Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 23:39:22 (8792)

2004-05-21 23:39:22# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[23:39]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem verið hefur við þessa umræðu að ráðherrabekkirnir hafa verið alveg tómir. Sennilega hafa ekki nema einn eða í mesta lagi tveir stjórnarliðar tekið þátt í þessari umræðu. Okkur er nokkur vandi á höndum, okkur sem viljum eiga skoðanaskipti við ráðherrana og stjórnarliða um þetta mál. Þeir þora greinilega ekki að vera í salnum og ræða við okkur. Ég vil minna á að í fyrri ræðu minni í dag óskaði ég eftir því að fá að ræða við hæstv. fjmrh. sem hefur minnst sagt í umræðunni um þetta makalausa mál. Hann hefur hvorki talað við 1., 2. né 3. umr. þannig að við vitum lítið um hans skoðanir. Ég ætlaði að ræða við hæstv. fjmrh. um þá skaðabótakröfu sem hefur verið boðuð á hendur ríkinu ef þetta frv. nær fram að ganga. Ég óskaði líka eftir að fá að ræða við hæstv. viðskrh. sem hefur ekki frekar en fjmrh. tekið þátt í þessari umræðu, hvorki við 1., 2. né 3. umr. Ég held að ég fari rétt með það. Ég vil gjarnan ræða við hæstv. viðskrh., sem fer með málefni atvinnulífsins og viðskipta, ekki síst þar sem meiningin með þessu frv. hefur berlega komið í ljós, að knésetja eitt ákveðið fyrirtæki.

Mér er nokkur vandi á höndum, virðulegi forseti. Ég á eftir seinni ræðu mína og hef ekki enn farið á mælendaskrá. Ég hef beðið þolinmóð eftir því að ráðherrar létu sjá sig í húsinu. Ég ætlaði ekki að fara á mælendaskrá fyrr en ég væri örugg um að þeir yrðu við þessa umræðu og gætu svarað fyrirspurnum mínum. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort von sé á þessum tveimur ráðherrum í húsið á þessari nóttu. Ef svo er ekki þá óska ég eftir því að þessari umræðu verði frestað til morguns þannig að ég hafi tök á því í lokaræðu minni að ræða við áðurnefnda hæstv. ráðherra.

Það er jafnframt mjög ankannalegt að formaður allshn. skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera viðstaddur lokaumræðu um þetta frv. Það er eins með alla stjórnarliða og ráðherra, allt á sömu bókina lært. Þeir vilja ekki láta sjá sig í þessum sal undir þessari umræðu enda er það ekkert skrýtið. Þeir skammast sín fyrir þetta óbermi sem þeir eru að koma í gegnum þingið, sem tveir forustumenn stjórnarflokkanna ætla að koma í gegn með tilskipunum. Þeirra stíll er að beita bara tilskipunum um hverju þeir vilji ná fram á þinginu og allir stjórnarliðar virðast ætla að dröslast með. Aðeins einn þm. Framsfl. stendur í lappirnar í því efni.

Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hverju ég megi eiga von á. Ég vil varla eyða síðasta tækifæri mínu til að ræða þetta mál með ráðherrabekkina tóma áfram.