2004-05-22 01:53:06# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:53]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Látið hefur verið að því liggja í þessum umræðum, m.a. af formanni þingflokks sjálfstæðismanna, að við færum reglulega upp til að ræða fundarstjórn forseta til að tefja þingstörfin. En ég lýsi hins vegar fullri ábyrgð á hendur forseta sjálfum á því að störf þingsins tefjist. Forseti lætur ekki svo lítið að svara eðlilegum spurningum sem til hans er beint. Við höfum síðan kl. hálftólf kallað eftir því að fá nokkra ráðherra til að koma í salinn þannig að hægt væri að halda umræðum áfram með eðlilegum hætti svo að umræðunni gæti lokið þannig að þingmenn fengju svör við þeim eðlilegu spurningum sem þeir vilja beina til hæstv. ráðherra.

Eins og fram hefur komið hafa margir þingmenn verið við skyldustörf frá því kl. 8 í morgun, í 18 tíma eða meira. Hér fáum við ekki einu sinni svör við því hvort leitað hafi verið eftir því að hæstv. ráðherrar kæmu til fundar. Er það virkilega svo, hæstv. forseti, að ekki megi ónáða hæstv. ráðherra þegar þeir eru gengnir til náða? Hafa þeir einhverja sérstöðu? Þeir eru líka þingmenn. Ættu þeir ekki að vera hér við skyldustörf þegar til þeirra er kallað? Það er lítilsvirðing, hæstv. forseti, við þingmenn að þeim sé ekki einu sinni svarað þegar þeir beina til forseta eðlilegum spurningum. Ég lýsi því ábyrgð á hendur forseta sjálfum á að þingstörf geti ekki gengið fram með eðlilegum hætti.

Boðað hefur verið til nefndafundar kl. 9 í fyrramálið. Þingstörf eiga að hefjast aftur kl. 10 í fyrramálið. Ég þarf vafalaust að vera vakandi til morguns. Á málefnaskrá þingsins á morgun eru ýmis mál sem ég þarf að mæla fyrir, í minnihlutaálitum. Mér finnst ekki forsvaranlegt, virðulegi forseti, að okkur sé ekki sýnd sú kurteisi af hendi hæstv. forseta, sem knýr þingið áfram með svo óeðlilega hætti, að fá svör við þeim spurningum sem við beinum til hæstv. forseta.

Ég hef aldrei upplifað slíka stjórn á þinginu og verið hefur síðastliðna klukkutíma. Ég bið hæstv. forseta að gæta að því að hann er forseti alls þingsins og á að gæta þess að virtar séu sanngjarnar og eðlilegar óskir þingmanna til að málið geti haldið áfram með eðlilegum hætti. En ég mótmæli harðlega vinnubrögðum hæstv. forseta.