvaða bragða stjórnarliðar hafa gripið í þessari umræðu til að reyna að verjast, orðnir rökþrota.