Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 22. maí 2004, kl. 11:01:42 (8831)

2004-05-22 11:01:42# 130. lþ. 122.5 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 130. lþ.

[11:01]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við ræddum þetta mál hér langt fram eftir nóttu og það var mjög kvartað undan því af hálfu okkar sem sátum hér og héldum uppi málefnalegri umræðu að hér var enginn til fyrirsvars af hálfu háttvirtra stjórnarliða. Þess vegna gleður það mig að sjá hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins heilsuhrausta í salnum. Þeir voru toginleitir og vökubleikir þegar leið á nóttina og sannast sagna var ekki nokkurn mann að finna hér. Ég er sérlega ánægður yfir því að sá maður sem hefur haft málið á sínu forræði, hv. þm. Bjarni Benediktsson, sem sennilega lá örmagna í fleti sínu í gær þegar hann átti að vera hér í nótt að rökræða við okkur, er kominn hér glaður og reifur til fundarins. Ég spyr, herra forseti, eins og við spurðum í nótt: Hvar er Framsóknarflokkurinn í þessari umræðu? Hvernig stendur á því að Framsóknarflokkurinn lætur ekki í sér heyra í þessum stól? Þegar við höfum varpað til framsóknarmanna spurningum þá hafa þeir hopað á hæli og horfið inn í tréverkið eins og draugar. (SJS: Rokkarnir eru þagnaðir.) ,,Rokkarnir eru þagnaðir``, hrópar fram í hinn orðvari og grandvari formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það eru orð að sönnu. Rokkarnir í Framsóknarflokknum hafa ekki sagt eitt einasta orð í þessari umræðu. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur að sönnu skýrt sjónarmið sín og gert það af reisn og myndugleika. En ég spyr, herra forseti: Hvar er hv. þm. Jónína Bjartmarz sem hefur látið þau boð út ganga að hún hafi efasemdir um frumvarpið? Við höfum séð hana hrata eins og litla steinvölu niður mælendaskrána og loksins út af henni. Hvar er hæstv. utanríkisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, sem hefur illu heilli látið teyma sig til fylgilags við þetta frumvarp. Hann kom hingað og hélt eina ræðu? Hvert var framlag hæstv. utanríkisráðherra? Jú, hann sagði alþjóð að það væri nú sjálfsagt að láta reyna á stjórnarskrána.

Annar þeirra tveggja manna sem mesta ábyrgð bera á þessu frumvarpi er orðinn svo vanur því að umgangast stjórnarskrána eins og gamla tusku og honum finnst allt í lagi að það ríki óvissa um stjórnarskrána. Hæstv. utanríkisráðherra lét hafa sig í það að segja í fjölmiðlum að hann væri núna mun öruggari um að þessi lög brytu ekki stjórnarskrána. Það var maðurinn sem hafði komið nokkrum kvöldum fyrr í sjónvarp og lýst því yfir að hann teldi engar líkur á því að þetta frumvarp bryti stjórnarskrána. Síðan breytti hann því þremur sinnum til þess að komast hjá því að það bryti stjórnarskrána. En þegar öllum þeim breytingum var lokið var virðing formanns Framsóknarflokksins fyrir stjórnarskránni ekki meiri en sú að hann sagðist vera mun öruggari. Hann var ekki viss. Þó liggur fyrir að í einum fimm tilvikum á undanförnum missirum hefur stjórnarandstaðan haft rétt fyrir sér en hæstv. utanríkisráðherra rangt fyrir sér þegar stjórnarandstaðan hefur bent á að lagagerningar sem hér var verið að þrýsta í gegn með ofbeldi hafa brotið í bága við stjórnarskrána.

Ég spyr þess vegna, herra forseti: Hvað dvelur orminn langa? Við erum komin hér að lokum þessarar umræðu en enginn úr forustuliði Framsóknarflokksins, enginn úr forustu Framsóknarflokksins þorir að koma hingað og leggja fram á borðið þau rök sem þessir menn og konur hafa væntanlega fyrir því að nauðsynlegt sé að ráðast í þetta.

Við vitum að Framsóknarflokkurinn hundskammast sín fyrir þetta mál. Við vitum að hann er fyrir löngu orðinn boginn í knjám undan því oki sem í því felst að hafa hæstv. forsætisráðherra á bakinu.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur komið hingað og haldið fram röngum staðhæfingum. Hann hefur líka gert það í fjölmiðlum. Hæstv. utanríkisráðherra, formaður Framsóknarflokksins hefur sagt að mikil sátt ríki í Framsóknarflokknum um þetta frumvarp. Sáttin er svo mikil að þrátt fyrir allt eru þingmenn Framsóknarflokksins það ærlegir að þeir leggja ekki í að koma hingað og verja frumvarpið. Enginn þeirra hefur gert það í þessari umræðu. Sá eini sem talað hefur hefur lýst andstöðu við frumvarpið. Ég verð að minnsta kosti að gefa hv. þingmönnum Framsóknarflokksins prae fyrir það að þeir eru ærlegir. En þeir fá falleinkunn fyrir að að fylgja sannfæringu sinni. Þetta er auðvitað með þvílíkum ólíkindum, herra forseti, að ég minnist þess ekki að sjá einn flokk hverfa svona niður og verða að engu.

Til upplýsingar, herra forseti, þá á ég ekki við hvernig þeir eru að fara í skoðanakönnunum þessa dagana. Ég á við það að þeir hafa bókstaflega horfið hér í þessum sölum. Hvernig má það vera að flokkur sem hafði hugsjónir og drauma og metnað fyrir hönd sjálf sín og sinnar þjóðar skuli með þessum hætti láta aftur og aftur kúga sig til hlýðni, beygja sig og sveigja eins og litla tág bara til þess að þjóna dyntum hæstv. forsætisráðherra, bara til þess að tryggja það að formaður Framsóknarflokksins kunni eftir allt saman náðarsamlegast að fá leyfi til þess að verða forsætisráðherra 15. september í haust? En allir hljóta að sjá eftir þessa atburðarás að það verður önnur hönd sem seilist úr aftursætinu og heldur um stýrið eins og við höfum séð í þessari atburðarás þar sem Davíð Oddsson og persónuleg skoðun hans á tilteknum mönnum í athafnalífi, tilteknum fyrirtækjum hefur aftur og aftur ráðið för. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa skammast sín fyrir þetta. Sem betur fer má segja það um Framsóknarflokkinn upp til hópa, ærlegt fólk út um allt land, að það hefur líka skammast sín fyrir þennan leiðangur sem forusta Framsóknarflokksins hefur hengt flokkinn í.

Þegar hæstv. utanríkisráðherra sagði að sátt ríkti í Framsóknarflokknum um þetta mál þá hefur hann sennilega ekki heyrt fréttirnar vestan af fjörðum þar sem einn af fulltrúum Framsóknarflokksins lagði fram tillögu ásamt fulltrúa Samfylkingarinnar, og til upplýsingar fyrir hv. þingmann Einar K. Guðfinnsson, formann þingflokks sjálfstæðismanna, líka með einum bæjarfulltrúa sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Ísafjarðar. Þar var lögð fram tillaga sem að efni til hljóðaði þannig að bæjarstjórn Ísafjarðar harmaði þau vinnubrögð sem hefðu verið viðhöfð af meiri hluta Alþingis og hún komst að þeirri niðurstöðu í ályktun sinni að þau vinnubrögð væru vart til þess fallin að auka virðingu almennings fyrir Alþingi. Í ályktuninni, sem einn sjálfstæðismaður og tveir framsóknarmenn stóðu að, sagði líka að það hlyti að teljast lágmarkskrafa í sérhverju lýðræðisríki að málefni sem varða grundvallaratriði lýðræðisins hljóti ítarlega og vandaða umræðu áður en lög eru sett. Í tillögunni segir að það sé æskilegt að um slíka lagasetningu ríki þverpólitísk sátt og í því ljósi skorar bæjarstjórnin á þingmenn Norðvesturkjördæmis að skoða hug sinn vel við afgreiðslu málsins. Líkt og í ríkisstjórn þá eru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn í meiri hluta í bæjarstjórn Ísafjarðar. Þessi áskorun var samþykkt með sjö atkvæðum gegn einu. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn vestur á fjörðum, á Ísafirði, sameinuðust um að senda þessa skorinorðu áminningu til þingmanna kjördæmisins sem hér sitja. Það er vinsamlegast farið á leit við þá í þessari ályktun að þessir þingmenn komi vitinu fyrir meiri hlutann sem hér ræður á þinginu. Er það þess vegna, er það af því ég er að lesa þessa ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðar sem sjálfstæðismenn stóðu að, að hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis sjást ekki hér, þeir hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Einar Kristinn Guðfinnsson? Ég vona hins vegar, af því að hv. þm. Magnús Stefánsson hlýðir á mál mitt, að þetta megi verða að áhrínsorðum varðandi afstöðu hans. Hv. þm. hlýtur að taka mark á þeim liðsoddum sem hann hefur stuðst við í sinni baráttu í kjördæminu. Hreyfir það ekki hjarta hans í þessu máli þegar fulltrúar hans í bæjarstjórn Ísafjarðar koma fram með þessum hætti og skora á hann að reyna að koma vitinu fyrir félagana sem sitja með honum í meiri hlutanum á þinginu? Þessa ályktun hefur hæstv. utanríkisráðherra væntanlega ekki heyrt af þegar hann sagði að það ríkti rík sátt í Framsóknarflokknum um þetta mál.

Herra forseti. Hvar er sáttin hér í kjördæmi hæstv. utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar, í kjördæminu sem hann sagði héðan úr ræðustól að hann hefði fengið svo sterkt umboð til þess að stjórna landinu frá? Að sönnu 11% fékk hann í kosningunum. En hefur hann umboð þessa fólks í dag til þess að ganga frá þessari ósvinnu sem felst í þessu frumvarpi? Ó, nei. Það liggur alveg skýrt fyrir að í kjördæmi formanns Framsóknarflokksins stappar nærri uppreisn gegn þessu máli. Tilfinningarnar eru svo ríkar og ólgan svo djúp að helsti forustumaður Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, Alfreð Þorsteinsson, hefur gengið fram fyrir skjöldu og afhjúpað blekkingar formanns Framsóknarflokksins með því að segja að hann hafi gengið á fund hans og gert honum skýra grein fyrir því að engin sátt sé um þetta mál heldur þvert á móti ákaflega djúp óánægja í kjördæmi hæstv. utanríkisráðherra. Því er rangt þegar formaður Framsóknarflokksins segir að það ríki sátt um þetta í Framsóknarflokknum. Og það er rangt þegar formaður Framsóknarflokksins segir að að baki honum standi órofafylking þingmanna. Einn þingmanna Framsóknarflokksins sagði fyrir tveimur dögum að ef framsóknarmenn á þingi kysu eftir sannfæringu hjarta síns þá mundi þetta frumvarp kolfalla. Það var Alfreð Þorsteinsson sem hefur nú fengið sinn skammt af sproksetningu frá ýmsum fjölmiðlum sem hér er verið að skrúfa fyrir sem hafði forgöngu að því, herra forseti, að í borgarráði var samþykkt sérstök tillaga sem ég ætla að leyfa mér að lesa upp fyrir framsóknarmanninn sem hér er staddur, því hinir gufa hægt og sígandi upp um leið og farið er að ræða þátt Framsóknarflokksins í þessu máli. Ég ætla að leyfa mér að biðja hv. þm. Þórarin Sveinsson að færa hæstv. utanríkisráðherra þau boð að í borgarráði Reykjavíkur var samþykkt með atkvæði og að frumkvæði fulltrúa Framsóknarflokksins svohljóðandi tillaga, með leyfi forseta:

,,Vegna umræðu um starfsumhverfi fjölmiðla vill borgarráð vekja athygli þingmanna á nauðsyn þess að fjölmiðlar búi við stöðugleika og öruggt lagaumhverfi ekki síður en önnur atvinnustarfsemi. Fjölmiðlarekstur og útgáfa er mikilvæg atvinnugrein í Reykjavík. Nægir að nefna að tvö til þrjú þúsund einstaklingar starfa við fjölmiðla og þar með eiga jafnmargar fjölskyldur lífsafkomu sína að hluta eða heild undir blómlegum rekstri þeirra. Gera verður þá kröfu að aðgerðir ríkisstjórnarinnar stofni ekki rekstri fjölmiðlafyrirtækja og atvinnuöryggi starfsfólks í hættu nema brýna nauðsyn beri til og ljóst sé að mildari úrræði nái ekki sömu markmiðum.``

Síðan segir, herra forseti, með þínu leyfi:

,,Borgarráð varar eindregið við því að málið verði keyrt fram með hraði og hvetur til vandaðrar og ítarlegrar umræðu áður en lög verði samþykkt frá Alþingi. Borgarráð bendir á að þrátt fyrir þær breytingar sem boðaðar hafa verið í meðförum Alþingis er ljóst að rekstur öflugra fjölmiðla og atvinnuöryggi hundruða er í uppnámi verði frumvarpið að lögum. Alls óvíst virðist hins vegar hvort markmið frumvarpsins um fjölbreytni í umfjöllun og öfluga dagskrárgerð náist. Það er lágmarkskrafa að nægilegur tími gefist til að fullkanna hin víðtæku áhrif sem samþykkt frumvarpsins gæti haft í för með sér.``

[11:15]

Herra forseti. Sá sem skrifaði þessar línur, sá sem lagði fram þessa ályktun, hann heitir Alfreð Þorsteinsson. Mætti ég upplýsa Framsóknarflokkinn um þá staðreynd að Alfreð Þorsteinsson hefur um áratugi verið burðarstoð Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er hann sem mælir þessi orð. Það er hann sem fer með svo rökstuddum hætti beint gegn þeirri skoðun og staðhæfingum sem formaður Framsóknarflokksins hefur látið fara frá sér um að sátt ríki meðal framsóknarmanna. Það er einfaldlega rangt. Í viðtali við Morgunblaðið 19. maí segir borgarfulltrúinn Alfreð Þorsteinsson, með leyfi forseta:

,,Ég hef, bæði í samtölum við flokksmenn í Reykjavík og víðar, fundið fyrir mikilli óánægju með þetta frumvarp, ... Ég bendi líka á að það hafa þó nokkur framsóknarfélög, bæði í nágrenni Reykjavíkur og úti á landi, ályktað gegn því, ásamt Sambandi ungra framsóknarmanna og ungum framsóknarmönnum í Reykjavík.``

Svo mörg voru þau orð.

Ritskoðunarandinn sem birtist í þessu frumvarpi virðist hafa heltekið hendur og taugakerfi forustumanna Framsóknarflokksins. Við minnumst þess að fyrir sléttri viku þegar ungur lögfræðingur norður í landi, upprennandi forustumaður meðal framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi, leyfði sér að gagnrýna harkalega á einum af vefum Framsóknarflokksins þá ósvinnu sem í þessu frumvarpi liggur þá liðu 30 mínútur þangað til búið var að skrúfa fyrir vefritið og fella það niður, loka fyrir það. Þar byrjaði Framsóknarflokkurinn að praktísera á sjálfum sér og sínum eigin gagnrýnu röddum það sem hann vill núna koma með fram gagnvart þjóðinni allri. Er þá nema von, herra forseti, að kannanir sýni að ríkisstjórnin er trausti rúin. Fylgið hrynur af henni eins og flugur. En það sem mestu skiptir þó varðandi frumvarpið sem við erum hér að ræða er sú staðreynd að fólkið í landinu er frekar að herðast í andstöðunni, 80% Íslendinga hafa lýst eindreginni andstöðu við frumvarpið. Ættu menn ekki við slíkar aðstæður að staldra við og reyna að skoða hvort það væri ekki hægt með einhverjum öðrum ráðum að ná fram þeim markmiðum sem í frumvarpinu eru, fara vægari leiðir sem bent hefur verið á af fulltrúum stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu.

Það er sláandi að þær ítarlegu hugmyndir sem hér hafa verið lagðar fram og sumar byggjast á tilmælum Evrópuráðsins, aðrar teknar beint úr skýrslu fjölmiðlanefndar, hafa ekki fengist ræddar í rökræðum okkar við stjórnarliða, með einni undantekningu þó. Hæstv. dómsmálaráðherra kom hingað og fjasaði og spurði hvaðan í ósköpunum við hefðum fengið hugmyndir eins og að setja lög um gagnsætt eignarhald á fjölmiðlum eða hverjum dytti í hug sú fíflska að ætla að setja í lög ákvæði sem skylduðu ritstjórnir til þess að setja reglur til þess að tryggja sjálfstæði ritstjórna. Það kom sem sagt í ljós að þeir menn sem hér hafa helst verið í forustu í þessari umræðu af hálfu Sjálfstæðisflokksins að minnsta kosti höfðu ekki einu sinni haft fyrir því að lesa fjölmiðlaskýrsluna, hvað þá kynna sér tilmæli Evrópuráðsins sem reyndust þó hér í fyrri parti umræðunnar vera helsta skjól og skjöldur hæstv. forsætisráðherra því vopnabúrið og skjöldurinn sem hann notaði í slagsmálunum við okkur voru tilmæli Evrópuráðsins þangað til þau voru lesin hér upp fyrir honum og þangað til það rann upp fyrir þeim að það var allt annað og miklu víðtækara sem tilmæli Evrópuráðsins fólu í sér.

Herra forseti. Ég fullyrði að hlutur Framsóknarflokksins er hvað lakastur. Ég segi það vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur ekkert lagt í að taka þátt í þessari umræðu. Hann er klofinn í málinu. Þá er ég ekki að tala um þann klofning sem birtist í þingliðinu. Það sem hefur gerst með Framsóknarflokkinn er að það er fullkomin gjá á milli þröngrar forustu annars vegar og hins vegar hins breiða massa í flokknum. Það hlýtur að vera alvarlegt fyrir sérhvern forustumann að lenda í því að láta teyma sig til fylgilags við mál sem viðkomandi augljóslega hefur enga sannfæringu fyrir og sjá síðan að sú misráðna ákvörðun verður til þess að ekki bara að minnka flokkinn heldur ýta honum burt frá forustunni.

Mér finnst það alveg undarlegt svo ekki sé meira sagt hvernig Framsóknarflokkurinn hérna á þingi, þó með ærlegum undantekningum eins og ég hef sagt frá, tekur þátt í þessu einkastríði Sjálfstæðisflokksins gegn Norðurljósum, sem á sér bersýnilega bara það markmið að veikja það fyrirtæki og helst sjá það líða undir lok á tveimur árum. Hvernig orðaði borgarfulltrúinn Alfreð Þorsteinsson þetta? Hann var ekkert að skafa utan af því sem formaður Framsóknarflokksins var að taka þátt í. Hann sagði: ,,Stöð 2 er á dauðalista hæstv. forsætisráðherra.`` Hann sagði: ,,Það er verið að ganga frá Stöð 2 og breytingarnar á frumvarpinu duga einungis til þess að lengja í hengingarólinni. Það er stefnt að því að eftir tvö ár þá verði Stöð 2 liðin undir lok.`` Þetta er ekki mat formanns Samfylkingarinnar. Það er ekki formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem hér talar. Það gerir einn af öflugustu trúnaðarmönnum Framsóknarflokksins sem með þessum hætti greinir hið raunverulega markmið þess frumvarps sem við erum hér að ræða. Ég skil ekki hvað vakir fyrir forustu Framsóknarflokksins. Heldur formaður Framsóknarflokksins virkilega að hann sé laus við Davíð Oddsson þó hann að nafninu til taki við stjórnartaumum í ríkisstjórninni í haust? Að sjálfsögðu ekki. Það er hreinn barnaskapur fyrir Framsóknarflokkinn að ætla það og sérstaklega eftir þessa atburðarás sem ég hef hér verið að lýsa. Úr þessu verður formaður Framsóknarflokksins aldrei annað en gísl Davíðs Oddssonar hvort sem hann stýrir ríkisstjórninni áfram úr einhverju ráðuneytanna eða af kontór Kjartans Gunnarssonar í Valhöll.

Við þingmenn höfum svarið þess eið að halda stjórnarskrána og taka ekki þátt í neinu sem gæti brotið í bága við ákvæði hennar. Nú liggur það hins vegar fyrir að þrátt fyrir breytingartillögur telja færustu sérfræðingar okkar á sviði stjórnskipunarréttar ákaflega líklegt að frumvarpið stangist enn þá á við stjórnarskrána. Og eitt er sláandi þegar við erum að ljúka þessari umræðu og það er að fyrir utan ágæta lögfræðinga Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd þá finnst enginn meiri háttar vísindamaður á sviði laga sem treystir sér til þess að halda því fram svo að óyggjandi sé að jafnvel að breytingunum slepptum sé frumvarpið í lagi varðandi stjórnarskrána. Jakob R. Möller sem margsinnis hefur verið kvaddur til til þess að gefa álit á þessum hlutum, virtur lögmaður sem var einu sinni formaður Lögmannafélags Íslands, orðaði það svo þegar hann hafði skoðað breytingarnar að þær væru ekkert annað en þýðingarlitlar fegrunaraðgerðir. Sigurður Líndal, virtasti lagaprófessor landsins, sem nýtur þess sérstæða heiðurs að vera einn af lærimeisturum hv. þm. Bjarna Benediktssonar, og sem reyndar þegar maður skyggnist hér yfir sali reynist vera helsti lærimeistari þriggja almennra þingmanna Sjálfstæðisflokksins úr lagadeild Háskóla Íslands og þriggja ráðherra í núverandi ríkisstjórn Íslands, þessi maður sem hefur kennt þessum sex þingmönnum sjálfstæðismanna lög er líka enn þeirrar skoðunar að frumvarpið brjóti hugsanlega stjórnarskrána. Alþingismenn verða að vera vissir.

Ég tek það trúanlegt þegar hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Birgir Ármannsson segja að þeir séu sannfærðir um að frumvarpið brjóti ekki stjórnarskrána. En mér líður ekki vel þegar hæstv. utanríkisráðherra tekur þannig til orða að hann sé mun öruggari, þegar hann tekur þannig til orða að það sé í lagi að reyna á stjórnarskrána. Hann segir að þeir sem telji að lög kunni að brjóta stjórnarskrárvarin réttindi þeirra eigi bara að láta reyna á það fyrir dómstólum. Svona tala ekki alvöru stjórnmálamenn. Svona tala ekki stjórnmálamenn sem hafa svarið eið að stjórnarskránni. Munurinn á þeim stjórnamálamanni sem talar með þessum hætti og til dæmis hv. formanni allsherjarnefndar er sá að formaður Framsóknarflokksins treysti sér ekki til þess að segja það með óyggjandi vissu að frumvarpið brjóti ekki stjórnarskrána. Við alþingismenn megum ekki láta slíkan vafa vera uppi. Við megum það alls ekki þegar það liggur fyrir að í þremur efnum á síðustu þremur árum hefur ríkisstjórnin verið flengd með dómi Hæstaréttar vegna þess að hún hefur sett lög með ofbeldi hér í gegnum þingið sem hafa brotið stjórnarskrána. Við eigum ekki að taka þessa áhættu. Alþingi getur ekki leyft sér vinnubrögð af þessu tagi. Ég segi bara, herra forseti, í fullri einlægni: Ekki meir. Ekki meir.

Það vill svo til að við höfum fordæmi um það hvernig eigi að vinna sig út úr málum af þessu tagi. Þegar alvarleg álitamál sem tengjast stjórnarskránni hafa verið á ferðinni þá hefur að minnsta kosti sá hluti ríkisstjórnarinnar sem er í Sjálfstæðisflokknum farið aðra leið. Ég sat í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum 1991--1995. Á þeim tíma risu mjög alvarleg álitamál varðandi stjórnarskrána þegar við samþykktum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þá var á það bent með gildum rökum af mjög mörgum að það væri hugsanlegt að stjórnarskráin þyldi ekki þann samning. Það stóðu langvinnar deilur um það. Að lokum fór ríkisstjórnin þá leið að hún lagði málið til álits og ráðgjafar hjá hópi fjögurra sérfræðinga. Það voru ekki allir sáttir við þá aðferð. En þarna var samt sem áður farin sú leið að ríkisstjórnin sjálf kvaddi til menn til þess að rannsaka málið. Niðurstaðan var sú að eins og þeir sérfræðingar sögðu þá var málið á gráu svæði. Það var ekki sterkara heldur en það. En niðurstaðan var sú að þó það væri á gráu svæði þá töldu þeir að það væri ekki reynt um of á þanþol stjórnarskrárinnar. Það skiptir kannski ekki máli varðandi þetta tiltekna frumvarp sem við erum að ræða, heldur aðferðin. Það sem stendur auðvitað eins og fleinn í holdi margra sem vilja verja stjórnarskrána er þessi sérkennilegi ótti hv. þingmanna stjórnarliðsins, að ég nú ekki tali um hæstv. ráðherra, sem ekki leggja í að fá óvilhalla sérfræðinga til þess að skoða málið. Ég man ekki eftir því að það hafi gerst lengi að jafnmargir stjórnskipunarfræðingar komi fram með jafn vel rökstuddar skoðanir sem hníga að því að um stjórnarskrárbrot kunni að vera að ræða án þess að menn ráðist í að reyna að fá mat á því hjá einhverjum stofnunum. En þeir hafa ekki lagt í það vegna þess að ótti þeirra er slíkur að þeir telja greinilega að niðurstaðan yrði sú, eins og í ýmsum öðrum málum af þeirra hálfu, að það lægi fyrir að lokinni slíkri skoðun að stjórnarskráin þyldi ekki þessi lög.

Herra forseti. Þetta finnst mér segja meira en allt annað í þessum efnum. Ég vil bara ítreka það að ég virði það þó þegar menn koma hingað eins og þeir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ég hef nefnt og að minnsta kosti reyna að færa rök fyrir því að frumvarpið samrýmist stjórnarskránni og að nábýli þeirra sé ekki úr hófi þanið. En ég virði ekki mikið þá skoðun sem hæstv. utanríkisráðherra lét í ljósi bæði í þessum ræðustól og síðan í fjölmiðlum þegar hann sagði að það mætti reyna á stjórnarskrána. Svona geta ekki forustumenn í ríkisstjórnum talað.

Það er mín skoðun, herra forseti, að lokinni þessari umræðu að þau lög sem verða hér samþykkt upp úr þessu frumvarpi, ef af líkum lætur upp úr helgi, hafa ekkert að gera með fjölbreytni í fjölmiðlum. Þó það sé hinn yfirlýsti tilgangur frumvarpsins í orði þá er í reynd verið með ofbeldi að reyna að þröngva hér í gegn í krafti meiri hluta því sem ég kalla lögum um opinbera ritskoðun. Það hefur ekkert komið fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um raunverulega nauðsyn þess að setja lög af þessu tagi til þess að tryggja fjölbreyttari efnistök eða umfjöllun eins og ástandið er á fjölmiðlamarkaði í dag. Hver hefur verið helsti gúrú ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Það hefur verið Davíð Þór Björgvinsson núverandi mannréttindadómari, fyrrverandi prófessor við Háskólann í Reykjavík. Hann er vandaður maður sem fengið var það verkefni að stýra fjölmiðlanefnd menntamálaráðherra. Hann sagði það ærlega þegar þeirri vinnu lauk að svo fast hefði ríkisstjórnin keyrt sporana í síður nefndarinnar að þeir hefðu ekki getað komist yfir það að skoða ýmsa mikilvæga þætti eins og þann hvort frumvarpið varðaði við EES-rétt. Fjölmargir sérfræðingar hafa fært rök fyrir því að í fjórum til fimm greinum brjóti þetta frumvarp í bága við þann rétt sem hér gildir í krafti aðildar okkar að EES. Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að fara yfir það. Það hafa aðrir gert. En fjölmiðlanefnd hæstv. menntamálaráðherra komst að niðurstöðu sem mér finnst staðfesta það að engin nauður rak til þess að keyra málið með þessum hraði hér í gegn. Það var ekkert í þeirri skýrslu að finna sem benti til þess að staðan á markaðnum væri þannig að tafarlaust yrði að grípa inn, hvað þá að það þyrfti að gera með þeim hætti sem hér er lagt til, þar sem lostið er að burðarstoð mikilvægs fyrirtækis.

[11:30]

Fjölmiðlaskýrslan sem nefndin lagði fram komst nefnilega að þeirri niðurstöðu að það ríkti fjölbreytni á markaðnum. Þetta er staðfest aftur og aftur í fjölmiðlaskýrslunni. Ein af merkustu niðurstöðunum sem má lesa út úr henni er að í dag ríki mikil fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi. Um dagblaðamarkaðinn segir bókstaflega í skýrslunni að blöðin sem nú eru á markaði standi sterkar að vígi en áður. Höfundar segja beinlínis að þau geti boðið lesendum sínum upp á betri þjónustu og aukið efnisval. Fjölmiðlaskýrslan segir líka að á hljóðvarpsmarkaði sé fjölbreytnin mikil og um sjónvarpsmarkaðinn segir hún hreinlega, með leyfi ágæts forseta:

,,Íslenskur sjónvarpsmarkaður er fjölbreyttur þegar litið er til fjölda sjónvarpsstöðva og að teknu tilliti til smæðar íslensks þjóðfélags.``

Enn síðar segir í skýrslunni að þegar horft sé til smæðar markaðarins þá sé skipting sjónvarpsmarkaðar á þá þrjá aðila sem þar hafi marktæka stöðu ásættanleg.``

Það er ekki verið að finna að ástandinu þarna. Síðan segir, og það ætti nú hæstv. forseti að taka til sérstakrar lesningar, orðrétt í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,... sé ... litið fram hjá eignarhaldi hafi þróunin undanfarin missiri`` --- það er eftir að Norðurljósin urðu til --- ,,verið á margan hátt jákvæð.````

Hvað sagði svo Davíð Þór Björgvinsson, formaður fjölmiðlanefndarinnar, þegar hann rammaði þetta viðhorf inn í sjónvarpsþætti 27. apríl? Þá neyddist hann til þess að viðurkenna að fjölbreytni hefði ekki minnkað með tilkomu Norðurljósanna heldur aukist. Hann sagði það skýrt og skorinort að fjölbreytni á blaðamarkaði hefði aukist þegar Fréttablaðið fór að koma út, að fjölbreytnin hafi aukist svo enn þegar, ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna orðrétt í Davíð Þór Björgvinsson: ,,DV kemur út með þeim krafti sem það gerir þessa dagana og þegar Íslenska útvarpsfélagið er að reka allar þessar útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar.``

Herra forseti. Það er ekki formaður Samfylkingarinnar sem er að segja þessi orð heldur formaður fjölmiðlanefndar ríkisstjórnarinnar í sjónvarpsþætti þar sem kreppt er að honum, þar sem hann er spurður hreint út: ,,Er fábreytni á markaðnum? Hefur fábreytni verið að aukast út af Norðurljósum?`` Hann svaraði því alveg skýrt og skorinort: ,,Fjölbreytnin hefur verið að aukast á markaðnum vegna Norðurljósa.`` Hann staðfestir það svart á hvítu að fjölbreytnin sé meiri núna en áður vegna tilkomu Norðurljósa.

Hver er þá glæpurinn, herra forseti? Er einhver glæpur? Já, glæpurinn er til staðar. Glæpurinn er svo sannarlega til staðar, herra forseti, vegna þess að þessir fjölmiðlar sem Davíð Þór Björgvinsson var að hrósa í þessum sjónvarpsþætti hafa gerst sekir um þann hræðilega glæp að hafa skapraunað hæstv. forsætisráðherra eins og hæstv. dómsmálaráðherra missti út úr sér í hita umræðunnar fyrir nokkrum dögum. Hæstv. dómsmálaráðherra lagði þá í reynd kjarna málsins á borðið: Fjölmiðlar Norðurljósa hafa vogað sér að skaprauna hæstv. forsætisráðherra og gagnrýna hann og ríkisstjórnina.

Af því að ekki dugar að taka upp símann og hella sér yfir fréttamenn þessara miðla og hóta þeim eins og hæstv. forsætisráðherra gerði við umboðsmann Alþingis þá skulu þeir slegnir af eða, eins og Alfreð Þorsteinsson sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í vikunni: ,,Stöð 2 er á dauðalistanum.`` Þetta voru eigin orð helsta forustumanns Framsóknarflokksins í kjördæmi formanns Framsóknarflokksins. ,,Stöð 2 er á dauðalistanum.``

Því segi ég það, herra forseti, að þessi lög eru ekkert annað en lög um opinbera ritskoðun. Það á að ganga á milli bols og höfuðs á þeim fjölmiðlum sem ekki éta úr lófa hæstv. forsætisráðherra og sem ekki hlýða þegar hann tekur upp símann og hringir og messar yfir hausamótunum á þeim eins og hann er búinn að gera við flesta meiri háttar blaðamenn á síðustu missirum og árum. Þarna sýnist mér að valdstjórnin í sinni nöktustu og myrkustu mynd birtist. Hún er að stíga skref sem hafa aldrei verið stigin áður á Íslandi með því að beita valdi á Alþingi til þess að freista þess að koma fyrir kattarnef þeim fjölmiðlum sem hika ekki við að gagnrýna meðferð ríkisstjórnarinnar á valdi.

Þetta frumvarp er ekkert annað en tilraun til varanlegrar ritskoðunar. Hér á að koma aftur á ástandi þar sem fjölmiðlamarkaður samanstendur fyrst og fremst af Morgunblaði sem alltaf hleypur í vörn fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar hann rekur í strand og Ríkisútvarpi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur tögl og hagldir, einokar alla valdastóla innan stofnunarinnar, og þar sem pólitískt vald undir formennsku Sjálfstæðisflokksins fjallar um ráðningar blaðamanna. Ekki er liðinn mánuður síðan ungri konu var hafnað sem fréttamanni af því að hún hafði það eitt til saka unnið að vera gift upprennandi forustumanni í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og hún hafði leyft sér þá ósvinnu að stjórna strandblaki á kosningahátíð í flokki eiginmannsins. Svo að segja á sama degi var kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi ráðinn af RÚV. Herra forseti. Þetta tuskast Framsóknarflokkurinn til að verja og selur fyrir heiður og sjálfsvirðingu.

Það hefur aftur og aftur komið fram í umræðum á Alþingi eða í viðtölum við ráðherra ríkisstjórnarinnar að hin raunverulega ástæða þessa frumvarps er ritskoðun, er að koma múl á gagnrýna fjölmiðla. Hæstv. forsætisráðherra reið á vaðið í frægu viðtali þegar hann sagði í nokkru uppnámi daginn sem frumvarpið kom fram og hann var spurður í fjölmiðlunum um ástæðurnar fyrir frumvarpinu: ,,Hefurðu ekki séð stríðsfyrirsagnirnar? Hefurðu ekki séð árásirnar? Hefurðu ekki séð gauraganginn?`` Og forsætisráðherra sem aldrei bregst alkunn kurteisi hreytti því næst í fréttamanninn þegar hún hafði ekki séð það sem forsætisráðherra sá: ,,Þá þarftu nú að fá þér betri gleraugu.``

Herra forseti. Rökin sem hæstv. forsætisráðherra greip til að skýra frumvarpið lágu með öðrum orðum í því hvernig fjölmiðlar skrifuðu um hann. Ég spyr: Er það eitthvað annað en ritskoðun? Erfðaprins Framsóknarflokksins, sem ekki hefur þorað að stíga fæti sínum inn í þingsalinn frá því að hann hélt hér í makalausa ræðu fyrir um það bil tveimur vikum, þurfti þegar hann kom hér síðast að sjálfsögðu að sanna sig í augum kónganna. Og hann bætti nú um betur þegar hann kom hingað í þennan stól, reif upp opnu úr DV og sagði óvanalega hreinskilnislega að það gengi auðvitað ekki að dagblað leyfði sér þá smekkleysu að kalla hæstv. forsætisráðherra: ,,Kim Il Davíð``. Dagblað úti í bæ beitir aldagamalli tækni sem felst í háði og skopi gagnvart valdhöfum og það á bara að loka því. Hvaðan höfum við séð þessi vinnubrögð? Í alræðisríki sem er sem betur fer liðið undir lok.

Skýring hæstv. félagsmálaráðherra á þessu frumvarpi var því í reynd engin önnur en sú að það þurfti að mýla fjölmiðlana til þess að þeir sproksettu ekki ráðherrana og leyfðu sér ekki þann svakalega verknað að gagnrýna valdið. En ég spyr aftur: Er það eitthvað annað en opinber ritskoðun?

Ég hef síðan rakið það sem hæstv. dómsmálaráðherra missti hér út úr sér í hita leiksins laugardaginn var þegar hann sagði að fjölmiðlarnir hefðu gerst sekir um að skaprauna ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Það má auðvitað ekki og þess vegna þarf helst að loka þeim fjölmiðlum eða reyna að skrúfa þá niður sem leyfa sér að sinna aðhaldshlutverki gagnvart stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum eða fyrirtækjum í samfélaginu.

Fleiri tóku til máls með þessum hætti. Hæstv. menntamálaráðherra hefur nú átt makalausustu yfirlýsingarnar um nauðsyn þess að koma þessu frumvarpi í gegn. Hún sagði í fyrstu umræðunni sem hér fór fram um fjölmiðlaskýrsluna að í kjölfar þess að hæstv. forsætisráðherra hefði leyft sér að gagnrýna vöruverð í því sem hún kallaði einhverjum verslunum þá hefðu fjölmiðlar lagst í, með leyfi forseta:

,,... einhverjar svæsnustu árásir á persónu í stjórnmálum sem um getur á síðari árum ...``

Hæstv. menntamálaráðherra er ekkert að skafa utan af því. Hún er að segja að forsætisráðherra gagnrýni fyrirtæki úti í bæ og fyrirtækið svari með því að misbeita fjölmiðlum sínum til þess að gagnrýna forsætisráðherra. Niðurstaðan er: Lokum fjölmiðlunum. Er þetta nokkuð annað en opinber ritskoðun, herra forseti?

Hæstv. menntamálaráðherra var heldur ekki í neinum feluleik með raunverulegan tilgang þessa frumvarps þegar hún sagði undir lok þessarar sömu umræðu að menn vissu nú svo sem hvernig tilteknir fjölmiðlamógúlar í útlöndum styddu þá flokka sem hentaði hagsmunum þeirra best. ,,Á ég að styðja Verkamannaflokkinn núna? Eða á ég að styðja Íhaldsflokkinn?`` sagði hæstv. menntamálaráðherra í orðastað Ruperts Murdochs og hélt síðan áfram, með leyfi forseta:

,,Hvort á ég að gera? Hvort hentar hagsmunum mínum betur? Hvaða flokk á ég að styðja í þetta skiptið? Síðan er trillað niður á ritstjórnarskrifstofu og sagt: Gjörið svo vel, styðjum þann flokk sem hentar hagsmunum mínum best.``

Hér opinberar hæstv. ráðherra berum orðum og blákalt þá skoðun að fjölmiðlar Norðurljósa kunni ekki að styðja Sjálfstæðisflokkinn ef til kosninga komi, þeir kunni jafnvel að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn og hún notar það sem rök til þess að réttlæta þetta frumvarp. Það á bara að loka þeim fjölmiðlum eða veikja undirstöðu þeirra sem ekki tala eins og Sjálfstæðisflokknum er þóknanlegt. Mér dylst ekki hvað hér er á ferðinni. Dylst einhverjum hvað hér er á ferðinni? Ef þetta er ekki einbeittur vilji til að beita ritskoðun þá veit ég ekki hvað ritskoðun er því að í mínum huga rímar allt það sem hæstv. ráðherrar og forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt um tilurð og undirrót frumvarpsins við þetta eina orð, ritskoðun.

Munurinn á íslensku ríkisstjórninni og bandaríska varnarmálaráðherranum Donald Rumsfeld er sá einn að hann hættir að hlusta á fréttir þegar þær eru óþægilegar en ríkisstjórn Íslands hún skrúfar fyrir fjölmiðlana sem segja þær.

Herra forseti. Það hefur margsinnis komið fram í þessari umræðu að Samfylkingin hefur lýst þeirri skoðun að samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla, alveg eins og í öðrum greinum atvinnulífsins, feli í sér ákveðnar hættur til lengri tíma. Ég hef fyrir hönd Samfylkingarinnar hér í einum þremur ræðum og margsinnis í fjölmiðlum skilgreint þessar hættur ítarlega. Mér hefur stundum þótt það undarlegt að ég hef aldrei séð slíkar skilgreiningar koma úr munni þeirra sem reyna að verja þetta frumvarp. En allt um það. Ég ætla ekki að fara í frekari rökræður um það.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að þessar hættur séu tvær helstar, að eigandi stórra fjölmiðla geti samræmt ritstjórnarstefnu þeirra og reynt að misbeita henni gagnvart einstaklingi í viðskiptum, í stjórnmálum eða hreinum stjórnmálaflokkum. Það er hugsanlegt. Í örðu lagi er mögulegt að sami einstaklingur eða sami eigandi reyni með einhvern veginn gegnum tök sín á fjölmiðlunum að hygla sínum eigin fyrirtækjum og jafnframt mismuna öðrum fyrirtækjum á markaði. Við í Samfylkingunni höfum lagt fram ítarlegar leiðir sem við teljum að nái markmiðum þess frumvarps sem hér liggur fyrir miklu betur en leiðir frumvarpsins og með miklu vægari úrræðum. Óneitanlega er það þannig, af því að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins --- ég tala nú ekki um Framsóknarflokkinn því hann ræðir þetta mál helst ekki og fer bara með veggjum --- hafa kallað eftir málefnalegri umræðu af hálfu Samfylkingarinnar, að hér hefur hver þingmaður Samfylkingarinnar á fætur öðrum komið og lagt fram fjórþætta stefnu. En enginn þingmaður sjálfstæðismanna hefur komið og reynt á neinn hátt að drepa rökum undan þessum stefnumiðum okkar.

[11:45]

Ég hef lýst því líka yfir að ég tel ekki að þessi stefna Samfylkingarinnar sé fullkomin. En hún er sú besta sem völ er á í bili og hún hefur það með sér að hún byggir á meðalhófsreglunni sem er grunnur íslensks réttar. Sú regla, eins og hér hefur margsinnis komið fram, felur það í sér að stjórnvald þarf alltaf að beita vægustu leiðum til þess að ná lögmætu markmiði. Ég dreg það ekkert í efa að markmiðið fjölbreytni í fjölmiðlum er fyllilega lögmætt og að ákveðnar hættur fylgja samþjöppun á markaði til lengri tíma litið þó það sé ekkert í efnistökum eða fjölbreytni fjölmiðlanna í dag sem segir að við þurfum að ráðast í það einn, tveir og þrír.

Við höfum í stuttu máli sagt, herra forseti, að það sé hægt að vinna gegn hættum samþjöppunar og tryggja fjölbreytni með því að stórefla Ríkisútvarpið sem var tillaga fjölmiðlanefndar númer eitt. Þá er auðvitað nauðsynlegt að frelsa það úr hinum pólitísku fjötrum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt á það, með því að setja lög sem tryggja sjálfstæði og frelsi ritstjórna gagnvart eigendum, með því að tryggja með lögum að almenningur eigi greiðan aðgang að upplýsingum hverjir eigi fjölmiðlana og með því að beita samkeppnislögum og styrkja Samkeppnisstofnun.

Ég verð að rifja það hér upp, herra forseti, að í gær hélt hv. þm. Gunnar Birgisson skelegga og merka ræðu. Ég heyrði ekki betur en hann væri sammála tveimur af þessum fjórum markmiðum. Í dag er staðan þannig, eins og ég hef rakið í minni ræðu, að það er einfaldlega ekkert sem rekur á eftir því að ráðast í mikilli skyndingu í þessar umfangsmiklu og íþyngjandi lagabreytingar. Þvert á móti hef ég hér rakið ummæli formanns fjölmiðlanefndar ríkisstjórnarinnar sem sagði blákalt í sjónvarpsþætti að í dag ríkti fjölbreytni í fjölmiðlun og Davíð Þór Björgvinsson hefur sérstaklega rakið þá fjölbreytni til fjölmiðla þess fyrirtækis sem ríkisstjórnin vill leggja að velli. Það skiptir ákaflega miklu máli vegna þess að þeir sem hafa talað af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa jafnan reynt að skjóta sér á bak við bæði fjölmiðlanefndina og umræddan prófessor.

Við höfum hér bráðum í þrjár umræður rætt í þaula meginatriði frumvarpsins. Ég vil bara í örstuttu máli í lokin rifja upp nokkrar helstu röksemdir Samfylkingarinnar gegn ýmsum ákvæðum þess sem beinlínis vinna gegn yfirlýstu markmiði um fjölbreytni á markaðnum. Frumvarpið bannar að fyrirtæki í óskyldum rekstri fái útvarpsleyfi og eigi meira en 35% hlut í fjölmiðli. Ég tel að þetta ákvæði hamli í fyrsta lagi verulega gegn möguleikum fyrirtækja til að fjárfesta í útvarpsrekstri. Í öðru lagi takmarkar það verulega möguleika fyrirtækja í óskyldum rekstri til að stofna fjölmiðla og hefja samkeppni við þau fyrirtæki sem eru þegar fyrir. Þess vegna stríðir þetta ákvæði augljóslega gegn markmiðum samkeppnislaga. Það undrar þess vegna engan þegar ég rifja það upp að Samkeppnistofnun hefur harðlega lagst gegn þessu ákvæði. Hún hefur farið fram á að það verði tekið út úr frumvarpinu. Ástæðan er sú að þetta ákvæði frumvarpsins vinnur alveg augljóslega gegn markmiði frumvarpsins um fjölbreytni.

Frumvarpið bannar líka að markaðsráðandi fyrirtæki eigi meira en 5% í fjölmiðlum. Sýnt hefur verið fram á það í þessari umræðu af hv. þm. Ásgeiri Friðgeirssyni, og enginn þeirra þingmanna sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sem hlustuðu á þá ræðu hefur treyst sér til að mótmæla því, að þetta ákvæði útilokar 60 af þeim 90 fyrirtækjum sem skiluðu mestum hagnaði á síðasta ári samkvæmt upplýsingum í nýlegu viðskiptariti og þau 30 sem eftir eru eru aðallega sjávarútvegsfyrirtæki. Það liggur svo berlega í augum uppi, Gráni minn, svo ég vísi nú í orð þjóðskáldsins Megasar, að ákvæðið kemur nánast í veg fyrir að þau fyrirtæki á Íslandi sem eiga fjármagn geti lagt fram fé sem einhverju nemur til þess að byggja upp fjölmiðla. Þetta ákvæði stríðir því augljóslega líka gegn samkeppnislögum enda hefur Samkeppnisstofnun lagt til að það fari út úr frumvarpinu. Ákvæðið um markaðsráðandi fyrirtæki, eins og það er í dag, vinnur því alveg ljóslega gegn markmiðum um fjölbreytni.

Frumvarpið bannar líka að fyrirtæki sem eru tengd útgefanda dagblaðs hafi útvarpsleyfi. Það er náttúrlega alveg ljóst að í þessu felast augljósar samkeppnishindranir fyrir utan önnur áhrif sem ég kann að rekja síðar í ræðu minni. Samkeppni á fjölmiðlamarkaði er ein af forsendum fjölbreytni og úr því að þetta ákvæði vinnur gegn samkeppni þá vinnur það líka gegn fjölbreytni. Samkeppnisstofnun hefur líka lagst gegn þessu ákvæði í óbreyttri mynd.

Þá liggur það fyrir, herra forseti, af því ég veit að hæstv. forseti er áhugamaður um þetta mál og ber á því ábyrgð, að Samkeppnisstofnun hefur lagst gegn ekki einni, ekki tveimur, heldur þremur megingreinum frumvarpsins eftir breytingarnar. Undrar þá einhvern þó menn standi ekki upp og hrópi hallelúja þegar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd koma heiðir og með glitrandi augu af fundi nefndarinnar og segjast vera búnir að setja byttur undir alla lekana á frumvarpinu. Því miður, frumvarpið er enn jafngötótt gagnvart markmiðum samkeppnislaga og áður og Samkeppnisstofnun hefur ekki breytt áliti sínu á þessu. Það liggur einfaldlega fyrir.

Ég gæti, herra forseti, farið nokkrum orðum um stjórnarskrána blessaða sem hæstv. ráðherrar eru farnir að umgangast af sömu virðingu og gamalt og lúið plagg. En ég ætla ekki að þreyta þingheim með því að fara djúpt í þá umræðu.

Ég vil samt rifja það upp að Sigurður Líndal, lærimeistari hinna upprennandi ungu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og sá sem ber ábyrgð á lagalegri kunnáttu þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar, segir þessum gömlu nemendum sínum það umbúðalaust að ákvæðin um markaðsráðandi fyrirtæki og bannið gegn því að ljósvakamiðill og dagblað séu á einni og sömu hendi kunni að varða bæði við ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi og jafnræði. Sú hætta liggur reyndar svo í augum uppi að hún ætti að vera hvaða mannsbarni ljós. Ef einhver einstaklingur eða fyrirtæki má ekki gefa út dagblað þá er það einfaldlega ljóst að honum er mismunað, jafnræðisregla stjórnarskrárinnar er þá í hættu og prentfrelsið er af honum tekið. Á þetta hefur hv. þm. Jóhann Ársælsson bent í mörgum ræðum hér. Ég minnist þess ekki að nokkur maður hafi reynt að hrekja þetta. Ég held að þeir stjórnskipunarspekingar sem fjalla um þetta í fjölmiðlum þessa dagana séu sífellt að harðna í afstöðu sinni til þessa tiltekna atriðis enda finnast engin dæmi um það á byggðu bóli að lagt sé bann við þessu. Þær upplýsingar sem hingað voru færðar um að það væri bannað í Bandaríkjunum reyndust rangar þegar það var skoðað.

Það er alveg ljóst að af sömu rökum og þarna er jafnræðisreglan í uppnámi þá er ákvæði um tjáningarfrelsi líka í uppnámi. Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að ég er ekki að segja fortakslaust að hér sé um brot á stjórnarskránni að ræða. Ég sagði það um afturvirknina sem hv. þingmenn hafa lagfært með breytingartillögum sínum. Ég var algjörlega viss um að það væri brot á stjórnarskrá. En um þessi flóknu atriði segi ég: Það liggur fyrir rökstutt álit margra sérfræðinga sem jafnan hafa verið kvaddir til þegar álitamál af þessu tagi rísa og þeir telja að þetta sé meira en hugsanlegt. Þá ríkir nægur vafi í mínum vafi til þess að segja: Stopp. Hingað og ekki lengra. Skoðum þetta.

Sigurður Líndal segir það reyndar svart á hvítu í fjölmiðlum í vikunni að ef fjölmiðlafyrirtæki eru settar mjög þröngar skorður um að afla fjár til rekstrar þá kynni það líka að bitna á stjórnarskrárvörðum rétti Íslendinga til tjáningarfrelsis. Það er ekki nóg með það heldur hefur Sigurður Líndal eins og reyndar fleiri bent á að yfirlýsingar forsætisráðherra, þegar honum urðu á þau afdrifaríku mistök að ráðast á forseta lýðveldisins, benda auðvitað mjög sterklega til þess að tilgangurinn með lögunum sé ekki almennur heldur sértækur. Orð hæstv. forsætisráðherra þegar hann réðst að forseta lýðveldisins í hinu dæmalausa afmælisávarpi sem hann flutti á afmælisdegi forsetans svipti hulunni af því sem var að gerast. Þar var það einfaldlega sagt að forsetinn væri vanhæfur vegna þess að dóttir hans ynni hjá Baugi. Var þá ekki alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra taldi að frumvarpið beindist gegn Baugi? Þetta, sagði Sigurður Líndal, gæti leitt til þess að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sé ekki gætt.

Jónatan Þórmundsson lagaprófessor hefur orðað þetta öðruvísi. Hann hefur sagt að ef frumvarp af þessu tagi beinist gegn einu tilteknu fyrirtæki þá felist í því dulinn tilgangur sem varði við stjórnarskrána. Það er svo hægt að benda á kannski þrenn, fern önnur rök sem benda til þess, taka ekki af allan vafa en benda til þess að frumvarpið sneiði það harkalega að jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar, eins og svo margir þaulreyndir lagaspekingar hafa bent á, að þar sé of harkalega gengið um garða. Enda rifja ég það aftur upp að Jakob R. Möller, sem er hugsanlega líka einn af kennurum hv. þingmanna sem ég hef hér nefnt til sögunnar, kallaði breytingarnar ekkert annað en þýðingarlitlar fegrunaraðgerðir.

Herra forseti. Atburðarásin hefur verið með ólíkindum, hraðinn, fyrirhyggjuleysið og flaustrið. Ég held að sé hollt fyrir okkur að draga þessa atburðarás saman í stikkorðastíl til þess að menn átti sig betur á vinnubrögðunum í málinu.

Samin er skýrsla á methraða, svo miklum að ekki gefst tími til að kanna hvaða lagasetning mundi standast EES-samninginn.

Fyrsta tillaga nefndarinnar til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun er að styrkja Ríkisútvarpið. Á RÚV er þó ekki minnst í frumvarpinu.

Um leið og skýrslan er lögð fram í ríkisstjórn kynnir hæstv. forsætisráðherra frumvarp þar sem meira að segja var upphaflega gert ráð fyrir að dagblaðaútgáfa yrði leyfisskyld.

Fram kemur síðan frumvarp með afturvirkum lagabókstaf og sem að mati sérfræðinga brýtur gegn eignarrétti, tjáningarfrelsi og atvinnufrelsi og mannréttindasáttmála Evrópu.

Frumvarpið vinnur augljóslega gegn tilgangi sínum, fjölbreytni, og stofnar atvinnu hundruða í voða.

Umsagnaraðilar fá tvo daga til að skila umsögn.

ASÍ, Samtök atvinnulífsins, Verslunarráð, allir nema keppinautar Norðurljósa eru andvígir frumvarpinu.

Hæstv. forsætisráðherra lofar svo að gefa allan þann tíma sem þarf til að fjalla um málið en strax á eftir neitar allsherjarnefnd að hlusta á alla málsaðila.

Efnahags- og viðskiptanefnd fær ekki tíma til að ljúka umsögn.

Menntamálanefnd fær ekki tíma til að ljúka umsögn.

Tvisvar til viðbótar eru svo gerðar breytingar á frumvarpinu þó í öll fyrri skiptin hafi stjórnarliðar lýst því yfir að frumvarpið í þáverandi mynd sé best allra frumvarpa.

Ráðherrar veifa dagblöðum í ræðustól og segja að þessi skrif verði að stöðva.

Forsætisráðherra tekur af öll tvímæli um að frumvarpið beinist gegn einu fyrirtæki um leið og hann blandar fjölskyldu forseta lýðveldisins í málið.

Allur málflutningur sjálfstæðismanna snýst um eitt fyrirtæki.

Í næstu viku er líklegt að hér verði samþykkt frumvarp sem að mati sérfræðinga brýtur gegn tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi og mannréttindasáttmála Evrópu. Frumvarpið vinnur gegn tilgangi sínum, fjölbreytni, og það stofnar atvinnu hundruða í voða.

Allt gerist þetta af því að forsætisráðherra er með tiltekið fyrirtæki á heilanum og leggur það í einelti og vegna þess að Halldór Ásgrímsson verður forsætisráðherra 15. september.