2004-05-22 01:13:18# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:13]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef fyrr á þessum degi og tvívegis á þessu kvöldi óskað eftir tveir hæstv. ráðherrar, hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh., yrðu viðstaddir þessar umræður. Sá forseti sem þá var í forsetastól virti mig varla svars. Hann hefur ekki orðið við ósk minni um að kalla þessa tvo ráðherra til fundar þannig að ég geti átt við þá orðastað.

Nú er ég svo heppin að í stól forseta situr hæstv. forseti Halldór Blöndal. Ég veit að hæstv. forseti sem situr í stól forseta hefur skilning á ósk minni. Ég hef setið lengi á þingi og minnist þess að þegar hæstv. forseti, sem nú situr í stólnum, var í stjórnarandstöðu þá þurfti hann iðulega að kalla til ráðherra til að svara spurningum. Jafnvel þótt seint væri að nóttu. Ég minnist sérstaklega eins tilviks þegar hann þurfti að kalla til hv. þm. Steingrím J. Sigfússon til fundar, sem þá var ráðherra. Hann þurfti að eiga við hann orðastað og Steingrímur J. Sigfússon mætti í hús kl. 4 að morgni. Ég man að þá þurfti hæstv. forseti, þá óbreyttur þingmaður Halldór Blöndal, ekki neitt að ræða við hæstv. ráðherra.

Ég þarf hins vegar að ræða við þessa tvo hæstv. ráðherra. Ég þarf að eiga við þá orðastað og mun bíða fram eftir nóttu eða til morguns eða hvernig sem hæstv. forseti vill hafa það af því að ég þarf að eiga orðastað við þessa hæstv. ráðherra áður en þessum fundi lýkur.

Nú er það svo að þessa viku hafa verið þingfundir fram eftir kvöldi og nóttu í þrjú kvöld. Nú er klukkan að ganga tvö og væri heppilegra ef við gætum frestað fundi nú þar sem svo erfitt virðist að draga hæstv. ráðherra til fundar. Við gætum hugsanlega átt orðastað við þá að degi til en ekki um nótt. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ég megi eiga von á að hæstv. forseti kalli til þá tvo ráðherra sem ég hef beðið um, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. Ég hef skýrt það úr ræðustól hvaða erindi ég á við hæstv. ráðherra og tel að ég hafi borið fram mjög réttmætar óskir til að fá þá hingað í salinn. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann ætli að verða við ósk minni. Ég hef ekki enn sett mig á mælendaskrá vegna þess að ég vil ekki eyða síðasta ræðutíma mínum fyrr en ég veit hvort ráðherrarnir koma til fundar.