Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 23:49:33 (8795)

2004-05-21 23:49:33# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[23:49]

Guðjón A. Kristjánsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir skynsamleg tilmæli hv. þingmanna sem hér hafa komið fram, að þessum fundi verði frestað og við höldum áfram að ræða málið á fundi á morgun. Að vísu er boðaður fundur í landbn. kl. 9. Ég vænti þess að hér verði ekki boðaður fundur í hv. þingi fyrr en að honum loknum. Ég veit ekki nákvæmlega hversu langan tíma hann tekur en þar komu upp nokkurt álitamál á fundi í morgun og afgreiðslu málsins frestað.

Ég veit ekki betur, hæstv. forseti, en fundur hafi staðið fram undir 11 í gærkvöldi. Það hefur því verið verulegt vinnuálag á þingmönnum þessa vikuna. Forseti ætti ekki að þurfa að kvarta undan því að hér hafi ekki verið skilað rúmlegum vinnustundafjölda venjulegrar viku og umræðum hafi ekki miðað fram. Hins vegar verð ég að segja, hæstv. forseti, að stjórnarliðar hefðu gjarnan mátt vera meira í salnum og upplýsa okkur um afstöðu sína. Það var t.d. merkilegt að hlusta á ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar í kvöld. Það var í raun afar merkilegt miðað við þær fáu ræður sem stjórnarliðar höfðu flutt þar á undan.

Ég vil þess vegna ítreka tilmæli mín til forseta um að nú, þegar klukkuna vantar átta mínútur í miðnætti á þessum föstudegi, fari forseti að láta okkur vita hvernig hann hyggst stýra þessum fundi og hvort ekki hafi nóg verið unnið í dag. Það væri öllum að skaðlausu að hefja aftur umræður um málið á morgun. Við sjáum ekkert eftir því, hv. þingmenn, að vinna þetta mál á eðlilegum vinnutíma. Þó að á morgun sé laugardagur göngum við auðvitað til verka með eðlilegum hætti. En þetta vinnulag, að keyra alltaf langt fram undir miðnætti kvöld eftir kvöld finnst mér ekki sérstaklega virðingarvert. Við höfum lög í þessu landi, um vinnutíma fólks, sem ég vona að hæstv. forseti, löglærður maður, þekki mjög gaumgæfilega. Ég hafði fyrir nokkru orð á því að rétt væri að benda á að við höfum þessi lög. Ég veit ekki til þess að við þingmenn séum undanskildir lögum.