Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 16:54:34 (8932)

2004-05-25 16:54:34# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[16:54]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum nú hér að lenda í umræðu um allt annað mál en það sem er til umfjöllunar. Hér er ekki verið að fjalla um 90% lánin. Ég mun taka umræðu um það mál fagnandi, vonandi á haustþingi. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Björgvins Sigurðarsonar, þá höfðum við framsóknarmenn að sjálfsögðu gert okkur ákveðnar hugmyndir um það í kosningabaráttunni með hvaða hætti þetta yrði sett fram og sú áætlun hefur reyndar orðið fræg, því Morgunblaðið hefur birt hana í heild sinni, gerði það sl. sumar, áætlun sem ég sem þáverandi framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins setti fram sem hugsanlega framkvæmdaáætlun í þessu efni.

Það liggur fyrir, hæstv. forseti, að þegar álit Eftirlitsstofnunar EFTA kemur fram, sem vonandi verður snemma á þessu sumri, þá mun áætlun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum verða lögð fram. Því að ég bið hv. þingmenn að sýna þolinmæði og hlakka til að njóta stuðnings þeirra við framkvæmd málsins á haustþingi.