2004-05-22 01:23:02# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:23]

Einar K. Guðfinnsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir að menn eru farnir að nota bókmenntalegt mál. Það kann að stafa af því að það stendur yfir listahátíð í landinu þótt við þingmenn höfum lítið orðið varir við það, enda í miklum önnum og höfum ekki getað fylgst nægilega vel með því. Ég held að áhrifa þessarar listahátíðar sé farið að gæta nokkuð í þingstörfunum. Þegar halla fór í miðnættið tóku menn skyndilega upp á því í Samf. að vera með það sem kallast á tónlistarmáli intermezzo, rjúfa leikinn, rjúfa umræðuna með intermezzo. Þar virðist tilgangurinn ekki sá að bæta músíkina í því sem menn hafa verið að tala um heldur fyrst og fremst að búa til millikafla sem stæði nákvæmlega klukkutíma. Það er greinilega það sem þessi þessi millikafli í þessari umræðu gengur út á. Hér er mætt helftin af þingflokki Samf. og þegar ýtrustu brögðum er beitt og ýtrustu heimildum í þingsköpunum, sem hér hefur verið vísað mjög til, telst mér til að millikaflinn geti staðið um það bil klukkutíma. Til þess er leikurinn gerður og auðvitað mjög mikilvægt að menn átti sig á því.

Það sem síðan einkennir þennan intermezzo-kafla er að hér koma þingmenn og reyna að sýna hversu hugmyndaríkir þeir geta verið í að kalla eftir ráðherrum. Í síðasta intermezzo-kafla þessarar umræðu var kallað eftir landbrh. Núna er það umhvrh. og svo verðum við að bíða eftir einni ræðu. Þá kemur millikafli og þar sem kallað verður eftir einhverjum ráðherra í viðbót. Þetta eru efnisatriði þess sem er að gerast, þ.e. að búa til klukkutíma millikafla, kalla eftir ráðherra. Síðan hefjast umræður að nýju.