2004-05-22 01:28:46# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JGunn (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:28]

Jón Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það sem hér fer fram, vegna þess að hæstv. forseti svarar engum spurningum sem að honum er beint, er að verða hálfgerður farsi. Ég sagði áðan að ég hefði verið að störfum í dag í 17 klukkutíma. Ég minnist þess ekki að hafa gert það áður nema til að bjarga verðmætum, eins og maður kallaði, í gamla daga þegar unnið var í fiskinum. En ég sé ekki fyrir mér að ég standi hér við að bjarga neinum verðmætum nema kannski tjáningarfrelsinu. Við sem hér stöndum gerum a.m.k. það sem við getum til að bjarga því.

Ég er að velta fyrir mér, hæstv. forseti, því sem ég talaði um í fyrri ræðu minni. Væri möguleiki á því að fá að vita hve lengi þessi þingfundur á að standa? Mér sýnist hæstv. forseti hafa getað fengið sér dúr í dag og frískað sig, eins og ég var að tala um áðan. Okkur sem hér stöndum hefur ekki gefist tóm til þess. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að við getum fengið að vita hvað þessi þingfundur á að standa lengi.

Ég spurði fyrr í kvöld hvernig væri með lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Ég hafði áhyggjur af starfsfólki Alþingis, hvort það þyrfti að vinna lengur heldur en lög leyfa og fengi ekki lögbundna hvíld. En ég hef verið upplýstur um það af skrifstofustjórum þingsins að svo er ekki. Þá langar mig að spyrja hæstv. forseta, og óska eftir að fá svar við því: Gilda þessi lög um þingmenn líka? Gilda lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum um þingmenn? Ef svo er hafa þau lög verið brotin á þeim sem hér stendur nokkuð marga undanfarna daga og stefnir í að þau verði brotin í kvöld einnig.

Að endingu, herra forseti, verð ég að segja að mig undrar mjög stjórnin á þessum vinnustað. Sérstaklega vekur furðu, svo lítt þingreyndum manni sem mér, sú takmarkalausa fyrirlitning sem mér finnst þingmönnum oft og tíðum sýnd, að eiga að standa hér í ræðustól án möguleikans á að fá vitræn svör við spurningum sem fram eru lagðar, einföldum spurningum eins og: Hve lengi á þingfundur að standa? Af hverju kemur ekki hv. formaður allshn. til fundarins og á við okkur orðastað eins og margbúið er að biðja um? Ég hélt að það væri skýlaus réttur okkar, þegar þingfundur stæði yfir, að forseti yrði við óskum okkar um að hæstv. ráðherra kæmi til að eiga við okkur orðastað. Ég taldi að slíkum skilaboðum væri a.m.k. komið til hæstv. ráðherra en mér skilst að það hafi ekki verið reynt í kvöld.