Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 23:56:12 (8797)

2004-05-21 23:56:12# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[23:56]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér er umhugað um velferð og heilsu allra þeirra sem starfa á hinu háa þingi. Satt að segja verð ég að gera það uppskátt að á þessu kvöldi hef ég nokkrar áhyggjur af heilsufari sjálfstæðismanna. Ég hef nánast engan þeirra séð hér, ef frá er talinn hinn vaski Vestfirðingur, formaður þingflokksins, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Að sjálfsögðu höfum við hér einnig virðulegan forseta. Aðrir þingmenn úr röðum Sjálfstfl. sem ég hef séð skjótast um ganga hafa verið toginleitir og vökubleikir. Ég verð að trúa hæstv. forseta fyrir því að mér er með svipuðum hætti farið. Ég hef eins og aðrir þingmenn lagt mitt til þessara mála með því að hlýða á mál manna. Ég á enn þá eftir að flytja ræður mínar tvær við þessa umræðu og hyggst gera það á morgun ef hæstv. forseti sér sér fært að fresta þessum fundi.

Ég tel, herra forseti, að hvað sem mönnum finnst til um mál okkar sem höfum verið að andæfa frv. þá erum við einungis að notfæra okkur þann rétt sem er helgur samkvæmt stjórnarskránni, að fá að tala og viðra skoðanir okkar. Sem betur fer er málum ekki svo komið að búið sé að setja múl á þingmenn. Mér finnst þess vegna ekki ofætlan að undir þessum umræðum, og eftir atvikum til andsvara, séu þeir menn úr liði stjórnarinnar sem hafa forræði málsins með höndum.

Það er auðvelt að færa rök að því að hér ætti sá maður að vera til staðar sem ábyrgð ber á frv. og flytur það, hæstv. forsrh. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur í dag ítrekað vísað til þess að hún hafi tilteknar spurningar að leggja fyrir hæstv. fjmrh. Hvar er hann? Hann hefur reyndar ekki mikið sést í þessari umræðu. Maður hefur áleitinn og rökstuddan grun um að hæstv. fjmrh. sé á móti þessu frv. Frá honum hefur ekki komið nein önnur afstaða svo nokkru nemi sem ber vott um annað. Hins vegar, herra forseti, hefur það aldrei gerst, held ég, að formaður þeirrar þingnefndar sem leggur málið fram í þeim búningi sem það er rætt sé ekki til staðar. Það er fullkomlega eðlileg krafa af okkar hálfu að óska eftir því að fundi verði frestað til að hafa megi upp á hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni allshn., svo hann geti komið og hlustað á mál okkar og eftir atvikum svarað þeim spurningum sem til hans er beint.

Herra forseti. Vegna þess að við í stjórnarandstöðunni erum sanngjarnt fólk vil ég geta þess að nú þegar er búið að boða fund á þinginu á morgun. Það er ljóst að það verður þingdagur á morgun. Þess vegna mælist ég til þess að þessum fundi verði frestað þangað til. Ég vísa til þess (Forseti hringir.) að hér talar þingmaður sem væntanlega þarf að fara toginleitur og vökubleikur eins og sjálfstæðismaður til fundar í landbn. árla og hefur ekki nema takmarkað þrek.

(Forseti (BÁ): Og takmarkaðan ræðutíma.)