2004-05-22 00:26:48# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JGunn (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[24:26]

Jón Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ef ég hef skilið svör hæstv. forseta rétt þá hefur hv. formaður allshn. verið látinn vita af því að nærveru hans sé óskað í þinghúsinu. En þótt ég hafi hlustað grannt hef ég ekki heyrt hvort hæstv. forseti hefur haft samband við hæstv. ráðherrana, og ef svo er hvort von sé á þeim í hús. (JóhS: Ætlar forseti ekki að svara?)

(Forseti (BÁ): Forseti hefur ekki séð sérstakt tilefni, á þeim klukkutíma sem farið hefur í umræður um fundarstjórn forseta, til að hafa samband við viðkomandi ráðherra en forseti hefur hins vegar, eins og fram hefur komið, komið ítrekuðum skilaboðum til formanns allshn., hv. þm. Bjarna Benediktssonar.)

Virðulegur forseti. Ég óska enn og aftur eftir því að haft verði samband við hæstv. menntmrh. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Ég ætlaði að eiga við hana orðastað um viðtal sem tekið var við hana í Kastljósi þann 28. apríl. Þar koma fram ýmis atriði sem mér hefur ekki enn gefist kostur á að skiptast á skoðunum um við hæstv. menntmrh. Með leyfi forseta, segir t.d. í þessu viðtali.

Spyrillinn segir: ,,Það er mjög mikið talað um að það eigi að auka fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Finnst þér að það ríki einhver fábreytni hérna?``

Hæstv. ráðherra svarar: ,,Nei, ég get ekki sagt að það ríki fábreytni í útgáfu á fjölmiðlum. Ég held að það séu allir sammála um að það er svona þokkaleg fjölbreytni varðandi fjölda rása og stöðva sem eru að senda út á ljósvakamiðlum og fjölda dagblaða.``

Þá er spurt: ,,Finnst þér halla á einhvern? Er einhver sem kemur ekki sínum sjónarmiðum á framfæri?``

Hæstv. ráðherra svarar: ,,Ég ætla ekki að meta það því ég er að reyna að meta þetta út frá almennum hagsmunum og vil helst ekki hafa það þannig að það sé verið að setja einhver lög á eitthvert eitt ákveðið fyrirtæki. Ég er að marka löggjöf til lengri tíma og það er það sem skiptir máli.``

Ég hef fullan hug á að ræða við hæstv. ráðherra um hvaða löggjöf hún er að marka. Ég hef ekki orðið var við það í umræðunum að hæstv. menntmrh. sé að marka löggjöf. Þegar spurt er út í þessi lög þá er hún ekki til svara. Ég óska eftir því að hæstv. menntmrh. verði látin vita að nærveru hennar sé óskað í þinghúsinu þannig að hægt sé að ræða við hana um það sem hún hefur sagt á opinberum vettvangi um þá löggjöf sem hún segist vera að marka í þessum málum. Hún hefur sjálf sagt að það skorti ekki fjölbreytni, það sé ekki ástæðan fyrir frv. Hún hefur sagt að hún vilji ekki setja lög á eitt ákveðið fyrirtæki. Það kemur skýrt fram hér. Þess vegna er ekki undarlegt að maður vilji, áður en 3. umr. lýkur, eiga við hana orðastað um hvaða lög hún er að marka.