2004-05-22 00:30:04# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[24:30]

Einar K. Guðfinnsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér er mjög knúið á um svör um hvernig þessum umræðum muni vinda áfram. Ég held að það sé eðlilegast að þeir þingmenn sem þeirra spurninga spyrja líti einfaldlega í eigin barm og reyni að svara hver fyrir sig. Það eru auðvitað þeir sem tefja þessa umræðu. Þeir ráða ferðinni með því að rjúfa hina efnislegu umræðu með klukkustundarlangri umræðu um störf þingsins. Það gerir það að verkum að við komumst ekki áfram og komumst ekki til verka í þessari umræðu. Það er greinilega ákvörðun þingmanna Samf. í salnum í kvöld að reyna eftir föngum að halda uppi umræðu um fundarstjórn forseta, störf þingsins og allt hvað nöfnum tjáir að nefna. Það gerir það að verkum að við komumst ekki til þessarar umræðu, hinnar efnislegu umræðu.

Ef við ætlum að sjá fyrir okkur hvernig þessari umræðu á að vinda fram, hvenær henni ætti að ljúka, þá er forsendan sú að hún geti hafist, það er ekki flóknara en það. Það er alls ekki hægt að ljúka umræðu eða láta umræðu halda áfram nema hún hefjist. Hún getur ekki hafist vegna þess að það er greinilegur ásetningur þingmanna Samf. að halda áfram að koma í veg fyrir hina efnislegu umræðu. (Gripið fram í: Hvar er ráðherrann?) Ég hafði satt að segja vænst þess að fá að hlýða á fleiri fróðlegar ræður þingmanna Samf. en ég veit ekki hve lengi ég þarf að bíða.

Ég vil spyrja hv. þingmenn: Hversu lengi eigum við að þurfa að bíða eftir því að fá að hlusta á umræður sem við höfum hlakkað til að fá að hlusta á í allt kvöld? Það hefur vakið óskaplega tilhlökkun hjá okkur þingmönnum Sjálfstfl. og öðrum sem hér eru að fá að hlusta á umræður kvöldsins. Hér hefur verið vælt yfir því að hér séu ekki fulltrúar úr allshn. Alþingis. Ég vil vekja athygli á því að sá þingforseti sem nú situr á forsetastóli hefur verið hér í allt kvöld. Hann er fulltrúi í allshn. Alþingis. Hann hefur tækifæri til að tala, kjósi hann að gera það og hefur auðvitað fullkomið vald á þessu máli og getur svarað fyrir það ef tilefni er til.

Ég vil spyrja, af því að verið er að ræða um allshn.: Hvar eru þingmenn Samf. úr allshn. sem maður hefði haldið að ættu erindi í þessa umræðu, m.a. búa þeir yfir þekkingu á því sem komið hefur frá allshn.? Hvar er hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, sem kom til þings í dag? Hvar er hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, sem er talsmaður minni hlutans í þessu máli? Hvar er hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson? Þessir þingmenn eru ekki að fylgjast með málinu. Ég held að hv. þingmenn Samf. ættu að líta í eigin barm og svara spurningum sínum sjálfir. Þau geta svarað þessum spurningum en ættu að spyrja um leið: Hvar eru þingmenn Samf. úr allshn.? Eru þeir alveg týndir?