2004-05-22 00:23:13# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[24:23]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Í þessu máli öllu höfum við stjórnarandstæðingar og raunar ýmsir þingmenn stjórnarliðsins líka gagnrýnt málatilbúnað og málsmeðferð leynt og ljóst. Sú gagnrýni var eðlilega mjög hávær þegar í ljós kom að þeirri skýrslu sem átti að standa undir þessu máli var haldið leyndri í margar vikur, haldið í menntmrn. og öðrum ráðuneytum og sögð vinnugagn fyrir ríkisstjórnina.

Hæstv. forsrh. fullyrti í þessum sal úr þessum stól að hún hefði verið unnin af nefnd á vegum stjórnarflokkanna, þannig að ég fari orðrétt með. Það þótti lögfræðingum og stjórnskipunaráhugamönnum sérstaklega merkileg umsögn vegna þess að áður hafði það ekki frést að stjórnarflokkarnir gegndu sérstöku hlutverki í stjórnskipun landsins öðru en því að vera stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar á þingi. Það hefur raunar ekki enn fengist upplýst hvort stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., borguðu fyrir störf þessara nefndarmanna eða hvort þeir komu þessum launagreiðslum yfir á ríkissjóð eða almenning í landinu. Leyndin var auðvitað fullkomlega óeðlileg. Auðvitað var þetta ekki nefnd stjórnarflokkanna heldur nefnd á vegum menntmrh., sem menntmrh. hafði skipað, sem vann að forminu til í þágu almennings. Almenningur og fulltrúar hans þingmenn áttu rétt á að fá þessa skýrslu undir eins en svo var ekki. Hún var ekki birt fyrr en um leið og kynnt var frv. sem forsrh. ætti að flytja, þvert á allar venjur um samskipti ríkisstjórnar og Alþingis. Svar forsrh. við mjög áköfum athugasemdum okkar um málsmeðferð var að nægur tími og nægt ráðrúm gæfist til að ræða málið á þinginu.

Síðan hefur gengið á með látlausum umræðum. Það hefur varla gefist tími til, frá einni umræðu til annarrar, að kanna ný gögn sem fram hafa komið í málinu, nýjar umræður sem sífellt hafa verið að berast og einstök atriði í þeirri miklu umræðu sem í landinu hefur staðið um þetta mál síðan það hófst.

Mér finnst ákaflega ámælisvert að formaður allshn., að ég tali ekki um ráðherrana, skuli ekki vera hér. Ég vil spyrja forseta: Hvar er formaður allshn.? Hefur hann forföll, er hann á fjarvistarlista eða hvaða verk eru svo brýn, nú kl. hálfeitt aðfaranótt laugardags, fyrir formann allshn. að hann skuli ekki geta verið hér og fylgst með þeirri umræðu sem honum ber að fylgjast með?