Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 16:27:41 (8926)

2004-05-25 16:27:41# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur farið fram um þetta mál í dag, tek undir með mörgum hv. þingmönnum sem hafa bent á að þegar um slíkt stórmál er að ræða er eðlilegt að um það fari fram umræða.

Ég vil í upphafi máls míns, hæstv. forseti, taka af öll tvímæli um það og ítreka það sem ég hef áður sagt að það stendur ekki til að einkavæða Íbúðalánasjóð. Sú fullyrðing að breytingar á fyrirkomulagi lánasjóðsins muni auðvelda slíka einkavæðingu miðað við fyrirkomulag húsbréfakerfisins á ekki við, enda endurtek ég að slíkt er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar.

Hér hefur verið fjallað um málið vítt og breitt, hæstv. forseti, og m.a. fjallað um hvort tímasetning þessara breytinga sé heppileg, bæði hvað varðar stöðu efnahagslífsins og þróun vaxta á alþjóðlegum markaði. Rekstur á alþjóðlegum fjármálamarkaði hefur verið í sögulegu lágmarki á undanförnum missirum og þótt vextir taki eitthvað að hækka á næstu mánuðum, er mjög líklegt að vextir á alþjóðlegum fjármálamarkaði verði nokkuð undir því sem hér hefur þekkst fram til þessa. Breyting á fyrirkomulagi útlána Íbúðalánasjóðs er líkleg til þess að skila íslenskum fjölskyldum mun lægri vöxtum en hingað til hafa þekkst. Breytingarnar munu minnka verulega það bil sem er á vöxtum íslenskra húsnæðislána og vöxtum á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Þegar þessi munur hefur minnkað og náð jafnvægi mun vaxtastig íbúðalána taka aukið mið af vöxtum á alþjóðamarkaði. Það á, hæstv. forseti, að tryggja íbúðakaupendum lægstu mögulegu markaðsvexti á íslenskum lánum hverju sinni.

Það er ljóst að sú vinna sem hefur verið unnin á undanförnum mánuðum til að þróa húsnæðislánakerfið hefur þegar skilað Íslendingum lægri vöxtum og gert það að verkum að bankakerfið hefur nú þegar tekið upp fjölbreyttari húsnæðislán til hliðar við hið opinbera húsnæðislánakerfi, sem er sá trausti grunnur sem fjölskyldurnar í landinu geta áfram byggt á. Þessi þróun hefur orðið almenningi til góða og byggir á tilvist Íbúðalánasjóðs sem ríkisstjórnin hefur með stefnumótun sinni tryggt að standi áfram öflugur.

Hér hefur verið fjallað um áhættugreiningu og áhættustýringu, hæstv. forseti, og af því tilefni er rétt að ítreka að á undanförnum mánuðum hefur Íbúðalánasjóður lagt í mikla og vandaða vinnu við undirbúning áhættugreiningar og fengið til liðs við sig öflugt erlent fyrirtæki til að byggja upp trygga og örugga áhættustýringu sjóðsins.

[16:30]

Nú þegar hefur verið sett upp nýtt öflugt áhættustýringarkerfi í sjóðnum í samræmi við það sem best gerist í Evrópu. Það var verið að leggja lokahönd á áhættustýringarstefnu sjóðsins í samræmi við ákvæði þess frumvarps sem hér er til umræðu, auk þess sem unnið er að reglugerð um áhættustýringu sjóðsins.

Ein helsta gagnrýnin, hæstv. forseti, sem fram hefur komið á þetta frv. snýr að heimild til uppgreiðslu lána og ljóst að sumir telja hana flöskuháls í þessu nýja kerfi. Heimild lántakenda til uppgreiðslu lána, hæstv. forseti, er tryggð í þessu frumvarpi. Hins vegar er uppgreiðsluheimild á fjármögnunarbréfum sjóðsins, íbúðabréfunum, afnumin. Afnám hennar mun væntanlega skila lántakendum 0,3--0,5% lægri vöxtum en annars hefði orðið. Þetta eykur vissulega áhættu Íbúðalánasjóðs frá því sem hefur verið, en með öflugu áhættustýringarkerfi eins og ég lýsti hér áðan og þeim úrræðum sem sjóðnum er ætlað með sérstöku áhættuálagi, verður sú áhætta óveruleg.

Hér hefur verið fjallað um lánskjör, mismunandi lánskjör, milli tímabila. Það er vissulega rétt að þau munu breytast í takt við ávöxtunarkröfu á markaði hverju sinni, en á móti munu lántakendur njóta bestu mögulegu vaxta á fjármálamarkaði hverju sinni. Það skekkir ekki verðmyndun á fasteignamarkaði umfram það sem mismunandi kjör lána í núverandi kerfi gerir. Það skal undirstrikað að þetta frv., verði það að lögum, tryggir lántakendum almennt rétt til uppgreiðslu lána án sérstakrar uppgreiðsluþóknunar.

Hæstv. forseti. Aðeins um vexti og vaxtamyndun. Hér hefur verið fjallað um vaxtamyndunina og m.a. hvort það kunni að vera að vextir hefðu getað lækkað meira heldur en raun hefur borið vitni ef ekki hefði verið lagt upp með það markmið sem um er fjallað í þessu frumvarpi. Ég vil um það segja að það er ekki rétt að vextir á húsbréfum hefðu verið lækkaðir niður fyrir 4% ef ekki stefndi í þær breytingar sem við hér ræðum. Forsendur þess að lækka vexti húsbréfa í 4% sköpuðust ekki fyrr en eftir að tilkynnt hafði verið um fyrirhugaðar breytingar, þær breytingar sem við fjöllum um hér, en sú ákvörðun hefur m.a. orðið til þess að lækka ávöxtunarkröfu á markaði og án hennar hefði ekki verið unnt að lækka vexti húsbréfa nema um kannski 20--30 punkta og ég minni á að við lækkuðum eða stjórn Íbúðalánasjóðs tók ákvörðun um lækkun vaxta um áramótin úr 5,7 og 5,6% í 5,3%. Mismunurinn milli ávöxtunarkröfu hús- og húsnæðisbréfa endurspeglar einmitt þann kostnað sem markaðurinn metur núverandi uppgreiðsluheimild Íbúðalánasjóðs á húsbréfunum, hæstv. forseti.

Hér hefur aðeins verið rætt um það, t.d. af hv. þm. Gunnari Örlygssyni, hvort breytingarnar sem við fjöllum um mundu hafa einhver áhrif á nýbyggingalán hjá Íbúðalánasjóði. Ég vil, hæstv. forseti, af því tilefni taka af öll tvímæli um það að breytingarnar sem hér er fjallað um munu ekki hafa nein áhrif á nýbyggingalán.

Meira um uppgreiðsluákvæðin. Hér hefur m.a. verið fjallað um athugasemdir Seðlabankans og vegna þeirra er rétt að taka fram að fólk mun ekki geta greitt upp óhagstæð lán og tekið önnur ódýrari öðruvísi en selja húsnæði sitt og flytja. Það er engin breyting frá því sem er í núverandi kerfi. Við vaxtaákvarðanir Íbúðalánasjóðs verður byggt á meðaltali uppgreiddra skulda og vaxta á markaði, þannig að uppgreiðsla mun ekki hafa áhrif á sjóðinn taki menn ný lán hjá sjóðnum. Íbúðalánasjóður mun beita hefðbundnum áhættustýringaraðferðum sem gera það að verkum að leitast verður við að jafna skuldir og eignir sjóðsins m.a. með tilliti til vaxta og líftíma.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum, hæstv. forseti. Ef innköllunarákvæði væru áfram á bréfunum, þá mundu vaxtakjör til lántakenda verða hærri en ella. Meginregla frumvarpsins er að lántakendum er ætíð heimilt að greiða upp lán sín án sérstakrar uppgreiðsluþóknunar. Það er hins vegar heimild í frumvarpinu til að beita sérstöku ákvæði sem algjörri neyðarheimild. Vegna þessa vil ég rekja, hæstv. forseti, hvernig sú niðurstaða fannst sem sést í frumvarpinu og þar sem fjallað er um uppgreiðsluna. Nú er lántakendum í húsbréfakerfinu heimilt að greiða upp lán hvenær sem er á lánstíma án aukakostnaðar. Verð þeirra réttinda endurspeglast í hærri ávöxtunarkröfu til húsbréfa á markaði sem nemur uppgreiðsluáhættunni. Allir lántakar bera því saman þennan uppgreiðslukostnað í kerfinu eins og það er.

Það hefur verið samstaða um að afnema uppgreiðsluheimild gagnvart fjárfestunum, hæstv. forseti, til að auka á markaðshæfi íbúðabréfa og skapa þannig forsendur fyrir lægri vöxtum. Við þær breytingar skapast hins vegar hætta á ójafnvægi milli inn- og útlána sjóðsins ef sjóðnum er ekki mögulegt að bregðast við uppgreiðslum lántaka með því að leysa til sín bréf á markaði með útdrætti. Nefnd um endurskipulagningu skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs lagði til að brugðist yrði við þessum vanda með því að skuldara sem nýtti uppgreiðsluheimild yrði gert að greiða að fullu þann vaxtamun sem hlytist af uppgreiðslu láns fyrir lokagjalddaga.

Veruleg vandkvæði eru á því að leysa þetta mál með þeim hætti. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Það er eðlilegt að beita aðferð sem jafnar uppgreiðslukostnað á alla lántakendur með sama hætti og nú er gert. Með því er stuðlað að sveigjanleika í eftirspurn eftir lánum og unnið gegn sveiflum sem geta myndast við öra hreyfingu vaxtaferils. Ef uppgreiðslukostnaður væri felldur að öllu leyti á viðkomandi lántaka, mundi það torvelda skuldurum mjög að yfirgefa kerfið. Það stríðir raunar beint gegn markmiðum að skapa kerfinu hóflegt umfang og torvelda ekki lánastarfsemi innlendra og erlendra banka á húsnæðismarkaði.

Það væri, hæstv. forseti, illmögulegt að sannfæra nokkurn, þar með talda Eftirlitsstofnun EFTA, um ágæti þeirrar breytingar sem við nú leggjum til á húsnæðiskerfinu ef samhliða væri gripið til aðgerða sem torvelduðu lántakendum mjög að færa lán sín frá Íbúðalánasjóði til annarra lánveitenda. Með því yrði innlendur markaður með íbúðalán í reynd lokaður frá erlendri samkeppni og raunar allri samkeppni.

Síðast en ekki síst þá falla lán Íbúðalánasjóðs undir ákvæði laga um neytendalán, samanber breytingu á þeim lögum frá árinu 2000. Samkvæmt 16. gr. þeirra laga skal neytanda, með leyfi forseta, ,,heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningi fyrir þann tíma sem umsaminn er. Notfæri neytandi sér heimild þessa á hann rétt á lækkun á heildarlántökukostnaði sem nemur þeim vöxtum og öðrum gjöldum sem greiða átti eftir greiðsludag.``

Ef kostnaður vegna uppgreiðslna yrði felldur á hvern og einn skuldara, yrði gengið gegn stefnumörkun löggjafans að þessu leyti. Af hálfu félmrn. hefur því verið litið svo á að lausn þessa máls hljóti að felast í niðurjöfnun uppgreiðslukostnaðar með áþekkum hætti og gert er í núgildandi húsnæðislánakerfi. Hin almenna regla yrði því sú að útlánsvextir tækju mið af fjármögnunarkostnaði sjóðsins í heild. Í því felst að vextir yrðu ákveðnir sem vegið meðaltal vaxta í útboði og vaxta uppgreiddra lána. Með þessu móti mundi vaxtamunur milli fjármögnunarkostnaðar og útlánsvaxta jafnast út á ný lán með áþekkum hætti og gerist í núverandi kerfi og lágmarka áhættu sjóðsins.

Hæstv. forseti. Hér hefur verið fjallað um erlenda fjárfesta og þátttöku þeirra í fjármögnun kerfisins. Þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að áfram verði um þátttöku erlendra fjárfesta að ræða og raunar ætti þátttaka þeirra að verða aukin nái breytingin fram að ganga. Með fjárfestingum sínum færa erlendir fjárfestar innlendan skuldabréfamarkað og vexti nær því sem gerist erlendis og það hefur sýnt sig undanfarin tvö ár að ávöxtunarkrafa hér á landi hefur lækkað umtalsvert sökum aukinna fjárfestinga erlendra aðila sem telja vexti hér á landi háa í alþjóðlegum samanburði.

Hér hefur verið spurt: Hvað ef erlendir fjárfestar fara? Eftirspurn eftir tryggum verðbólgutengdum skuldabréfum er mjög mikil á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Sérfræðingar erlendis telja að nú sé markaður fyrir margfalt magn þeirra skuldabréfa sem nú stendur til boða á fjármálamörkuðum. Íslensk skuldabréf eru nú um 1% af heimsmarkaðnum með verðbólgutengd skuldabréf. Því er sú staða sem hér hefur verið vakin athygli á að gæti komið upp afar ólíkleg, hæstv. forseti. Ef einn aðili selur býður það yfirleitt upp á kauptækifæri fyrir annan og þannig verður virk vaxtamyndun á markaði til. Lán Íbúðalánasjóðs taka mið af vöxtum á markaði hverju sinni.

Hæstv. forseti. Hér hefur líka verið fjallað um brtt. minni hlutans á lögunum um húsnæðismál, nr. 44/1998, þar sem í tillögunni, með leyfi forseta, segir:

,,Skipta má fasteignaveðbréfi og húsbréfum fyrir fjárhæð sem nemur allt að 70%.`` Breyting verði þar á. Greinin hljóðar þannig eftir breytinguna: ,,Lánveiting samkvæmt ÍLS veðbréfi getur numið allt að 90%.``

Ég vil um þetta segja, hæstv. forseti, að ég fagna tillögunni. Hún gengur í sömu átt og við framsóknarmenn boðuðum í kosningabaráttunni sl. vor og ríkisstjórnin hefur staðfest með stjórnarsáttmála sínum að hér verði í fyllingu tímans boðin 90% húsnæðislán. Það mál er eins og hv. þingmönnum er fullkunnugt um til skoðunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA og það væri mjög óeðlilegt ef við gengjum fram í því máli áður en niðurstaða stofnunarinnar liggur fyrir, enda væri það að mínu viti ekki í samræmi við málflutning hv. þingmanna, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu, á undanförnum dögum.

Ég hins vegar fagna tillögunni og reikna þar með góðum stuðningi við það frumvarp sem ég hef boðað að ég muni leggja hér fram á haustþingi, hæstv. forseti, og lýtur að hækkun lánanna, bæði í krónutölu og hlutfalli.

Hér hefur verið fjallað um mörg atriði, hæstv. forseti, m.a. álitamál varðandi lífeyrissjóðina. Mér er kunnugt um það álitamál. Íbúðalánasjóður hefur óskað eftir afstöðu félmrn. til þess máls og það er til skoðunar í ráðuneytinu. Hér hefur líka verið fjallað um félagslegan þátt húsnæðiskerfisins og sú nefnd sem ég skipaði sl. sumar og hefur það hlutverk að greina og gera tillögu um úrbætur á leigumarkaði, hefur unnið umfangsmikið starf og mun á næstunni skila skýrslu sinni. Ég geri ráð fyrir því og tel ekki ástæðu til að ætla annað en mér takist að gera Alþingi skil á niðurstöðu þeirrar vinnu hér á haustþingi og verði þá með tillögur um hugsanlegar breytingar og úrbætur í því kerfi.

Hér hefur líka hv. þm. Ögmundur Jónasson fjallað um brtt. varðandi 5. gr. frv. þar sem fjallað er um að stjórn Íbúðalánasjóðs skuli eftir því sem kostur er og að fengnu samþykki félmrh. semja við aðila á markaði um afgreiðslu og innheimtu lána eða einstakra flokka þeirra og velt fyrir sér hvers vegna þessi brtt. hafi komið fram. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem mælir hér fyrir þessu máli mun sjálfsagt gera betur grein fyrir því hér á eftir, hæstv. forseti, hvers vegna þessi brtt. er komin fram. En ég vil vekja athygli á því að í gildandi lögum segir, með leyfi forseta, um það sama:

,,Stjórn Íbúðalánasjóðs skal, að fengnu samþykki félmrh., semja við lánastofnanir um afgreiðslu og innheimtu lána eða einstakra flokka þeirra.``

Þannig að hér er um mildandi ákvæði að ræða eins og það lítur út núna með brtt. meiri hluta félmn.

Hv. þm. Jón Bjarnason spurði hér m.a. hvort líklegt væri að þessi 5. gr. og inntak hennar hefði einhver áhrif á m.a. starfsemi Íbúðalánasjóðs á Sauðárkróki? Ég vil svara því hreint og klárt að hún mun ekki hafa nein áhrif á það. Hv. þm. þarf ekki að hafa áhyggjur af því. (Gripið fram í.) Ég er miklu frekar tilbúinn til þess að skoða það, hv. þm. Jón Bjarnason, að flytja stærri hluta þangað heldur en minni.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fjallaði um verð- og gengistryggingalán, m.a. hvort Íbúðalánasjóður hefði fjallað um kosti þess og galla að bjóða upp á verðtryggð og óverðtryggð lán. Það er um það að segja, hæstv. forseti, að óverðtryggð lán leiða nánast örugglega til hærri vaxta en ella. Það varðar líka ávöxtunarkröfuna á markaði. Eins og ég rakti hér í máli mínu áðan sækjast fjárfestar nú í auknum mæli eftir verðtryggðum bréfum á markaði sem mun væntanlega geta tryggt okkur lægri vexti fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Ég held, hæstv. forseti, að mér hafi tekist hér að snerta á flestum þeim álitaefnum sem fram hafa komið við þessa umræðu. Ég vil þakka góða og gagnlega umræðu og vonast til að okkur takist að ljúka þessu máli hér á hv. Alþingi hið fyrsta.