Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 24. maí 2004, kl. 13:45:06 (8852)

2004-05-24 13:45:06# 130. lþ. 123.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, forsrh. (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. 13. febrúar 1995 voru eftirfarandi orð höfð uppi í þessum sal, með leyfi forseta:

,,Hringamyndanir á sviði fjölmiðla ganga þannig þvert á nútímahugsun á vettvangi lýðræðis. Þannig hafa í ýmsum lýðræðisríkjum eins og í Bandaríkjunum og Evrópu verið sett í lög margvísleg ákvæði sem koma í veg fyrir hringamyndanir, ákvæði sem koma í veg fyrir það að sömu aðilarnir geti haft ráðandi vald á dagblöðum, á sjónvarpsstöðvum og á útvarpsstöðvum. Engin slík lög eru til hér á Íslandi.``

Áfram, með leyfi forseta, sagði:

,,Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér og tel að í þeim felist mikilvæg viðurkenning á því að þessi mál þurfi að takast til sérstakrar könnunar og skoða mjög rækilega og með opnum huga hvort ekki þurfi að setja reglur og jafnvel lög sem tryggja trúverðugleika fjölmiðlunar í landinu og komi í veg fyrir óeðlileg valdatengsl og hringamyndun á þessu sviði. Það eru auðvitað gildar ástæður fyrir því að þróuð lýðræðisríki, bæði í Evrópu og Bandaríkin, hafa talið nauðsynlegt að setja slík lög og slíkar reglur vegna þess að máttur hinna stóru á þessu sviði er slíkur þótt um leið hafi tæknin opnað fyrir hina smáu að það er ekki hægt í lýðfrjálsu ríki að sætta sig við slíkt vald. Á sama tíma og menn eru að breyta stjórnarskrá í átt að meiri mannréttindum er nauðsynlegt að tryggja þetta.``

Ég geri þessi orð Ólafs Ragnars Grímssonar að mínum orðum. Hafi þau verið rétt þá eru þau enn þá réttari núna.

Þegar til frjáls útvarps var stofnað og einokun Ríkisútvarpsins afnumin treysti enginn þingmaður Alþýðuflokksins, enginn þingmaður Alþýðubandalagsins, enginn þingmaður Kvennalista sér til að styðja það að einkaaðilar eða fyrirtæki fengju að útvarpa. Eingöngu mætti Ríkisútvarpið gera það. Enginn þessara flokka treysti sér til þess að styðja það að slík einokun væri afnumin. Og hvaða rökum var beitt? Það var sagt: Við erum ekki út af fyrir sig á móti efninu, við erum á móti þessari málsmeðferð, á móti þessu offorsi, á móti þessum hraða. Kannast einhver við orðalagið? Kannast einhver við hvernig menn reyna að forðast efnislega umræðu? Þessum aðilum skjátlaðist þá eins og sagan sýnir. Þessum aðilum skjátlast núna.