2004-05-22 00:03:04# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[24:03]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Í tilefni af fjarveru nokkurra lykilþingmanna í kvöld, að ég held við þessa umræðu mestalla, vil ég segja það að mér er nokkuð hugleikin 53. gr. þingskapa. 1. mgr. hennar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um fyrirspurnafundi.``

Nú er mér ljóst að ekki er um fyrirspurnafund að ræða. Mér er líka ljóst að þessari grein er ekki fylgt til hins ýtrasta. Þar kann að vera um nokkurs konar venju að ræða sem við áttum okkur ekki á sem erum nýliðar á þingi en þessi þingsköp eru frá 1993. Mér er ekki kunnugt um það hvort ákvæðið stóð þar áður eða ekki. Ætli ákvæðið hafi verið sett inn árið 1993 eða haldið inni til að tryggt væri að alþingismenn mættu í vinnuna? Ég hygg að ég geti svarað því til að svo sé ekki, að meiningin með þessu ákvæði væri ekki að vera ætti einhvers konar stimpilklukka til að öruggt væri að þingmenn gegndu þingskyldum sínum, skyldum sínum við kjósendur og þjóðina alla. Ég hygg að þetta ákvæði hafi verið sett inn í þingsköpin til að tryggja að hér færi fram sú samræða sem þinginu er ætlað og skylt að hafa um þau mál sem hér koma til umfjöllunar, hvort sem þau koma frá hæstv. ríkisstjórn eða frá hv. þingmönnum sem hér sitja.

Ljóst er að þetta ákvæði er ekki jafnvirkt og flest önnur ákvæði þingskapanna. Ég vil spyrja forseta, að gefnu tilefni, hvort ekki megi a.m.k. álykta sem svo að þetta ákvæði sé að því leyti í gildi að þeim sem bera fram mál á þinginu og hvetja þar með til umræðu, hvetja hv. þingmenn til að samþykkja málið, sé skylt að vera við umræðuna. Má ekki túlka 53. gr. þingskapa þannig að hér eigi að vera, ef ekki forsrh. sjálfur eða menntmrh., en þetta mál er á sviði hans, eða viðskrh. og iðnrh., sem kemur þetta mál við sem forsvarsmaður þeirrar atvinnugreinar sem um er að ræða, a.m.k. garmurinn Ketill, hv. þm. Bjarni Benediktsson sem hefur verið fjarverandi í dag, formaður allshn.? Hverju sætir það? Hvernig á að túlka þessa 53. gr. og þingsköp öðruvísi en að hér eigi að fara fram umræða á þinginu og menn eigi að standa fyrir þeim málum sem þeir leggja fram?