2004-05-22 00:12:51# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[24:12]

Björgvin G. Sigurðsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi nokkuð heyrt frá hæstv. landbrh., varaformanni Framsfl. Ekkert? (LB: Hefur hæstv. forseti reynt að ná í hann?) Það er mjög áríðandi að ég nái tali af honum í þessari umræðu. Ég hef mjög mikilvæga spurningu fram að færa til hæstv. landbrh. Ef virðulegur forseti vill ekki verða við þeirri ósk okkar að fresta fundi þegar í stað eða eftir einhverjar mínútur og halda umræðunni áfram í fyrramálið, þegar hæstv. ráðherrar og formenn nefnda sem óskað er eftir eru komnir í hús, þá á ég mjög erfitt með að halda áfram umræðunni án þess að fá svör við ákveðinni spurningu sem ég þarf að leggja fyrir hv. varaformann Framsfl. Margir hafa reitt sig á að hann væri afl skynsemi og réttlætis innan Framsfl. árum saman, ekki síst hina síðustu og verstu daga. Framsfl. hefur komið fyrir sjónir sem skoðanalaus taglhnýtingur Sjálfstfl. sem hefur selt sálu sína og æru fyrir 15. september og stólinn í haust.

Herra forseti. Ef forseti treystir sér ekki til að reyna að hafa upp á hæstv. landbrh. og varaformanni Framsfl. þá verð ég eiginlega að biðja virðulegan forseta að koma því einhvern veginn til hans sem ég ætlaði að fá fram hjá honum þannig að ráðherrann geti jafnvel faxað svar til baka. Ég veit ekki hvort hann notar tölvupóst. Það hefur aldrei komið almennilega fram. Ég las einhvern tíma að það væri ekki tölva á skrifstofunni hans en það getur vel verið að hann sé með tölvu heima. En forseti gæti faxað eða hringt inn og látið einhvern skrifa hjá sér svarið. Spurningin lýtur að ályktun sem samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur fyrir 2--3 dögum þar sem Framsfl. er í meirihlutasamstarfi innan Reykjavíkurlistans með Samf. og Vinstri grænum. Þar var samþykkt mjög harðorð ályktun. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Nægir að nefna að tvö til þrjú þúsund einstaklingar starfa við fjölmiðla og þar með eiga jafnmargar fjölskyldur lífsafkomu sína að hluta eða heild undir blómlegum rekstri þeirra. Gera verður þá kröfu að aðgerðir ríkisstjórnarinnar stofni ekki rekstri fjölmiðlafyrirtækja og atvinnuöryggi starfsfólks í hættu nema brýna nauðsyn beri til og ljóst sé að mildari úrræði nái ekki sömu markmiðum.``

Ég ætlaði, herra forseti, að spyrja hæstv. landbrh. og varaformann Framsfl. að því hvort hann teldi ekki að þessi ályktun borgarráðs, þar sem Framsfl. er í lykilhlutverki innan borgarstjórnar og hefur gengið mjög harkalega fram fyrir skjöldu í að vara við þessu frv., gæfi tilefni til að staldra við. Telur hann ekki að vegna þessara varúðarorða og eindregnu ályktunar borgarstjórnar Reykjavíkur þá verði einfaldlega að segja staðar numið, stoppa málið, taka það út úr þinginu og taka upp síðar. Ég ætla að biðja virðulegan forseta að koma þessari spurningu til varaformanns Framsfl. svo ég geti annaðhvort hringt í hann seinna í nótt eða fengið svarið í fyrramálið.