Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 23:46:13 (8794)

2004-05-21 23:46:13# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[23:46]

Björgvin G. Sigurðsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að ræða örlítið um fundarstjórn forseta og framvindu þessa þingfundar sem hefur staðið síðan í morgun. Enn einn dagurinn er liðinn í umræðunni um þetta dæmalausa mál sem við stjórnarandstæðingar teljum áhlaup á ákveðið fyrirtæki í landinu, Norðurljós, og aðför að flestum mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Vegið er að tjáningarfrelsi Íslendinga og prentfrelsinu reistar skorður í fyrsta sinn í Íslandssögunni. Ekki þarf dramatískari lýsingu til að skýra hve mikilvægt mál er á ferðinni. Það er ekkert að því að menn ræði það frá morgni til miðnættis og noti hverja vökustund til að skoða röksemdirnar í þessu máli og vegast á með rökum, stjórnarandstaða og stjórn, þó að lítið hafi farið fyrir stjórnarliðunum í umræðunni þennan daginn. Þeir tóku flestir til fótanna út úr húsinu eftir að þingfundur var settur.

Herra forseti. Ég ætla að fram á að forseti fresti þessum fundi. Í ræðu minni fyrir þremur korterum óskaði ég sérstaklega eftir því að hæstv. landbrh. yrði kallaður til leiks. Ég tók það fram að ég vissi að hann væri með aðra hönd í fatla og hefði verið kvalinn í dag. Ég sá það á svipnum á honum. Ég þekki hann orðið ágætlega og gerði mér grein fyrir því að hann var ekki alveg upp á sitt allra besta. Hann var samt hér fram eftir degi og hefur verið síðustu daga. Hann virtist samt með munninn fyrir neðan nefið og fær um að tjá sig með sínum skörulega hætti. Ég óskaði einnig sérstaklega eftir því fyrr í dag, í andsvari um tvöleytið í dag, að í sal yrðu kallaðir hæstv. ráðherrar Geir H. Haarde og Guðni Ágústsson, landbrh. og fjmrh., varaformenn stjórnarflokkanna. Það væri gott að viðstaddir umræðuna væru þeir lykilmenn í stjórnmálalífi okkar Íslendinga, krónprinsar stjórnarflokkanna. Menn sem sitja við skör meistaranna (ÖS: Hvers á þá Árni Magnússon að gjalda?) --- að ég tali ekki um slíka stjórnmálaskörunga. Ég vildi eiga orðastað við þessa tvo hæstv. ráðherra. Ég óska eftir því að virðulegur forseti fresti fundi nema þessir menn komi í salinn og gefi okkur færi á að ræða við þá. Það mætti halda áfram umræðu í fyrramálið. Við erum margir sem eigum eftir seinni ræðuna við 3. umr. þar sem við munum halda áfram að færa rök fyrir því að mannréttindum Íslendinga séu reistar skorður. Við munum gera grein fyrir því hve augljóslega hæstv. forsrh. leiðir ríkisstjórn sína í áhlaup á eitt tiltekið fyrirtæki. Ég fer því fram á það, virðulegi forseti, að forseti fresti fundi og haldi honum áfram í fyrramálið þegar stórmennin eru komin í hús.