Húsnæðismál

Þriðjudaginn 25. maí 2004, kl. 17:11:37 (8938)

2004-05-25 17:11:37# 130. lþ. 125.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv. 57/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er efnt til umræðu um húsnæðismál í Reykjavík. Ég er svo ljónheppinn að ég á enn eftir síðari ræðu mína og er alveg tilbúinn að taka þá umræðu við hv. þm. Ég sagði að ég þakkaði Guði fyrir að Reykvíkingar væru lausir við íhaldið, vegna þess að landsmenn hafa fengið að kenna á stefnu Sjálfstæðisflokksins í húsnæðismálum. Því miður hefur Framsóknarflokkurinn dansað með. Ég rifjaði upp hvernig vextir á lánum til félagslegra aðila sem sinna félagslegri þörf voru hækkaðir úr 1% í allt að 4,9%. Sveitarfélögin þurfa að borga 3,4%. Þetta hefur aukið greiðslubyrði þeirra verulega og gert þeim erfiðara um vik að sinna félagslegri þörf.

Varðandi aðra efnisþætti sem hv. þm. kom inn á, þá er það alveg rétt að bankarnir og sjóðirnir sem vilja fá húsnæðiskerfið til sín ætlast til þess að það sé ríkisábyrgð á þessum lánum. En, nota bene, aðeins fyrst í stað. Vegna þess að þegar lengra líður þá er ætlunin að afnema allar slíkar ábyrgðir og færa þessa starfsemi út í bankana. Þeir hafa viðurkennt í mín eyru og opinberlega að þetta muni leiða til hærri húsnæðiskostnaðar.

Síðan að lokum þetta: Ég ætla að færa hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni litla afmælisgjöf í tilefni af afmæli Sjálfstæðisflokksins. Hún er sú, þótt mig langi mikið til að fjalla hér í ítarlegu máli um húsnæðismál í Reykjavík, að falla frá því að biðja um orðið að nýju.