2004-05-22 01:34:30# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:34]

Einar Karl Haraldsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil endurtaka spurningu mína til forseta um það hvað líði því að hingað komi formaður allshn. Ég hef áður nefnt það við þessa umræðu að mér finnst það ganga nærri virðingu þingsins að hv. formaður allshn. skuli ekki virða okkur viðlits og hafi ekki sést í sölum Alþingis í allan dag enda þótt hann og aðrir stjórnarliðar í allshn. hafi margendurtekið að þetta mál væri á forræði Alþingis og allshn. hefði þar tögl og hagldir og svaraði fyrir málið í þingsal.

Ég vil líka taka undir eðlilegar óskir þingmanna um að ráðherrar séu viðstaddir og svari spurningum. Ég hef ekki langa þingreynslu en ég hef þó augu í höfðinu og eyru. Ég hef séð að ekki hafa allir sýnt þinginu þá vanvirðingu sem viðhöfð hefur verið í þessu máli. Hér var t.d. lagður fram mjólkursamningur og í tengslum við hann tillögur um breytingar á búvörulögum. Þegar þau mál komu til 1. umr. var landbrh. í salnum daglangt ásamt ...

(Forseti (HBl): Ég vil benda hv. þm. á að landbúnaðarmál eru ekki til umræðu hér heldur fundarstjórn forseta. Það kemur að vísu ekki venjulegri fjósamennsku við.)

Hæstv. forseti. Ég var að nefna þetta sem dæmi um þingvenju, að í þeirri umræðu voru hæstv. landbrh. og formaður landbn. viðstaddir umræðuna.

(Forseti (HBl): Ég var að benda hv. þm. á að landbúnaðarmál eru ekki til umræðu. Ég vil biðja hv. þm. að taka það til greina.)

Herra forseti. Ég tók þetta sem dæmi um að þar giltu greinilega aðrar reglur um fundarstjórn og aðrar þingvenjur en við þessa umræðu. Við þá umræðu voru bæði formaður landbn. og hæstv. landbrh. við umræðuna og þau svöruðu spurningum. Þau tóku þátt í andsvörum og ræddu við þingmenn en hér er greinilega annað uppi á teningnum. Ég spyr: Er nokkurt samræmi í fundarstjórn forseta? Það var erindi mitt í ræðustólinn að þessu sinni.